Verslun með íslenskri framleiðslu
Alda Björk Ólafsdóttir og Atli Lilliendahl hafa opnað verslun á Selfossi sem selur einungis matvöru, handverk og minjagripi sem framleiddir eru á Íslandi.
Atli segir hjónin hafa orðið vör við að komin sé þreyta gagnvart öllum hinum svokölluðu lundabúðum. Hann segir eftirspurn vera eftir íslenskum mat og íslenskum kúltúr, en ferðamenn eigi erfitt með að finna slíkan varning. Eftir að hafa skoðað fjölmargar ferðamannabúðir hafi þau dregið þá ályktun að 95 prósent varanna hefðu ekkert með íslenskan kúltúr að gera. Því hafi vaknað sú hugmynd að opna verslun þar sem tryggt er að allt sé íslensk hönnun og framleiðsla.
Upphaflega hafi ekki staðið til að opna þessa verslun og tóku þau rýmið fyrst til leigu til að hafa lageraðstöðu og eldhús til að forvinna fyrir matarvagn sem þau opna næsta vor. Þau hafi hins vegar fljótlega áttað sig á að rýmið væri á besta stað og því ákveðið að gera eitthvað meira með það.
Þábendaþauáaðþaðsé óhjákvæmilegt að íslenskir smáframleiðendur á matvöru þurfi að verðleggja sínar vörur hátt. Verulega hafi vantað búð þar sem þessir aðilar gætu komið sínum vörum á framfæri og fengið eitthvað fyrir sinn snúð. Annaðhvort leigi framleiðendurnir hillupláss eða þau taki þóknun.
Það sé ólíkt því sem tíðkist, en þau segja verslanir oft rukka fyrir bæði. Meðal þess sem verður selt eru matvörur frá Korngrís, Hreppamjólk og Háafelli. Þá verða þau með landnámshænuegg og þrjá hunangsframleiðendur. Jafnframt hrossa- og folaldabjúgu frá Villt og alið á Hellu og reyktan og grafinn villtan lax. Þau verða enn fremur með mikið af vörum frá vernduðum vinnustöðum, eins og Skaftholti og Ásgarði, að ógleymdu handverki frá fjölmörgum aðilum héðan og þaðan af landinu.
Þau taka sérstaklega fram að verslunin sé ekki einungis hugsuð fyrir erlenda ferðamenn, heldur geti nærsamfélagið fundið ýmislegt fyrir sig á þessum stað, bæði gjafavörur og matvæli. Verslunin Made in Ísland er á Austurvegi 44 á Selfossi og er opin alla daga vikunnar.