Þórey Gylfadóttir tók þátt í að innleiða bændahópa á Íslandi eftir finnskri fyrirmynd. Þar læra bændur hver af öðrum og er hlutverk ráðunautsins að leiða umræðuna.
Þórey Gylfadóttir tók þátt í að innleiða bændahópa á Íslandi eftir finnskri fyrirmynd. Þar læra bændur hver af öðrum og er hlutverk ráðunautsins að leiða umræðuna.
Mynd / Eiríkur Loftsson
Fréttir 14. nóvember 2024

Bændur læra af hver öðrum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur undanfarin tvö ár staðið fyrir stýrðri jafningjafræðslu sem gengur undir nafninu Bændahópar.

Þórey Gylfadóttir, ráðunautur hjá RML, segir að hóparnir miðli af reynslu sinni og þekkingu undir faglegri stjórn ráðunauta. Hægt er að aðlaða þetta ráðgjafarform að nánast hvaða viðfangsefni sem er, en þeir bændahópar sem hafa starfað hingað til hafa einblínt á jarðrækt og fóðuröflun. Utanumhaldið og stýringin er það sem gerir fundina árangursríka, að sögn Þóreyjar, þar sem hægt er að ná markvissri umræðu um atriði sem kæmu hugsanlega ekki fram í almennu spjalli milli bænda. Bændahóparnir eru samkvæmt finnskri fyrirmynd.

Í byrjun árs 2023 komu fyrstu tveir hóparnir saman og tóku fimm hópar til starfa í byrjun þessa árs. Á Suðurlandi er einn hópur, einn á Vesturlandi, tveir á Norðurlandi og einn á Austurlandi. Hver hópur hittist fimm sinnum á ári og er samansettur af bændum frá tíu búum. Á fyrsta fundinum kemur hópurinn saman í fundarsal eða öðru slíku rými og skipuleggur starf ársins. Á næstu fundum skiptast bændurnir á að taka á móti þátttakendum á sínum bæ og eru fundirnir að mestu utandyra eða í útihúsum.

„Þegar það er farið að lifna yfir grasinu þá viljum við vera úti. Við viljum skoða gróðurinn, við viljum skoða túnin, við viljum skoða jarðveginn. Þarna erum við að reyna á hluti sem eru settir fram í fræðunum,“ segir Þórey og segir þessa tegund ráðgjafar ná fram ýmsu sem ekki er hægt í fyrirlestrum og er ekki stuðst við glærur eða tölvur nema í undantekningartilfellum. „Við erum að fara frá því að sitja og meðtaka yfir í að prófa og reyna.“

Ráðunautar leiða umræðuna

„Ráðunautarnir eru alltaf tveir með hverjum hópi og þeir hafa ólík hlutverk,“ segir Þórey. Annar er kallaður lóðsi og hinn er kallaður aðstoð. „Hlutverk lóðsans er að stýra vinnunni og umræðunni þannig að það fái allir að njóta sín á fundinum.“ Aðstoðin sér meðal annars um að punkta niður hvað fer fram en umræðunum er oft fylgt eftir á næstu fundum. Hópunum er gjarnan skipt niður í minni einingar til þess að ræða spurningar og eftir ákveðinn tíma gera hóparnir hinum fundargestunum grein fyrir sinni vinnu.

Ráðunautarnir leiða umræðuna þannig að hópurinn ræði spurningarnar sem eru lagðar fyrir og komist að niðurstöðu. Þannig kemst þekking og reynsla bændanna fram, en þar sem aðstæður eru ólíkar á hverjum stað er oft ekki eitt rétt svar. „Þetta er ekki spurningin um það að vera bestur, heldur spurningin um það að læra af hvert öðru og geta hugsanlega komist hjá því að gera einhver mistök.“

Þórey segir nauðsynlegt að báðir ráðunautarnir á fundinum þekki aðferðir þessarar ráðgjafar og að allavega annar þeirra hafi fagþekkingu á því sviði sem tekið er fyrir. Þema hvers fundar tengist yfirleitt viðkomandi árstíð en Þórey nefnir sem dæmi að á vorin sé sáðvara oft tekin fyrir og á sumrin skiptist bændurnir gjarnan á sinni reynslu og þekkingu á framleiðslu á lystugu fóðri.

Ráðunautarnir þurfa að skipuleggja fundina vel þar sem mikilvægt er að komast yfir efnið innan tímarammans. „Formlegi fundurinn er þrír tímar en það dregst yfirleitt úr viðverunni,“ segir Þórey, þar sem gestgjafarnir hafa gjarnan til hressingu að loknum fundi eða bjóða upp á leiðsögn um útihúsin sín.

Starfsemi bændahópanna fer að mestu leyti fram utandyra. Þá geta þátttakendur verið í beinni snertingu við viðfangsefnin. Mynd / Þórey Gylfadóttir

Árangur næst með trausti

„Til þess að við náum árangri og öllum líði vel verður að ríkja traust,“ segir Þórey, en á sínum fyrsta fundi setur hópurinn sér sjálfur reglur varðandi mætingu, símanotkun, trúnað og fleira. Sömu tveir ráðunautarnir fylgja hverjum hóp út árið og er æskilegt að það komi alltaf sami eða sömu aðilarnir frá hverju búi á fundina.

„Það er næstum því engin heimavinna en stundum biðjum við bændur um að hugsa um eitthvað ákveðið áður en þeir koma á fundinn,“ segir Þórey. Þá kemur fyrir að þátttakendur eru beðnir um að koma með gögn, eins og heyefnagreiningar, sem er hægt að rýna í á fundinum.

Þórey segir að eitt af fyrstu símtölunum sem hún fékk eftir að hún hóf störf hjá RML fyrir fjórum árum hafi verið frá bónda sem vildi benda á grein sem var í norsku landbúnaðarriti sem fjallaði um innleiðingu bændahópa þar að finnskri fyrirmynd. Í kjölfarið aflaði Þórey sér frekari upplýsinga og setti sig í samband við finnska ráðunautinn Anu Ellä, sem innleiddi kerfið í Noregi, og kom hún síðar til Íslands.

Í ár kostaði þátttakan allt árið 115.000 krónur án vsk. á hvert bú og geta fleiri en einn frá hverjum bæ tekið þátt. Í lok árs mun RML auglýsa eftir þátttakendum í bændahópa næsta árs og er Þórey bjartsýn á að þetta starf muni festa sig í sessi. „Það er mjög oft þannig að hóparnir vilja halda áfram ár eftir ár. Úti í Finnlandi eru til hópar sem hafa verið saman lítið eða ekkert breyttir í tíu ár.“

Skylt efni: Bændahópar

Bændur læra af hver öðrum
Fréttir 14. nóvember 2024

Bændur læra af hver öðrum

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur undanfarin tvö ár staðið fyrir stýrð...

Skipulega haldið utan um feldfjárrækt í Fjárvís
Fréttir 14. nóvember 2024

Skipulega haldið utan um feldfjárrækt í Fjárvís

Nýverið bárust tíðindi af því að verið væri að setja inn upplýsingar um feldfé í...

Nýtt merki vottar gott starfsmannahald
Fréttir 14. nóvember 2024

Nýtt merki vottar gott starfsmannahald

Friðheimar eru í samstarfi við Báruna, stéttarfélag, að innleiða nýtt merki, Í l...

Nægjusemi í nóvember
Fréttir 13. nóvember 2024

Nægjusemi í nóvember

Landvernd og Grænfánaverkefnið standa fyrir átakinu Nægjusamur nóvember.

Vilja harðfisk á lista UNESCO
Fréttir 13. nóvember 2024

Vilja harðfisk á lista UNESCO

Slow Food Reykjavík vinnur að því að fá vinnsluhefðir tengdar harðfiski og skrei...

Stefnt að loftslagsvænstu landbúnaðarafurðum heims
Fréttir 13. nóvember 2024

Stefnt að loftslagsvænstu landbúnaðarafurðum heims

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, iðnaðarverkfræðingur og sjálfbærniráðgjafi, lei...

Skrefagjald innleitt
Fréttir 13. nóvember 2024

Skrefagjald innleitt

Ísafjarðarbær hefur ákveðið að innheimta svokallað skrefagjald vegna sorphirðu.

Sjónum beint að fiskauganu
Fréttir 12. nóvember 2024

Sjónum beint að fiskauganu

Ekki hefur enn fundist flötur á því hér á Íslandi að nýta fiskaugu sérstaklega ú...