Íslandsmet í fjöldaspuna
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Þetta gekk frábærlega, hér var troðfullt hús af áhugasömu fólki um ullarvinnslu og ullarvöru og við fórum létt með að setja Íslandsmet í fjöldaspuna,“ segir Maja Siska hjá Spunasystrum.
„Það voru sextíu og þrjár konur og einn karl sem tóku þátt í metinu okkar en hópurinn sat við rokkana eða snældurnar og spann í klukkutíma í Brúarlundi í Landsveit frá kl. 14.00 til 15.00 sunnudaginn 9. október,“ segir Maja.
Spunasystur hafa aðstöðu í Brúarlundi en þær eru nú með sýningu þar sem heitir „Frá fé til flíkur“.
Opið verður helgarnar 22. til 23. október og 5. til 6. nóvember frá kl. 10.00 til 16.00 alla dagana. Á staðnum fer fram sýning á ullarvinnslu, spuna og ullarvörum.