Pítsustund verk ársins
Veitt voru verðlaun í þremur flokkum á Hönnunarverðlaunum Íslands 9. nóvember síðastliðinn.
Pítsustund var sigurvegari í flokknum verk ársins. Það var gjörningur haldinn á HönnunarMars 2023 í samstarfi Fléttu og Ýrúrarí. Opnaður var pítsustaður þar sem þæfðar voru ullarpítsur í sérstakri þæfingarvél.
Efniviðurinn var afgangsull frá íslenskum ullariðnaði sem annars hefði verið fargað. Ullarpítsurnar voru seldar eins og venjulegar pítsur, þar sem kaupendur völdu álegg af matseðli og biðu á meðan pöntunin var þæfð. Í umsögn dómnefndar segir að Pítsustund hafi verið „frumlegt og gott dæmi um það hvernig hönnun getur vakið fólk til umhugsunar um ábyrgð þess á umhverfinu með skemmtilegum og áhugaverðum hætti“.
Á bak við Ýrúrarí stendur Ýr Jóhannsdóttir og á bak við Fléttu standa Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir. Þær síðarnefndu unnu jafnframt verðlaun fyrir Loftpúðann í flokknum vara ársins.