Ræktunar- og gleðifélag hestakvenna
Hugmynd kviknaði í samkvæmi nokkurra kvenna innan Brokkkórsins í desember árið 2016 að stofna félagsskap kvenna sem ætti stóðhestsefni. Úr varð hestakvennafélagið Djásnin sem telur í dag hátt í 80 aðildarfélaga.
Tildrögin voru þau að tarotspil voru lögð til að ráða í hvaða stóðhestur væri álitlegur til ræktunar sumarið 2017. Spádómurinn fól í sér áskorun að hugsa út fyrir rammann því framtíðin bæri í skauti sér skemmtilegar stundir í góðum félagsskap, ferðalög, hindranir til að sigrast á og álitlegan veraldlegan feng. Skemmtilegar umræður urðu í kjölfarið og var bent á að tími væri til kominn að konur létu meira að sér kveða í heimi ræktunar á íslenska hestinum og almenna eflingu kvenna á því sviði. Þær tólf konur sem staddar voru á þeirri stundu í samkvæminu ákváðu þar með að taka málin í sínar hendur og stofna hestakvennafélag um eign á stóðhestum og hefja leit að stóðhestsefni sem bæði í gamni og alvöru gæti uppfyllt þá framtíðarsýn sem tarot-lögnin gaf fyrirheit um.
Sterkar ættir skilyrði
Lagt var upp með að velja hest með sterkar ættir, faðirinn skyldi vera nokkuð hátt í umræðu þess tíma og móðirin með góðan hæfileikadóm, fyrstu verðlauna foreldrar skilyrði. Vel gekk í kjölfarið að lesa Worldfeng sundur og saman, finna þrjá álitlega fola á fyrsta vetri, rjúka norður í land að skoða þá, velja þann besta og kanna svo áhuga hjá vinkonum að kaupa hlut í viðkomandi hesti. Úr varð að ræktunar- og gleðifélagið Djásnin var formlega stofnað 2. desember 2016, eingöngu ætlað konum, og er fjöldi félaga í dag um 70–80 konur.
Gleðin er í fyrirrúmi hjá félagskonum en ákveðum reglum þarf þó að lúta er viðkemur stofnun félaga hjá yfirvöldum. Lög og reglur félagsins gerðu í upphafi ráð fyrir að ef upp kæmi ágreiningur yrðu lögð tarotspil til að leysa hann. Fyrirtækjaskrá gat ekki samþykkt slík lög og urðu því til að auki reglur félagsins og lögin sniðin með hefðbundnum hætti.
Eingöngu ætlað konum
Til að hljóta inngöngu í félagið þarf viðkomandi að uppfylla tvö skilyrði; að vera kvenkyns og eiga hlut í stóðhesti í eigu félagsins. Margrét Dögg Halldórsdóttir er ein þeirra sem kom að stofnun félagsins og segir að aðalmarkmið félagsskaparins sé að hafa gaman og efla þátttöku kvenna í hestamennskunni.
„Markmiðið er að vera í góðum félagsskap kvenna og efla konur í alls konar hestamennsku. Við gerum ýmislegt saman, við förum t.d. í árlegar heimsóknir á hrossaræktarbú, fjölmennum að skoða folana okkar sem við köllum „Djásnin okkar“, þar sem þeir eru í þjálfun eða uppeldi hverju sinni, og höfum staðið fyrir sýnikennslu og fyrirlestrum, bæði fyrir okkur og aðra.
Við búum okkur til merktan fatnað og meira að segja fengum við gerðar grímur með lógóinu okkar þegar Covid-faraldurinn geisaði, skemmtilegt verkefni unnið með nemendum í Tækniskólanum.
Svo erum við flestar nokkuð söngelskar og sumar jafnvel hagyrtar,“ segir Margrét og bætir hlæjandi við; „Það fer býsna vel saman og er aldrei leiðinlegt.“
Upplitsdjarfur og litfagur
Fyrsti hesturinn sem félagið keypti var Hraunar frá Sauðárkróki, undan Skýr frá Skálakoti og Urði frá Sauðárkróki, úr ræktun Guðmundar Sveinssonar og Auðar Steingrímsdóttur á Sauðárkróki. Upplitsdjarfur og litfagur foli sem heillaði nýju eigendur sína með einstakri geðprýði. Hraunar er fæddur 2016 og var keyptur á vordögum 2017. Það standa sterkar ættir á bak við Hraunar frá Sauðárkróki og mörg nafntoguð hross koma þar fyrir. Urður, móðir hans, er undan Óði frá Brún og Orradótturinni Lyftingu frá Skefilsstöðum.
Undan Hraunari eru fædd 22 afkvæmi og og er farið að temja 2019 árganginn og strax ljóst að margir kostir eru að erfast frá Hraunari, ekki hvað síst einstök geðprýði.
Nýr og spennandi hestur
Ljóst var að tilgangur félagsins væri ekki að eiga sína hesta til lengri tíma svo fljótlega var farið að leita að næsta hesti, láta dæmið rúlla þannig að þegar einn yrði fulltaminn og sýndur væri annar að byrja sín fystu skref í tamningu. Því var enn farið að skoða gagnagrunninn og skanna kynbótasýningar.
Fest voru kaup á öðrum hesti og kemur sá úr ræktun þeirra Árna Björns Pálssonar og Sylvíu Sigurbjörnsdóttur sem þau kenna við Hrafnshól. Hrafnar frá Hrafnshóli er fæddur 2019 og faðir hans er Fenrir frá Feti sem er undan Loka frá Selfossi og Fljóð frá Feti. Móðir Hrafnars er Vissa frá Valstrýtu sem er undan Grun frá Oddhóli og Heklu frá Kálfholti. Báðir foreldrar eru því undan landsmótssigurvegurum, Grunur vann tölt á landsmóti 2006 og Loki vann B-flokk á landsmóti 2014.
Á bak við Hrafnar eru sterk töltgen, báðir foreldrar eru með 9,0 fyrir tölt, í beinan karllegg eru fimm ættliðir af hestum með 9 eða 9,5 fyrir tölt og í öllum ættlínum eru háar tölteinkunnir í röðum.
Fyrsta djásnið selt
Nýlega dró svo til tíðinda í sögu félagsins þar sem Hraunar frá Sauðárkróki, fyrsta djásnið, var seldur. Blendnar tilfinningar gerðu vart við sig hjá Djásnakonum, gleði en líka ákveðinn tregi að sjá á bak hestinum, en Hraunar er í góðum höndum og framtíðin spennandi.
„Það kom á daginn að tarotlögn Hraunars er að rætast, allt hefur sinn tíma,“ segir Margrét.
Valnefnd Djásnanna hefur þegar hafið leit að nýjum hesti, þeim þriðja sem verður í eigu félagskvenna, og verið er að skoða Worldfeng enn og aftur og rifja upp kynbótasýningar sumarsins. Margrét segir að það séu margir spennandi folar sem koma til greina, svo er spurning hvort þeir eru til sölu.
Hestarnir eru valdir gaumgæfilega og hefur félagið eins og áður segir sett sér nokkur viðmið þegar kemur að vali á stóðhestum. „Við leitum að stóðhestsefni sem við sjálfar myndum vilja nýta í okkar ræktun, að hann gæti verið faðir reiðhesta okkar í framtíðinni. Þó nokkrar innan okkar raða hafa einmitt notað Hraunar til ræktunar og afkvæmi undan honum virðast lofa mjög góðu,“ segir Margrét.
Ásókn í félagið
Ákveðið var að bjóða til sölu 60 hluti í fyrsta stóðhestinum sem keyptur var. „Það var auðvitað svolítið bratt að fara af stað með þetta og selja alla 60 hlutina en núna er ásókn í að komast í félagið. Þær sem þegar eiga hest hafa forgang með að kaupa hlut í næsta hesti, svo hópurinn er ekkert endilega að þenjast mikið út.
En stundum vilja einhverjar selja hlut og þá er einhver hreyfing á félagatalinu en hún er ekki mikil,“ segir Margrét. Hlutirnir í Hrafnari eru einnig 60 og það virðist vera tala sem gengur vel upp að halda utan um og selja. Þó það sé ekki ófrávíkjanleg regla að konur komi að öllu sem varðar hesta Djásnanna þá hefur það æxlast svo að konur hafa hingað til verið í aðalhlutverki í tamningu og þjálfun bæði Hraunars og Hrafnars hvernig sem framhaldið verður.
Vonin kemur manni langt
Margrét segir að þó gleðin sé í fyrirrúmi þá sé þetta ekkert bara grín. „Við ætlum okkur að gera sem mest úr þeim hestum sem við eigum. Við vöndum valið og fylgjum þeim vel eftir, en eins og aðrir sem standa í hrossarækt þá rekumst við á alls konar óvæntar hindranir, það gengur ekkert endilega allt upp eins og maður ætlar. Skemmtilegast er að stúdera og spá í framtíðinni áður en farið er að temja hrossin, vonin kemur manni svo langt og veitir hugmyndafluginu vængi. Svo bara fer sem fer,“ segir Margrét.
Að lokum segir Margrét að það að skoða ættir hrossa í WorldFeng sé góð afþreying.
„Það er afskaplega gaman að skoða ættir hrossa og velta fyrir sér eiginleikum sem erfast. Mikilvægt er að þakka þeim sem hafa haft elju til að rækta hross á Íslandi í gegnum tíðina og ná fram kynbótum af hugsjón. Við Djásnakonur erum afar þakklátar og erum spenntar að halda áfram að rækta hross og eiga frambærilega stóðhesta. Fjörið er rétt að byrja. Það virðist fara vel saman að nýta veraldlegar leiðir og andlegar til að leggja línur í ræktunarstarfi, það er allavega mjög skemmtilegt.“