Saga jarðar og ættar
Bókin, Bustarfell – Saga jarðar og ættar, hefur að geyma tvö handrit sem segja sögu þessa merka höfuðbóls og ættarinnar sem þar hefur búið frá 1532.
Bókin er góður fengur öllum þeim sem láta sig ættfræði, þjóðhætti og sögu íslenska torfbæjarins varða. Jafnframt eru hún gott framlag til héraðs- og menningarsögu Vopnafjarðar. Höfundar handritanna eru séra Einar Jónsson á Hofi og Methúsalem Methúsalemsson, bóndi á Bustarfelli. Rit Einars, Bustarfellsætt (1930), fjallar annars vegar um sögu jarðarinnar fyrir 1532 og hins vegar um ættir Árna Brandssonar og Úlfheiðar Þorsteinsdóttur sem hófu búskap á jörðinni það ár, afkomendur þeirra og ábúendur á jörðinni til aldamótanna 1900. Í riti sínu, Bustarfell (1957), leggur Methúsalem einkum áherslu á sögu ábúenda og búskapar á jörðinni og miðlar þar einstæðum heimildum um gamla torfbæinn. Finnur Ágúst Ingimundarson, fyrrum safnvörður við Minjasafnið á Bustarfelli, bjó handritin til útgáfu og ritar eftirmála þar sem saga Bustarfells er rakin þar sem frásögn Methúsalems sleppir, ágrip af sögu minjasafnsins, auk viðauka sem varða sögu jarðarinnar og ábúendur hennar.
Bustarfell – Saga jarðar og ættar geymir fjölda ljósmynda sem tengjast ábúendum að fornu og nýju, svo og minjasafninu og safnkosti þess. Útgefandi er Minjasafnið á Bustafelli.