Löggan og umboðsmaður barna í heimsókn í Frístundaklúbb Grímsnes- og Grafningshrepp
Lögreglumennirnir Þórunn Þrastardóttir og Árni Guðmundsson frá Lögreglunni á Suðurlandi heimsóttu Frístundaklúbbinn á Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi nýlega. Í klúbbnum eru 12 nemendur í 5. til 7. bekk Kerhólsskóla.
Lögreglumennirnir byrjuðu á því að segja frá sjálfum sér og kynna lauslega störf lögreglunnar. Allir unglingarnir voru síðan búnir að búa til eina spurningu, sem þeir spurðu lögreglumennina út í, og fengu þeir greið og góð svör til baka.
Heimsóknin tókst einstaklega vel enda má segja að lögreglumennirnir hafi slegið í gegn í heimsókn sinni.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, heimsótti líka klúbbinn á dögunum en hún kynnti fyrir krökkunum starf umboðsmanns og svaraði fjölmörgum spurningum þeirra.
Krakkarnir með Salvöru Nordal í sinni heimsókn.