Líf og list í Safnahúsi Borgarfjarðar
Það er sjaldan lognmolla í kringum starfið í Safnahúsi Borgarfjarðar og á síðustu misserum hefur aðsókn að húsinu aukist umtalsvert.
Undir hatti Safnahússins starfa fimm söfn, bókasafn, byggðarsafn, skjalasafn, náttúrugripasafn og listasafn. Þau geta því verið ólík erindin sem fólk á þegar það sækir Safnahúsið heim en öll tengjast þau þó menningu, því menning er svo margbrotin. Það er líka fjölbreytni í sýninga- og viðburðahaldi sem dregur fólk að. Í haust kláraðist sýning um búningasaum og íslenska búninginn, þar sem gaf að líta á annan tug kven- og karlbúninga eftir handverkskonuna Margréti Skúladóttur. Vatnslitafélag Íslands var með samsýningu í október þar sem sýnd voru verk eftir 45 félaga Vatnslitafélagsins. Nú stendur yfir sýning á verkum Stefáns Geirs Karlssonar, In Memoriam, en þar eru t.a.m. skúlptúrar sem unnir voru út frá Egilssögu.
Það er fleira en listin sem fær pláss í Safnahúsinu, en annan hvern föstudag eru myndgreiningarmorgnar þar sem sýndar eru ljósmyndir af skjalasafninu þar sem gestir eru beðnir að reyna að bera kennsl á staði og fólk á myndum og er þetta mikilvægur liður í skráningarstarfi safnsins. Viðburðir fyrir börn og fjölskyldur er stór hluti af viðburðahaldi hússins, spilakvöld, listsmiðjur, föndurdagar, sögustundir og fleira hefur verið á döfinni í haust og verður áframhald á því á nýju ári.
Í desember færum við Safnahúsið í jólabúning og tínum til jólatengda gripi úr safneigninni, auk þess þá hljóma jóla- og áramótakveðjur fyrri tíma úr héraðinu, svo það er sérlega hátíðleg stemning í húsinu. Á aðventunni er boðið upp á jólaföndur og lestrarstundir og tónlist. Sú nýjung verður þetta árið að bjóða upp á aðstoð við innpökkun á jólagjöfum á Þorláksmessu fyrir þá sem enn þá eiga eitthvað eftir og vilja nýta til þess endurunnin efni til innpökkunar, eins og afskráðar bækur af bókasafni.
Á nýju ári eru fyrirhugaðar sex styttri sýningar, þar sem bæði er leitað fanga í safnkostinum sjálfum en líka til utanaðkomandi lista- og fræðimanna. Má þar nefna Konur í myndlist, sýningu sem sett verður upp í febrúar og fjallar um, eins og nafnið gefur til kynna, konur í íslenskri myndlist. Þar verða t.a.m. verk eftir Gerði Helgadóttur, Nínu Tryggvadóttur og Ásgerði Búadóttur og margar fleiri. Myndlistarkonur verða ekki einu konurnar sem við ætlum að gefa gaum í Safnahúsinu á árinu 2024, við fáum til okkar sýningu um skessur í þjóðsögum og húsmæður 20. aldarinnar verða í brennidepli á nýrri sýningu þegar nær dregur sumrinu.
Síðustu tvö ár hafa allir viðburðir og sýningar í Safnahúsinu verið gjaldfrjálsir og verður það áfram á árinu 2024. Það eru því allir velkomnir í Safnahúsið og upplagt að kíkja þar við þegar fólk á leið um Borgarnes, við tökum vel á móti þér.