Rúi & Stúi
Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir barna- og fjölskylduleikritið Rúi og Stúi eftir Skúla Rúnar Hilmarsson og Örn Alexandersson með nýrri tónlist eftir Stefán Þorleifsson og í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar.
Allt er í sóma þar sem grallararnir Rúi og Stúi búa, en þeir eru bæði uppfinningasamir og sniðugir. Þeir félagar sjá til þess að íbúarnir þurfa ekki að erfiða eða hafa áhyggjur af daglegu amstri og hafa meira að segja fundið upp vél sem „getur allt“. Hún býr til og gerir við hluti auk þess að geta gert nákvæma afsteypu af sveitarstjóranum sem stýrir af röggsemi með sinn trygga aðstoðarmann Bergstein sér við hlið. Allt er einfalt og gott þar til daginn sem allt byrjar að fara úrskeiðis. Vélin bilar, sveitarstjórinn hverfur og samfélagið kemst í uppnám.
Þarna er um að ræða líflega og skemmtilega sýningu fyrir alla aldurshópa enda leikhópurinn þrælvanur og sprellfjörugur. Leikstjórinn Ólafur Jens Sigurðsson heldur um taumana, en hann hefur unnið með leikfélaginu áður og þótt bæði úrræðagóður og útsjónarsamur.
Frumsýnt verður þann 21. október klukkan 14 í félagsheimilinu Aratungu og má nálgast miða hjá tix.is.
Tvær sýningar eru áætlaðar til viðbótar í október, svo og heilar átta í nóvember.