Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Líf og list í Safnahúsi  Borgarfjarðar
Menning 29. nóvember 2023

Líf og list í Safnahúsi Borgarfjarðar

Höfundur: Þórunn Kjartansdóttir, forstöðumaður menningarmála í Borgarbyggð.

Það er sjaldan lognmolla í kringum starfið í Safnahúsi Borgarfjarðar og á síðustu misserum hefur aðsókn að húsinu aukist umtalsvert.

Undir hatti Safnahússins starfa fimm söfn, bókasafn, byggðarsafn, skjalasafn, náttúrugripasafn og listasafn. Þau geta því verið ólík erindin sem fólk á þegar það sækir Safnahúsið heim en öll tengjast þau þó menningu, því menning er svo margbrotin. Það er líka fjölbreytni í sýninga- og viðburðahaldi sem dregur fólk að. Í haust kláraðist sýning um búningasaum og íslenska búninginn, þar sem gaf að líta á annan tug kven- og karlbúninga eftir handverkskonuna Margréti Skúladóttur. Vatnslitafélag Íslands var með samsýningu í október þar sem sýnd voru verk eftir 45 félaga Vatnslitafélagsins. Nú stendur yfir sýning á verkum Stefáns Geirs Karlssonar, In Memoriam, en þar eru t.a.m. skúlptúrar sem unnir voru út frá Egilssögu.

Það er fleira en listin sem fær pláss í Safnahúsinu, en annan hvern föstudag eru myndgreiningarmorgnar þar sem sýndar eru ljósmyndir af skjalasafninu þar sem gestir eru beðnir að reyna að bera kennsl á staði og fólk á myndum og er þetta mikilvægur liður í skráningarstarfi safnsins. Viðburðir fyrir börn og fjölskyldur er stór hluti af viðburðahaldi hússins, spilakvöld, listsmiðjur, föndurdagar, sögustundir og fleira hefur verið á döfinni í haust og verður áframhald á því á nýju ári.

Í desember færum við Safnahúsið í jólabúning og tínum til jólatengda gripi úr safneigninni, auk þess þá hljóma jóla- og áramótakveðjur fyrri tíma úr héraðinu, svo það er sérlega hátíðleg stemning í húsinu. Á aðventunni er boðið upp á jólaföndur og lestrarstundir og tónlist. Sú nýjung verður þetta árið að bjóða upp á aðstoð við innpökkun á jólagjöfum á Þorláksmessu fyrir þá sem enn þá eiga eitthvað eftir og vilja nýta til þess endurunnin efni til innpökkunar, eins og afskráðar bækur af bókasafni.

Á nýju ári eru fyrirhugaðar sex styttri sýningar, þar sem bæði er leitað fanga í safnkostinum sjálfum en líka til utanaðkomandi lista- og fræðimanna. Má þar nefna Konur í myndlist, sýningu sem sett verður upp í febrúar og fjallar um, eins og nafnið gefur til kynna, konur í íslenskri myndlist. Þar verða t.a.m. verk eftir Gerði Helgadóttur, Nínu Tryggvadóttur og Ásgerði Búadóttur og margar fleiri. Myndlistarkonur verða ekki einu konurnar sem við ætlum að gefa gaum í Safnahúsinu á árinu 2024, við fáum til okkar sýningu um skessur í þjóðsögum og húsmæður 20. aldarinnar verða í brennidepli á nýrri sýningu þegar nær dregur sumrinu.

Síðustu tvö ár hafa allir viðburðir og sýningar í Safnahúsinu verið gjaldfrjálsir og verður það áfram á árinu 2024. Það eru því allir velkomnir í Safnahúsið og upplagt að kíkja þar við þegar fólk á leið um Borgarnes, við tökum vel á móti þér.

Skylt efni: söfnin í landinu

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...