Gimsteinn frá Þernunesi ber nafn með rentu
Gimsteinn frá Þernunesi ber svo sannarlega nafn með rentu. Ekki aðeins vegna þess að hann er fyrsti hrútur Íslands með hina viðurkenndu verndandi arfgerð ARR gegn riðu, heldur líka vegna þess að hann finnst innan um „hörkufé á góðu kynbótabúi“, eins og Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, kallar Þernunes.
Þernunes í Reyðarfirði. Mynd / Valdís Hermannsdóttir
Eyþór segir Gimstein 21-001 sterkættaðan hrút með góða kynbótaspá; gerð: 116, fita: 98, frjósemi: 102 og mjólkurlagni: 105.
„Faðir hans er kaupahrútur frá hinu landsþekkta kynbótabúi Melum í Árneshreppi. Sá hrútur heitir Kubbur 20-004 og er vel gerður einstaklingur en hann var stigaður upp á 87 stig. Kubbur var með mjög góða útkomu í Þernunesi eftir haustið en hann átti 63 afkvæmi með sláturupplýsingar og stendur þar efstur hrúta fyrir gerð. Meðalþungi afkvæmanna var 18,7 kg, gerðin 11,3 og fitan 7,6,“ segir Eyþór.
Kynbótamat Kubbs er að sögn Eyþórs eftirfarandi; gerð: 120, fita: 95, frjósemi: 99 og mjólk: 105.
Móðirin mikil efniskind
Móðir Gimsteins, Katrín 20-071, er að sögn Eyþórs ung að árum en um mikla efniskind sé að ræða sem einnig sé með gott kynbótamat; gerð: 111, fita: 101, frjósemi: 105 og mjólkurlagni: 105.
„Gimsteinn fær ARR arfgerðina frá henni og hún hefur fengið hana frá Hallgerði 17-753, móður sinni. Síðan er hugsanlegt að Hallgerður fái arfgerðina frá Skarphéðni 16-013, föður sínum, en hann er sonur Njálu 13-301 og er sú kind jafnframt móðir alsystranna Njálu-Brennu 17-717 og Njálu-Sögu 17-718 sem báðar hafa ARR. Ef Njála gefur ARR, þá er þetta komið frá Kambi í Reykhólasveit – en þaðan var Njála fengin í Þernunes. Út frá Njálu er sterkur ættbogi í Þernunesi sem virðist hafa reynst feikivel.
Ekki er þó hægt að útiloka að ARR arfgerðin liggi í gömlum heimaættum í Þernunesi,“
segir Eyþór.
Alla staði álitlegur gripur
„Gimsteinn 21-001 er í alla staði hinn álitlegasti gripur þótt hann sé enn óreyndur sökum ungs aldurs. Þótt hann bæri ekki ARR arfgerðina væri hann áhugaverður kandídat fyrir sæðingastöðvarnar út frá ætterni og kynbótamati. Þó ekki sé ljóst enn hvort gripurinn fáist inn á sæðingastöð – og til þess fáist tilskilin leyfi – þá er alveg ljóst að næstu skref felast í því að skoða það og eins að horfa til sona hans sem væntanlega fæðast næsta vor,“ bætir Eyþór við.
Sjá nánar á bls. 18 í nýju Bændablaði, um fundinn á ARR-arfgerðinni í sex einstaklingum í Þernunesi.