Heimsmethafinn Arney
Vorsýningar kynbótahrossa fóru rólega af stað en fjögurra vetra hryssa sló heimsmet.
Níu sýningar voru áætlaðar en aðeins náðist viðeigandi skráning á sex af þeim. Þremur sýningum er lokið, tveimur á Hellu og einni á Hólum, en þrjár sýningar eru eftir; á Selfossi, Hellu og á Hólum. Nú þegar hefur 331 hross hlotið dóm, þar af 295 fullnaðardóm.
Ef rennt er yfir efstu hross það sem af er vori er réttast að byrja á heimsmethafanum Arneyju frá Ytra-Álandi. Arney er fjögurra vetra og var sýnd á Hólum af Agnari Þór Magnússyni. Arney hlaut í aðaleinkunn 8,62 sem er hæsti dómur fjögurra vetra hryssu hingað til. Hlaut hún 8,78 fyrir hæfileika og 8,31 fyrir sköpulag. Hún hlaut m.a. 9,5 fyrir samstarfsvilja og 9,0 fyrir tölt og fegurð í reið. Arney er undan Ský frá Skálakoti og Álfsdótturinni Erlu frá Skák. Úlfhildur Ída Helgadóttir er eigandi og ræktandi Arneyjar.
Efsti fjögurra vetra hesturinn er Kristall frá Jarðbrú en hann hlaut 8,22 í aðaleinkunn. Kristall var einnig sýndur af Agnari og er undan Kiljani frá Steinnesi og Gleði frá Svarfhóli.
Hljómur frá Auðsholtshjáleigu er efsti fimm vetra hesturinn með 8,65 í aðaleinkunn. Hann er undan Organista frá Horni I og Tíbrá frá Auðsholtshjáleigu. Hann var sýndur af Árna Birni Pálssyni.
Efsta fimm vetra hryssan er Ársól frá Sauðanesi undan Spuna frá Vesturkoti og Sóllilju frá Sauðanesi. Hún hlaut 8,51 í aðaleinkunn og var sýnd af Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur.
Glampi frá Skeiðháholti stendur efstur 6 vetra hesta en hann hlaut í aðaleinkunn 8,58.
Glampi var sýndur af Guðmundi Björgvinssyni og er undan Draupni frá Stuðlum og Hrefnu frá Skeiðháholti. Landsmótssigurvegari 5 vetra hryssna í fyrra, Hildur frá Fákshólum, er efsta sex vetra hryssan. Hún hlaut í aðaleinkunn 8,65 og var sýnd af Helgu Unu Björnsdóttur. Hildur er undan Gnýpu frá Leirulæk og Ölni frá Akranesi.
Í elsta flokki stóðhesta er efstur Seiður frá Hólum, sýndur af Konráði Val Sveinssyni. Seiður, sem er undan Trymbli frá Stóra- Ási og Ösp frá Hólum, hlaut í aðaleinkunn 8,83 sem er hæsti dómur sem hross hefur hlotið í vor.
Grá frá Hofi á Höfðaströnd er efsta hryssan í flokki 7 vetra og eldri. Hún hlaut 8,51 í aðaleinkunn en það var Þórarinn Eymundsson sem sýndi hana. Grá er undan Gangster frá Árgerði og Sefju frá Úlfljótsvatni.