Sauðfjársetrið og fjölskyldan í Tröllatungu fá menningarverðlaun Strandabyggðar
Menningarverðlaun Strandabyggðar voru afhent á dögunum á bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík. Þetta var í sjöunda skipti sem verðlaunin eru veitt og þetta árið hlaut Sauðfjársetur á Ströndum verðlaunin og farandgripinn Lóuna til varðveislu.
Sauðfjársetrið hefur áður fengið menningarverðlaunin árið 2013 og sérstaka viðurkenningu í tengslum við þau árið 2012. Í umsögn kom fram að safnið fékk menningarverðlaunin vegna öflugrar aðkomu að menningarlífi í sveitarfélaginu, sýningahaldi, ótal menningartengdra viðburði og síðast en ekki síst fyrir nýsköpunarverkefnið Náttúrubarnaskólinn. Það verkefni, sem byggir á hugmyndafræði um náttúrutúlkun og menntatengda ferðaþjónustu, hefur nú verið starfrækt frá því í fyrravor.
Í umsögn sagði einnig að Sauðfjársetur á Ströndum hafi verið sérstaklega öflugt síðasta árið og eftir því tekið víða. Safnið var til dæmis í hópi þeirra tíu framúrskarandi menningarverkefna á landsbyggðinni sem voru tilnefnd til Eyrarrósarinnar fyrr á árinu. Enn fremur að aðstandendur Sauðfjárseturs á Ströndum byggi á þeirri hugmyndafræði að söfn og menningarstofnanir eigi að vera virkir þátttakendur í því samfélagi sem þær eru hluti af og að í tilviki Sauðfjársetursins hafi heppnast afar vel að byggja á þeim grunni.
Við sama tækifæri fengu Sigríður Drífa Þórólfsdóttir og Birkir Þór Stefánsson, bændur í Tröllatungu, sérstaka viðurkenningu vegna menningarmála. Í umsögn segir að þau hafi með einstakri elju og myndarskap varðveitt menningarminjar gamla kirkjugarðsins í Tröllatungu. Starf þeirra við umhirðu og fegrun kirkjugarðsins hafi orðið til þess að hann er staðarprýði á Ströndum og Strandamönnum til sóma. Útimessa hefur verið í garðinum síðustu ár á Hamingjudögum sem hefur gefið öllum kost á að njóta svæðisins og eiga þar kyrrðar- og friðarstund.