Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Feðginin Sveinn Björnsson og Gunnhildur Sveinsdóttir standa nú saman að rekstri garðyrkjustöðvarinnar á Varmalandi.
Feðginin Sveinn Björnsson og Gunnhildur Sveinsdóttir standa nú saman að rekstri garðyrkjustöðvarinnar á Varmalandi.
Mynd / smh
Líf og starf 20. júlí 2022

„Enda eins og ég byrjaði með föður mínum nítján ára gamall“

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Sveinn Björnsson, garðyrkjubóndi á Varmalandi í Reykholti, hefur stundað tómataræktun í nálægt 60 ár. Hann segist ekkert endilega hafa ætlað að verða garðyrkjubóndi, en þegar hann byrjaði að hjálpa föður sínum, Birni Ólafssyni, við stöðina, nítján ára gamall, hafi örlög hans verið ráðin.

„Ég er enn með hluta af framleiðslunni á minni ábyrgð, en Gunnhildur, yngsta dóttir mín, er tekin við hluta af ræktuninni þetta árið,“ segir Sveinn spurður um hvort hann sé enn í ræktuninni af fullum krafti. „Hún kom inn í þetta í vetur, þegar það lá fyrir að ég þyrfti að fara að hægja talsvert á mér. Það mætti kannski segja að þetta sé aðlögunarferli að því að ég hætti.“

Enda eins og ég byrjaði

Sveinn segir að hann sé í raun kominn í þá stöðu sem hann var í þegar hann byrjaði að hjálpa föður sínum á fyrstu árunum. Nema nú hjálpi hann dóttur sinni með allt umfangið – en garðyrkjustöðin framleiddi alls um 60 tonn af tómötum þegar mest lét, en nokkuð minna núna, á rúmlega 2.000 fermetra gólffleti í alls fjórum gróðurhúsum.

„Gunnhildur hefur alltaf verið hjá mér á sumrin og er reyndar eina barnið af þeim fimm sem ég á sem hefur áhuga á að stunda þessa ræktun.

Þegar mikið hefur legið við hafa öll börnin viljað hjálpa til, sérstaklega við útplöntun og pottun.

En ég byrjaði sumsé tómata­ræktun hér 1964. Fyrir var eitt gróðurhús sem faðir minn rak, en svo byggðum við saman nýtt hús, sem ég fékk í fangið og rak undir eigin númeri.

Svo hjálpaði ég honum svona eftir þörfum. Það má því segja að ég endi hér eins og ég byrjaði.“

Einn af fáum sem ræktar í mold og lýsir ekki

„Ég er einn af fáum tómataræktendum eftir sem ræktum beint í jörðina en ekki í steinull eða vikri eins og nú tíðkast gjarnan. Ég er heldur ekki með lýsingu, nema í uppeldinu, þannig að framleiðsluferillinn er allur mun hægari og mun minni uppskera. Ég þarf svo að sótthreinsa moldina með heitu vatni eftir ræktunartímabilið.

Þeir sem framleiða hvað mest ná allt að þrefalt meiri uppskeru en ég, en þeir þurfa að skipta út plöntum nokkrum sinnum á ári til að halda uppi framleiðslunni,“ segir Sveinn.

Vistvæn ræktun

Í næsta nágrenni við Varmaland eru tveir kunnir hverir; Skrifla og Dynkur. Sá fyrrnefndi er þekktur af því að frá honum var – og er enn – heitu vatni veitt í Snorralaug. Gróðurhúsin eru hins vegar hituð með jarðhita úr borholu á staðnum. Sveinn segir að þegar borað var eftir heitu vatni á svæðinu hafi þeir nánast horfið, en þeir voru áður fyrr goshverir.

Vistvæn ræktun er á Varmalandi, býflugur sjá um frjóvgun plantna og lífrænum vörnum er beitt.

„Ræktunarferillinn hjá mér er alltaf svipaður frá ári til árs; ég reyni alltaf að sá í síðustu vikunni í desember og planta út í kringum 10. febrúar. Það skilar okkur oftast fyrstu rauðu tómötunum síðast í mars og svo jafnt og þétt fram í miðjan nóvember. Þá hendi ég plöntunum út og þríf húsin.

Það má segja að þetta sé gamla lagið sem ég hef haldið mig við. Ég hef ekki fundið neina sérstaka þörf á að breyta þessu, það hefði líka verið talsvert umstang miðað við húsakostinn í dag. Ef ég ætlaði að fara að lýsa til dæmis þá þyrfti ég að fara að tjakka upp húsin og breyta þeim til að skapa fullnægjandi aðstöðu til lýsingarinnar.“

Stundum hefur verið talað um að tómatar sem vaxa beint í moldina séu bragðbetri en aðrir tómatar. Sveinn segir að í þeim efnum sé alls kyns sérviska. „Sumir segja að þeir séu miklu betri úr jarðvegi, en aðrir eru ekki sammála því.“

Yfirburðir íslenska vatnsins
Hverinn Skrifla þjónar nú því einu hlutverki að veita heitu vatni í Snorralaug. Varmaland er í baksýn.

Sveinn segir að hvað sem bragðgæðum líði á milli garðyrkjustöðva, sé ljóst að íslensku tómatarnir hafi yfirburði í íslenska vatninu þegar kemur að samkeppninni við innfluttu vörurnar.

„Tómaturinn er að langmestu leyti vatn og ef það er í hæsta gæðaflokki – eins og okkar er – þá eru ágætir möguleikar á því að uppskeran verði það líka. Loftgæðin hér skipta auðvitað líka miklu máli.“

Á Varmalandi hafa frá byrjun verið ræktaðir tómatar sem segja má að séu hefðbundnir í lit, lögun og stærð, þó þeir geti verið aðeins misstórir.

„Ég man að við vorum fyrst með danskar tegundir en síðan margar sortir af tómötum, því tilfellið er að þær duga ekki mjög lengi heldur úrkynjast. Maður er líka alltaf að leita að nýjum sortum, þannig að þær sem við vorum með fyrir kannski tíu árum eru ekkert til í dag og jafnvel ekkert fræræktaðar. En þetta lítur allt eins út, má segja.“

Miklar breytingar á húsakosti
Sveinn byggði eigin gróðurhús eftir teikningum frá Byggingastofnun landbúnaðarins, en hafði þau enn sterkari en þar var gert ráð fyrir. Meira járn er í húsunum, fleiri langbönd og sterkara gler.

Þegar Sveinn lítur um farinn veg segir hann að breytingarnar hafi orðið mestar á aðstöðu hjá þeim á fyrstu árunum, en síðan hefur þetta verið svipað á seinni hlutanum.

„Breyting á húsakostinum hefur þannig verið kannski mesta byltingin og auðvitað kynbæturnar á tómötunum. Nú er til dæmis tölvustýring á hitanum en áður var þessu öllu stjórnað með handafli. Fyrstu húsin voru miklu lægri og vegghæðin ekki nema 1,60–1,80 metrar kannski. Þegar ég byrjaði var plöntunum leyft að vaxa upp í vír sem lá í um þriggja metra hæð, þá var tekinn toppurinn af. Núna hins vegar set ég litlu plönturnar inn í húsin í febrúar og þegar ég hendi þeim út í nóvember eru þær orðnar um átta metra háar. Þá er plantan búin kannski að skila af sér 40-50 klösum á hennar líftíma.

Ég held að það sé rétt munað hjá mér að uppskeran hafi í kringum 1960 verið um 16 kíló á fermetra, en hún er komin mest í 31 kíló núna á fermetrann í ólýstu húsunum. Ég er líka bara sáttur við það – maður er ekki með sama metnaðinn hvað þetta verðar í dag. Aðalatriðið er að halda í horfinu. Hjá þeim sem framleiða hvað mest hérna á Íslandi er framleiðslan yfir 100 kíló á fermetrann undir ljósum.“

Með elstu garðyrkjustöðvum landsins

Sem fyrr segir kom Sveinn fyrst að ræktun og rekstri á Varmalandi 19 ára gamall árið 1964. Garðyrkjustöðin var reist árið 1938 og telst með elstu garðyrkjustöðvum landsins. Hún var að sögn Sveins byggð af nokkrum sauðfjárbændum í sveitinni sem lentu í mæðuveiki með sitt sauðfé og hjarðir þeirra voru skornar niður.

Garðyrkjustöðin á Varmalandi í Reykholti telst vera ein sú elsta á landinu.

Faðir hans var garðyrkjuskólagenginn og með reynslu frá annarri stöð þegar sauðfjárbændurnir fengu hann loks til að reka stöðina sína. „Þegar þeir voru komnir með kindur á ný vildu þeir losna út úr garðyrkjurekstrinum og þá keypti pabbi stöðina. Hann rak hana allt þar til hann féll frá 1971. Ég var ekkert endilega spenntur fyrir því að verða garðyrkjubóndi – og alls ekki þegar égvaryngri–enégdattinníþað að taka við þessu og síðan þróaðist þetta bara svona. Ég kunni ekki verr við þetta en svo.

Ég hafði unnið við ýmislegt annað eins og bílaviðgerðir, múrverk og byggingarvinnu – sem reyndar kom sér mjög vel þegar ég þurfti að fara að byggja mér hús árið 1973 og endurnýja gróðurhúsin. Það gerði ég alveg sjálfur og margir eiga erfitt með að trúa því, sérstaklega útlendingarnir. Þeir spyrja gjarnan hvaðan húsin komi – eins og það sé allt flutt inn frá Danmörku eða Hollandi. Ég fékk hins vegar alltaf teikningar frá Byggingastofnun landbúnaðarins. Ég fór alltaf að langmestu leyti eftir þeim, en gerði reyndar þær breytingar að gera byggingarnar alltaf aðeins sterkari en lagt var upp með í teikningunum. Það hefur komið sér til góða, því ég hef ekki lent í eins miklu tjóni og margir aðrir. Ég fékk góða hjálp hjá vinum og vandamönnum við að glerja húsin.“

Meiri vinna en margur heldur

Sveinn er sáttur við sinn tíma sem tómataræktandi.

„Þetta hefur verið margfalt meiri vinna en margir halda og mjög bindandi. Ég hef alltaf haft einhverja hjálp hjá mér, en það hefur verið misjafnt hversu mikinn mannafla ég hef þurft. Það þarf til að mynda alltaf meira starfsfólk ef verið er að pakka í neytendaumbúðir.

Elsti strákurinn minn hefur alltaf hjálpað mér við sáningu og á fyrstu stigum ræktunarinnar. Síðan hefur Gunnhildur og kærastinn hennar komið síðustu ár til hjálpar. En ég hef átt í mjög góðu sambandi við norræna verkefnið Nordjobb – og fengið starfsfólk í gegnum það. Það hefur reynst mér mjög vel.

Nú er ég bara glaður yfir því að hafa fengið Gunnhildi með mér inn í þetta.“

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...