Borgfirskri 19. aldar sögu gerð skil
Út er komin bókin „Gleymd skáld og gamlar sögur – sagnaþættir úr Borgarfirði“ sem Helgi Bjarnason blaðamaður hefur tekið saman og gefið út.
Höfundur segir um efni bókarinnar að það sé gluggi inn í líf, störf og örlög Borgfirðinga á 19. öld og upp úr aldamótum 1900. 532 menn og konur komi við sögu og 125 býli í Borgarfirði séu nefnd og að auki 63 annars staðar.
Borgfirsk rímnaskál og hagyrðingar
Gerð er grein fyrir ævi nokkurra borgfirskra rímnaskálda og hagyrðinga og sagðar sögur af fleira fólki og forvitnilegum atburðum. Þá er farið með lesendur í hringferð um Borgarfjörð í kjölfar ljósmyndara úr hópi danskra landmælingamanna sem voru þar við mælingar og kortagerð árið 1910. Segir Helgi að í bókinni séu einstæðar ljósmyndir af fólki á nokkrum bæjum og stöðum og komið við í Heyholti, Svignaskarði, Stafholti, á Hamraendum, í Norðtungu, Víðgelmi, Deildartungu, Bæ í Bæjarsveit, við Hvítá og í Borgarnesi.
Bókin er í kiljuformi, 203 blaðsíður að stærð og er prýdd fjölda ljósmynda og teikninga. Hún er fáanleg hjá höfundi.