Knútur Rafn og Reynir Pétur sæmdir fálkaorðu
Forseti Íslands sæmdi 14 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag.
Að þessu sinni voru tveir í þeim hópi sem tengja má við íslenskan landbúnað. Knútur Rafn Ármann, framkvæmdastjóri og eigandi Friðheima, var sæmdur riddarakrossi fyrir frumkvöðlastarf á sviði matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingar. Friðheimar eru fjölskyldufyrirtæki þar sem stunduð er ylrækt á grænmeti, hrossarækt og ferðaþjónusta.
Reynir Pétur Steinunnarson, garðyrkjubóndi á Sólheimum, fékk riddarakross fyrir afrek og framgöngu í þágu fatlaðra. Hann hefur lengi starfað við garðyrkjustöðina Sunnu sem er starfrækt á Sólheimum. Hann er meðal annars kunnur fyrir að hafa gengið hringveginn í kringum landið sumarið 1985 í þeim tilgangi að safna fjármagni til að hægt yrði að byggja íþróttahús á Sólheimum.