Rauðbyrstingur
Rauðbrystingur er enn einn fuglinn sem verpir ekki á Íslandi en stoppar hér engu að síður í nokkurn tíma á ferð sinni milli vetrar- og varpstöðva. Slíkir fuglar kallast gjarnan fargestir eða umferðarfuglar. Þessi meðalstóri vaðfugl er með varpstöðvar á Grænlandi og íshafseyjum Kanada. Vetrarstöðvarnar eru hins vegar í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku. Þetta er þó nokkurt ferðalag og er Ísland mikilvægt stopp á leiðinni eins og er algengt meðal þeirra fargesta sem koma hér við á ferð sinni milli varp- og vetrarstöðva. Rauðbrystingur sækir í leirur og þangfjörur þar sem hann leitar að skordýrum, skeldýrum og krabbadýrum. Endrum og sinnum sjást þeir líka inn til landsins. Þeir eru ákaflega félagslyndir og sjást oft í gríðarstórum hópum sem geta skipt þúsundum.