Fólkið í blokkinni
Meistarar Freyvangsleikhússins hafa nú tekið sér fyrir hendur gamanleikinn Fólkið í blokkinni eftir hinn sívinsæla Ólaf Hauk Símonarson.
Fjallar verkið um sprenghlægilegar, þó raunsannar sögur sem allir geta ímyndað sér sem einhvern tíma hafa verið búsettir í blokk. Ákveða íbúar blokkarinnar að setja upp söngleik þar sem þau sjálf eru í aðalhlutverkum og má nefna Hárfinn hárfína, forsvarsmann hljómsveitarinnar Sóna, sem æfir stíft í kjallaranum á meðan Robbi húsvörður reynir ólmur að koma í veg fyrir að söngleikurinn komist á koppinn og hefur almennt allt á hornum sér.
Skarpar og skemmtilegar mannlýsingar eru í hávegum hafðar og atburðarásin eftir því kostuleg. Formaður Freyvangsleikhússins, hún Jósý, Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, segir okkur að mikið stuð sé á sviðinu, hljómsveit og almennur hressleiki.
Frumsýningin verður þann 24. febrúar í Freyvangi og miðasala hjá tix.is og í síma 857-5598. Sýnt verður í átta skipti, klukkan 20.00, föstudaga og laugardaga frá frumsýningu þar til 18. mars næstkomandi og miðaverð er kr. 3500.