Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur, sem stundað hefur kakóræktartilraunir um langt skeið, heldur sigri hrósandi á kakóaldini. Í sumar bar, öllum að óvörum, kakóplanta sem sett var árið 2013 í mold í bananahúsi Garðyrkjuskólans að Reykjum, aldin – hið fyrsta á Íslandi.
Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur, sem stundað hefur kakóræktartilraunir um langt skeið, heldur sigri hrósandi á kakóaldini. Í sumar bar, öllum að óvörum, kakóplanta sem sett var árið 2013 í mold í bananahúsi Garðyrkjuskólans að Reykjum, aldin – hið fyrsta á Íslandi.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 4. janúar 2024

Kakóbaunaraunir

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Garðyrkjufræðingarnir í Garðyrkjuskólanum á Reykjum-FSu fengu fyrsta íslenska kakóaldinið eftir tíu ára ræktunarstarf og nú vaxa alíslenskar kakóplöntur í bananahúsinu.

Nokkrar atrennur hafa verið gerðar að kakóbaunaræktun á Íslandi gegnum tíðina. Plöntur hafa misfarist vegna sveppasjúkdóms í aldinum en hann hefur valdið miklum skaða í kakóbaunarækt á heimsvísu. Þá er mjög erfitt að fá lifandi kakóplöntur þar sem víðast hvar er bannað að flytja þær út af samkeppnisástæðum og flókið að flytja lifandi aldin milli landa því að spírunarhæfni fræjanna minnkar mjög 2-3 dögum eftir að fræin eru tekin úr aldininu.

Tvö kakóaldin komu til Íslands heilu og höldnu árið 2013. Fræin reyndust lifandi og voru sett í mold. Ýmislegt henti í uppvexti þeirra og nú standa eftir nokkrar státnar kakóplöntur: Þrjár eru tíu ára gamlar og fjórar aðeins misserisgamlar, komnar úr fyrsta kakóaldini sem vaxið hefur á Íslandi og því fyrstu kynslóðar alíslenskar kakóplöntur.

Sorgir og sigrar í ræktunarferlinu

„Í nokkur skipti fengum við aldin hingað til Íslands eftir ýmsum leiðum og í öllum tilfellum voru það aðilar sem ferðuðust frá suðlægum slóðum og stungu kakóaldini ofan í ferðatöskuna sína og settu í frakt,“ segir Gurrý, Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur. En of kalt reyndist í fraktinni til að fræin lifðu það af.

„Árið 2013 var nemandi okkar, sem jafnframt er flugstjóri, á ferð frá Mið-Ameríku og hingað heim,“ heldur hún áfram. „Hann heimsótti félaga sinn sem vann á kakóplantekru, fékk hjá honum tvö aldin og kom með þau heim í
handfarangri. Við fengum þau hingað beint í skólann og opnuðum við hátíðlega athöfn. Sáðum öllum kakóbaununum sem við fengum úr þessum aldinum og alls spíruðu áttatíu plöntur,“ segir hún.

Plönturnar voru settar í sóttkví í klefa í tilraunahúsi Garðyrkjuskólans, ef ske kynni að hinn skæði sveppasjúkdómur hefði fylgt þeim. „Síðan spíra þarna upp áttatíu plöntur en af því að við þurftum að hafa þær í gróðurhúsi sem er með steyptu gólfi gekk okkur illa að halda loftrakanum nógu háum,“ segir Gurrý. „Svo þær drápust, hver af annarri. Á endanum voru ekki nema þrjár plöntur sem lifðu af og þær voru settar upp í bananahús og þar hafa þær vaxið síðan.“

Fyrstu kynslóðar plöntur

Kakóplantan er runni eða lítið tré sem verður kynþroska um 7-10 ára gömul og blómstrar þá agnarsmáum blómum. Gurrý segir fyrstu blómin hafa komið á plönturnar í bananahúsinu einmitt þegar þær voru sjö ára. Blómgun hafi svo aukist ár frá ári og þær blómstrað ríkulega í sumar. Að fá aldin var hins vegar alveg óvænt.

„Við áttum alls ekki von á þessu. Í heimkynnum plöntunnar sjá litlar sveifflugur um að fræva blómin en hér eru engar slíkar flugur. Ég fékk um daginn póst frá frönskum kakósérfræðingi sem hafði frétt af fyrsta kakóinu á Íslandi og sagði að sjálfsfrjóvgun væri þekkt hjá kakóplöntum þó að hún væri óalgeng,“ segir hún.

Aldinið var meðalstórt, innan við 20 cm á lengd og 8 cm í þvermál og í því leyndust 13 baunir. Allt að 40 baunir geta verið í einu aldini. Af baununum 13 voru 4 komnar með rætur og voru þær gróðursettar og eru því fyrstu kynslóðar íslenskar kakóplöntur og dafna vel.

Tveggja ára gömul kakóplanta.
Súkkulaðið mjög gott

„Okkur fannst svo spennandi að fá fyrsta íslenska kakóið að við töluðum við súkkulaði framleiðandann Omnom um að búa til súkkulaði úr baununum,“ heldur Gurrý áfram. Búið var til handgert súkkulaði úr 9 baunum og komu úr því 7-8 molar. Frumherjarnir fengu auðvitað þann heiður að njóta molanna; Gurrý ásamt samstarfsfólkinu sem hafði annast plönturnar.

„Ég bjóst jafnvel við einhverju hræðilegu,“ svarar hún, aðspurð um hvernig fyrsta íslenska súkkulaðið hafi smakkast. „Ég er mest fyrir mjólkursúkkulaði og vil hafa það dísætt, en þetta var mjög gott dökkt súkkulaði og bragðið lá á milli kaffis og súkkulaðis. Auðvitað hafði verið sett í það smá kakósmjör til að mýkja, og sykur svo það var ekki biturt. Kakómeistarinn lýsti bragðinu eins og af aðeins brenndu poppi, sem er nærri lagi,“ segir hún.

„Við vonum að þessi óalgengi atburður í kakóplöntum, sjálfsfrjóvgun, endurtaki sig og að við fáum fleiri aldin í framtíðinni,“ segir Gurrý. „Við eigum náttúrlega þrjár plöntur og fjóra nýgræðinga núna sem líta bara mjög vel út og það eru ekki nema tíu ár þangað til þeir fara mögulega að bera aldin!“

Garðyrkjuskólinn er með ýmis tromp á hendi þegar kemur að framandlegri ræktun. Kaffirunnar vaxa á Reykjum og hefur íslenskt kaffi verið selt á opnu húsi á sumardaginn fyrsta í nokkur skipti.

„Við eigum góðan slurk af baunum núna svo vonandi náum við að vera með kaffi í vor,“ segir hún og klykkir út með að vanilla sé næsta ræktunaráskorun. Hver veit nema vanillusúkkulaði með kaffikeimi verði á boðstólum í Garðyrkjuskólanum þegar fram líða stundir.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...