Margur er smala krókurinn
Austurlandsdeild Smalahundafélags Íslands (SFÍ) hélt fjárhundakeppni sína, Spaðamótið, að Eyrarlandi í Fljótsdal í októberlok. Keppt var í A- og B-flokkum auk Unghundaflokks og voru dómarar þeir Gunnar Einarsson og Helgi Árnason.
Þorvarður Ingimarsson, bóndi á Eyrarlandi, segir á Facebook-síðu Smalahundafélagsins að mótið hafi verið hið skemmtilegasta og haldið í einstakri haustblíðu, líkt og myndirnar sýna. Það lítur út fyrir að keppnin hafi verið hin æsilegasta og tilþrifin veruleg, bæði hjá mönnum og vöskum fjárhundum.
SFÍ er áhugamannafélag um ræktun, þjálfun og notkun Border Collie-fjárhunda og var stofnað árið 1992.
Ættbók SFÍ, SNA TI, er viðamikill gagnagrunnur sem félagið rekur í samstarfi við Bændasamtök Íslands.
Þess má geta að Landskeppni félagsins 2024 verður í umsjá Smalahundadeildarinnar Snata í Húnavatnssýslu og verður keppnin haldin í Vatnsdal dagana 24.-25. ágúst á næsta ári. SFÍ hefur staðið fyrir Landskeppnum smalahunda allt frá árinu 1994 auk þess sem landshlutadeildir innan félagsins hafa staðið fyrir minni keppnum.