Hryssan Eldur
Björk Jakobsdóttir er höfundur nýrrar barnabókar sem kemur í beinu framhaldi af sögu hennar Hetju frá í fyrra.
Segir í kynningu að Eldur sé æsispennandi saga um vinkonurnar Hetju og Björgu. „Hetja er fræg hryssa og Björg, nýorðin 16 ára, er ánægð að vita af henni í sveit undir Eyjafjöllum en þegar gýs í jöklinum hefst örvæntingarfull leit að Hetju og fleiri hrossum.“
Björk er auk þess að vera rithöfundur, leikkona og leikstjóri mikil hestakona. „Þetta er samtímasaga um börn og íslenska hestinn. Það er svo verðmætt að fjalla um þennan þarfasta þjón okkar, við værum ekki hér ef íslenski hesturinn hefði ekki dregið okkur gegnum móðuharðindin,“ segir hún.
Björk segist vera sveitastelpa, hún hafi verið öll sumur í sveit frá því hún var 6 ára, m.a. í Vatnsdal í A-Hún. hjá Grími Gíslasyni heitnum sem flutti ódauðlegar veiðifréttir í útvarpi.
Hún hefur unnið í um 30 ár sem leiðsögukona í hestaferðum. „Ég er ekki endilega mikið í keppnishestamennsku en mikið með stóði,“ segir hún og lætur vel af því að skrifa um íslenska hestinn og væntumþykju unglingsins til skepnunnar. Sagan sé byggð á hennar eigin hestum. JVP gefur út.