Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ævar Austfjörð með nautgripina sína.
Ævar Austfjörð með nautgripina sína.
Mynd / smh
Líf og starf 28. september 2023

Nautakjötsæta gerist nautgripabóndi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Ævar Austfjörð og kona hans, Ása Sif Tryggvadóttir, hófu búskap á Hlemmiskeiði 1 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir um þremur árum. Þau stunda þar nauta-, svína- og alifugleldi undir berum himni og stýra beitinni með hólfum sem römmuð eru af með rafmagnsstrengjum – og er aðferðin hugsuð sem umhverfisvæn leið til jarðvegsbóta fyrir landið. Áður en þau settust að á Hlemmiskeiði höfðu þau enga reynslu af sveitabúskap.

„Það var konan sem stakk upp á þessu og svo tók það ekki nema um fjóra mánuði að flytja hingað eftir að við vorum búin að taka ákvörðun,“ segir Ævar spurður um aðdragandann að því að þau gerast bændur á Skeiðunum. Hann er einn af áhrifavöldunum í 4.500 manna samfélagi fólks sem kallast Carnivore Tribe-kjötætur og er heiti á Facebook-síðu sem Ævar stofnaði fyrir sex árum. Sjálfur hefur hann lifað samkvæmt þessum lífsstíl í um sjö ár.

Neytir eingöngu dýraafurða

Á Facebook-síðunni skiptist fólk á skoðunum og deilir hugðarefnum sínum, en síðan er hugsuð fyrir fólk sem hefur áhuga á að neyta kjöts og/eða annarra dýraafurða eingöngu. Þar með sneiða hjá plöntuafurðum hvort sem það er gert af heilsufarsástæðum eða fyrir forvitnissakir – til lengri eða skemmri tíma. Ævar leggur sjálfur helst eingöngu feitt nautakjöt sér til munns – vegna þess að honum líður einfaldlega best af því og hann verður lengur saddur af því en til dæmis kjúklingi eða fiski. Spurður um hvort ákvörðunin um að gerast nautgripabóndi hafi verið öðrum þræði til að geta á hagkvæman hátt orðið sér úti um gæða nautakjöt á góðu verði, segir hann að það hafi vissulega spilað inn í.

„Það er í það minnsta ljóst að það fara um tveir nautsskrokkar ofan í mig á hverju ári og þá nýt ég góðs af því að framleiða kjötið ofan í mig sjálfur.“

Dýravelferð og umhverfisvernd

Þá má ímynda sér að Ævar sé í lykilstöðu til að markaðssetja afurðirnar í gegnum íslenska carnivore-samfélagið, en hann segist lítinn ávinning hafa haft af því enn þá. „Ég held að ég hafi enn ekki átt í beinum viðskiptum í gegnum það samfélag, ætli það vefjist ekki fyrir fólki að þurfa að kaupa að lágmarki fjórðung skrokks.

En ég kvarta ekki yfir markaðsstöðunni því ég sel mínar afurðir löngu áður en kemur til slátrunar. Ætli það sé ekki hægt að segja að mínir kúnnar séu aðallega fólk sem vill kjötvöru þar sem vel hefur verið hugsað um skepnurnar út frá dýravelferðarsjónarmiði og á umhverfisvænan hátt,“ segir hann.

Skítkast frá umhverfisverndarsinnum

„Þegar ég byrjaði að láta á mér bera og segja frá þessum lífsstíl mínum fyrir um sex árum þá fékk ég yfir mig alls konar skítkast – ekki síst fékk ég harða gagnrýni frá umhverfisverndarsinnum sem fannst ótækt að borða svo mikið nautakjöt því það stuðlaði að svo mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Þess vegna mætti segja að það að gerast nautgripabóndi hafi verið einhvers konar viðbragð hjá mér við þessum ásökunum.

Ég fer að leita fyrir mér á netinu um hvað sé raunverulega satt varðandi búfjárhald og losun á gróðurhúsalofttegundum og það kemur fljótlega í ljós að það sem kemur yfirleitt upp á yfirborð umræðunnar eru stefnur sem hafa verið mótaðar, frekar en vísindi sjálf. Þá er ég ekki að segja að stefnur byggi ekki á vísindum heldur það að ekki er endilega verið að styðjast við bestu vísindin til að móta stefnur. Frekar að þá er notað það skásta sem styður viðkomandi stefnu sem búið er að móta,“ segir Ævar spurður um almenningsálitið sem kannski er ekki alltaf hliðhollt miklu kjötáti.

„Það er að mörgu að hyggja í þessum útreikningum líka varðandi losun. Módelin sem lögð eru til grundvallar eru oft mjög ónákvæm og með mikil skekkjumörk. Það hefur líka truflað mig í þessari umræðu að landnýtingin er oft ekki tekin inn í myndina, sjálf kolefnisbindingin sem verður á ræktuðu landi – heldur bara sjálfur útblástur dýranna. Svo eru hagsmunaaðilar víða sterkir áhrifavaldar í stefnumótun og stjórnun umræðu.“

Árangur af beitarstjórnuninni

„Ég sé mikinn árangur strax af minni beitarstjórnun, það spretta nýjar plöntur í landinu og landgæðin hjá mér batna þó það gerist ekki hratt. Í jarðveginum er mikið magn fræja sem vakna til lífsins við ágang nautgripanna – og svo kemurnáttúrulegur sjálfbær áburður úr þeim,“ segir Ævar þegar hann er spurður um hvort einhver árangur sé sjáanlegur á öðru ári.

„Ég verð nú svo sem ekkert mikið var við að bændur hér í nágrenninu séu að spá mikið í hvað við erum að gera. En reyndar komu nokkrir til mín á réttardeginum um daginn og voru þá mjög uppteknir af því hvað þetta hlyti að vera tímafrekt, þessi aðferð sem við notum í skiptibeitinni. Og þeir spurðu hvernig ég nennti þessu hreinlega. Staðreyndin er reyndar sú að þetta er mjög lítil fyrirhöfn, við þurfum reyndar að færa strengina til tvisvar sinnum á sólarhring, til að hleypa gripunum inn á nýtt beitiland, en það tekur í mesta lagi 45 mínútur í hvert skipti.

Núna erum við með tvö beitarhólf fyrir annars vegar svínin og hins vegar nautgripi. Við vorum líka með kjúklinga í svona fyrirkomulagi en það er búið að slátra þeim hópi. Ég er með 24 nautgripi í tveimur hollum, sem þýðir að 11 fara í slátrun núna í haust en hinir 13 fara á næsta ári. Ég byrjaði hins vegar með sex naut í eldi, á meðan ég var að prófa mig áfram. Hugmyndin er að slátra alltaf 12 á ári sem landið mitt ber, en það er fjórtán og hálfur hektari. Við sendum frá okkur sex naut til slátrunar í fyrra og tíu grísi. Núna erum við með 17 grísi.“

Langur beitartími

Ævar segir að þegar ekki er lengur beit að hafa, séu nautin tekin á heimatún og þeim gefið hey, sem hann kaupi af nágrönnum sínum á Hlemmiskeiði – sem vill svo vel til að eru kúabændur.

„Þessi beitarstjórnun sem ég nota, kallar bandaríski ráðgjafinn minn „adaptive grazing“, sem þýðir að ég met það bara hverju sinni hversu mikið pláss ég gef þeim í það skiptið. Get þrengt að þeim ef ég vil láta þá éta meira af því sem er á svæðinu, eða stækkað ef ég vil að þar sé étið minna. Ef svæðið er lítið éta þeir að jafnaði lélegra fóður og meira tréni en ef það er stærra geta þeir frekar valið það sem þeim þykir betra og þá fá þeir jafnan kröftugra fóður.

Núna snýst þetta dálítið um að passa upp á að þeir éti ekki alveg niður í rót og það sé skilin eftir hlíf fyrir veturinn.

Beitartíminn hjá mér í fyrra var mjög langur; alveg frá 26. apríl til 7. nóvember. Gaf þeim hey í meðgjöf fyrstu tvær vikurnar. En þegar ég byrjaði var mér sagt að það væri útilokað að vera með þá á beit meira en þrjá mánuði. Núna eru þeir búnir að vera á beit frá 18. maí og svo framarlega sem ekki fari hér allt á kaf í snjó eða 20 stiga frost skelli á, þá á ég beit fyrir þá fram að jólum. Landgæðin eru enn frekar í lakara lagi þó þau hafi skánað. Það er farið að kólna og allt gras sem þeir eiga eftir að bíta er mest allt skriðið þannig að það er minna næringarinnihald – þannig að núna er ég byrjaður á því að gefa þeim bjórhrat sem ég fæ úr bruggverksmiðju í Vestmannaeyjum. Þeir fá um 7–800 grömm á hvern haus á dag – og það bætir líka meltinguna hjá þeim.“

Beint frá býli

Ævar selur allar sínar afurðir beint frá býli, en reyndar í gegnum samfélagsmiðla. „Ég læt vinna allt mitt kjöt hjá Villt og alið á Hellu. Síðan er það sent beint til viðskiptavina og raunar koma afurðirnar ekki til okkar á bæinn eftir að gripunum hefur verið slátrað. Þannig við erum ekki með neinn lager hér, enda komast færri að en vilja í vörurnar okkar. Við erum fyrir löngu búin að selja til dæmis svín og nautgripi sem fara í slátrun núna á næstu vikum.“

Hann er sáttur við afurðaverðið, segist fá að meðaltali 1.200 krónur á kílóið fyrir skrokkinn. „Það er bara hæsta afurðastöðvaverð. Ég er með þannig viðskiptavini sem vilja þessa vöru í raun alveg sama hvað hún kostar. Ég held að enginn hafi spurt mig að verði þegar ég seldi síðast. Þeir kjósa þá frekar að kaupa af bónda sem hugar sérstaklega að gæðum, dýravelferð og umhverfismálum.

Svínaeldið er ekki eins hagkvæmt og nautaeldið, þau þurfa um 30–40 prósent meira fóður og verðið fyrir svínakjötið hefur ekki verið eins hátt. En líklega sel ég það næst bara á sama verði, enda eru þessar vörur í alveg sérstökum gæðaflokki.“

Hagkvæmur búrekstur með litlum tilkostnaði

„Þannig að ég er bara mjög sáttur við mitt, ég hef búið mér til nokkuð hagkvæman búrekstur með litlum tilkostnaði.

Ég er að fá nautskrokka eftir 20 mánaða eldi sem eru með svona 200 til 220 kílóa fallþunga. Sem er bara mjög gott í þessu kerfi mínu. Ég vil ekki hafa þá of þunga því þá fara þeir bara illa með landið þegar það er viðkvæmt. Þegar þeir fara í sláturhúsið þá eru þeir búnir að éta minna en fjórar rúllur af heyi hver. Þannig að kostnaður minn við eldið er auðvitað mjólkurtímabilið sem eru þrír mánuðir á kálfafóðri og ein rúlla ofan í hollið á þessum mánuðum. Svo fara minna en fjórar rúllur ofan í þá þennan heila vetur. Annars eru þeir bara á beit og sækja sér sitt fóður sjálfir. Þetta er kostnaðurinn, kannski 40 þúsund á hvern grip þessa fyrstu mánuði og svo kannski önnur 40 þúsund þessar fjórar rúllur. Afurðirnar eru svo seldar á toppverði.

Mér finnst almennt í íslenskum landbúnaði að það mætti huga meira að því hvernig hægt er að gera hlutina á hagkvæmari hátt. Þetta stendur vel undir sér og gott betur, meira segja í grein landbúnaðarins sem hefur átt undir högg að sækja að undanförnu,“ segir Ævar.

Hann bætir við að í stað þess að kalla stöðugt eftir meira fjármagni inn í landbúnaðinn mætti huga meira af því að gera hann sjálfbærari og þar með arðbærari. „Það er unnið að því leynt og ljóst að minnka kjötneyslu og kjötframleiðslu. Ef afkoma bænda þarf að treysta á ríkisstyrki verður lítið mál að skikka þá til að hætta eins og verið er að gera til dæmis í Hollandi og Írlandi. Ég vil alls ekki gagnrýna bændur fyrir að beita þeim aðferðum sem þeir hafa lært en allir ættu að vera opnir fyrir að skoða nýjar leiðir. Ég held að aðalástæðan fyrir því að þessum svokölluðu „regenerative“ aðferðum sé ekki haldið að bændum sé sú að það græðir enginn á þessu nema bóndinn því það er minni olíunotkun, minni áburðar og plastnotkun og svo er þetta líka minni vinna samkvæmt þeim sem hafa stundað hvort tveggja.“

Þrálátar bólgur

Ævar segist hafa byrjað að prófa að borða bara dýraafurðir áður en hann vissi til þess að sá lífsstíll væri flokkaður sérstaklega sem carnivore. Hann var búinn að vera að glíma við þrálátar bólgur í líkamanum og lífsstílskvilla. „Ég hafði náð sæmilegum árangri með lágkolvetna mataræði og svo var það bara eðlilegt framhald fyrir mig þega mér bauðst að taka þátt í erlendri rannsókn fyrir að verða sjö árum, þar sem átti að kanna áhrif þessa mataræðis á líkamann.

Þegar ég hafði verið á þessu mataræði í um tólf daga rann það upp fyrir mér að ég var hættur að haltra. Mér leið svo vel af þessu að ég hef haldið þessu áfram. Blóðprufur hafa líka staðfest mjög jákvæð áhrif af mataræðinu á líkamann.“

Svínaeldið er ekki eins hagkvæmt og nautaeldið, en alla 17 gripina, sem eru fljótlega á leið í sláturhús, er búið að kaupa í forpöntun. Ævar segir að hann muni líklega hækka verðið á þeim þar sem þetta séu eftirsóttar og einstakar svínakjötsafurðir.

Faraldsfræðilegar rannsóknir byggðar á veikum grunni

„Ég borða helst eingöngu nautakjöt en lambakjöt líka sem ég þarf þó aðeins meira af, en auðvitað er þetta ekki heilagt. Ef það er matarboð hjá okkur þá borða ég það sama og gestirnir. En ég hef bara komist að því að það sem heldur mér í besta ástandinu líkamlega er nautakjöt – og sem feitast. Mér þykir kjúklingur og svínakjöt bragðgóður matur – og fiskur líka – en ég þarf að borða talsvert meira af því til að halda líkamanum góðum og stöðugum,“ segir Ævar um sínar matarvenjur. Hann er tortrygginn á rannsóknir sem eiga að sýna fram á skaðsemi nautakjötsáts. „Oft eru þessar rannsóknir byggðar á mjög veikum grunni, gjarnan faraldsfræðilegar sem eru þess eðlis að hægt er að finna allt í þeim sem þú leitar að. Þú verður bara að passa þig á því að leita ekki að því sem þú vilt ekki finna.“

Hann segir að yfirlýsingin sem kom frá Alþjóðaheilbrigðis­málastofnuninni fyrir nokkrum árum, um rauða kjötið og tengslin við krabbamein, sé „algjört kjaftæði“. Þessi skýrsla er sögð byggja á 800 rannsóknum en það gleynist að taka það fram að meira en 700 af þeim geta ekki sýnt fram á orsakatengsl milli kjötneyslu og krabbameina hjá mönnum og þær fáu sem gera það eru gerðar á rottum og músum.“

Hann segist hafa lengi stúderað vísindaskýrslur, bæði sjálfur og með hjálp vina sem eru betur læsir á fræðin, og hafi ekki fundið trúverðug rök fyrir því að það séu tengsl þarna á milli. Hagsmunaöfl ráði mjög miklu í umræðu um almennar næringarráðleggingar.

Stiklað á stóru
Líf og starf 9. janúar 2025

Stiklað á stóru

Bændablaðið kom tuttugu og þrisvar sinnum út árið 2024. Hér eru endurbirtar sjö ...

Álft
Líf og starf 8. janúar 2025

Álft

Álft er stærsti fuglinn okkar. Fullorðin álft getur orðið 10 kg og vænghafið 2,2...

„... Heimsins þagna harmakvein ...“
Líf og starf 7. janúar 2025

„... Heimsins þagna harmakvein ...“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Jóhannesi úr Kötlum.

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...