Röðuðu sér í efstu sætin í öllum keppnisflokkum
Íslenskir matreiðslumenn gerðu góða ferð til Herning í Danmörku á Norðurlandamót matreiðslumanna sem haldið var dagana 29. og 30. mars. Náðu þeir besta heildarárangri Íslendinga á þessu móti og röðuðu sér í efstu sætin í öllum flokkum. sem haldið var dagana 29. og 30. mars. Náðu þeir besta heildarárangri Íslendinga á þessu móti og röðuðu sér í efstu sætin í öllum flokkum.
Sindri Guðbrandur Sigurðsson náði öðru sæti í keppninni um nafnbótina Matreiðslumaður Norðurlandanna árið 2022, en norski keppandinn varð sigurvegari.
Gabríel Kristinn Bjarnason sigraði í keppninni um útnefninguna „besti ungkokkur Norðurlandanna“. Matreiðslumeistarinn Sveinn Steinsson og útskriftarneminn Aþena Þöll Gunnarsdóttir kepptu saman í liðakeppni í flokknum „Nordic Green Chef“ og lentu í öðru sæti. Um nýjan keppnisflokk er að ræða þar sem unnið er með grænmetisfæði.
Besti ungkokkur Norðurlanda, Gabríel Kristinn Bjarnason.
Betri árangur en vonast var eftir
Þátttaka Íslendinga á Norðurlandamótinu er á vegum Klúbbs íslenskra matreiðslumeistara. Í tilkynningu frá klúbbnum er haft eftir Þóri Erlingssyni, forseta hans, að hann sé himinlifandi með árangur keppendanna. „Þau hafa staðið sig frábærlega og unnið þetta af mikilli fagmennsku. Nú fögnum við og svo förum við á fullt í næsta verkefni sem er heimsmeistarakeppnin í Lúxemborg í nóvember komandi.“
Aþena Þöll Gunnarsdóttir.
Sveinn og Aþena kepptu sem lið, eins og fyrr segir en þessi keppnisflokkur hefur verið í undirbúningi hjá samtökum matreiðslumanna á Norðurlöndunum um nokkurt skeið og er gert ráð fyrir að þessi keppni, eða sambærileg, eigi eftir að verða að alþjóðlegri keppni. „Þetta er betri árangur en ég hefði þorað að vona,“ var haft eftir Sveini þegar úrslitin lágu fyrir.
Sveinn Steinsson.