Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ísland skuldbundið til að vakta lífríkið
Fréttir 25. nóvember 2022

Ísland skuldbundið til að vakta lífríkið

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Grænbók stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa var birt í Samráðsgátt stjórnvalda í lok september.

Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og skuldbindur sig þannig til að greina og vakta ýmsa þætti í lífríki landsins sem hafa áhrif á þá stöðu. Markmiðið með grænbókinni er að leiða fram umræðu um viðfangsefnið áður en eiginleg stefna verður mótuð.

Markmið hins alþjóðlega samnings eru þrjú; að vernda líffræðilega fjölbreytni, stuðla að sjálfbærri nýtingu hennar og tryggja ráðstöfunarrétt ríkja yfir erfðaefni sínu og skiptingu hagnaðar af nýtingu þess. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að greina og vakta þá þætti sem þarfnast verndar og hafa skaðleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Þá ber að koma upp kerfi verndarsvæða, stýra og stjórna auðlindum sem mikilvægar eru fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni, endurbyggja og lagfæra spillt vistkerfi og koma í veg fyrir að fluttar séu inn ágengar framandi tegundir lífvera sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða innlendum tegundum.

Talsvert fjallað um landbúnað

Í grænbókinni er talsvert fjallað um landbúnað. Til að mynda í tengslum við stefnumótun fyrir landbúnað hér á landi og verndun erfðaauðlinda. Einnig í kaflanum um breytingar á landnotkun, þar sem tiltekið er að landbúnaður sé einn af þeim lykilþáttum sem hafa áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Breytingarnar hafi þannig áhrif á þau vistkerfi sem fyrir eru. Búsvæði geti tapast við aukin umsvif mannsins.

Ákvarðanir sem varða skipulag landnotkunar þurfi að vera eins vel ígrundaðar og kostur er og byggja á bestu fáanlegu upplýsingum. Þar kemur einnig fram að samkvæmt samtölum við Landmælingar Íslands og hjá Skipulagsstofnun liggi ekki fyrir tölur um breytingar á landnotkun nema að takmörkuðu leyti – og alls ekki um áform um breytingar á landnotkun sem til dæmis skipulagsáætlanir gera ráð fyrir.

Þess er sérstaklega getið að landbúnaðarland sé skilgreint í skipulagi sveitarfélaga en hingað til hafi það verið gert með afar víðtækum hætti. Samkvæmt jarðalögum skuli við gerð aðalskipulags í dreifbýli flokka land með tilliti til ræktunarmöguleika. Ráðherra hafi gefið út leiðbeiningar um flokkun ræktarlands í samráði við yfirvöld skipulagsmála.

Landbúnaður veldur mestri hnignun

Í kaflanum um breytingar á landnotkun segir enn fremur að landbúnaður sé sú landnotkun sem valdi hvað mestri hnignun líffræðilegrar fjölbreytni á heimsvísu. „Ræktun á landi felur í sér umbreytingu á yfirborði lands. Skipt er um tegundir í gróðurþekju þannig að það vistkerfi sem fyrir var er ekki lengur til staðar. Í jarðvegi verða einnig breytingar, m.a. vegna þjöppunar frá vélaumferð og notkunar á aðfengnum áburðarefnum. Þessar breytingar valda fjölþættum áhrifum á dýralíf, gróðurfar og aðra þætti líffræðilegrar fjölbreytni. Viðamikil akuryrkja minnkar að jafnaði einnig fjölbreytni landslags. Tegundir sem geta nýtt sér landbúnaðarland til að uppfylla flestar þarfir sínar hagnast oft á slíkum breytingum en tegundir sem þurfa önnur búsvæði gefa eftir.“

Búfjárbeit hafi þannig víðtæk áhrif á vistkerfi hér á landi og viðhaldið tiltekinni tegund vistkerfa með úthaga, mólendi og flagmóum. Sums staðar hafi ofbeit átt mikinn þátt í gróður- og landeyðingu og losun kolefnis út í andrúmsloftið. En búfjárbeit getur einnig viðhaldið ákveðnum vistgerðum sem teljast mikilvæg búsvæði tiltekinna ábyrgðartegunda, til dæmis fugla eins og lóu, spóa og lóuþræls.

Í kaflanum er einnig fjallað um ræktun nytjaskóga, sem byggi á notkun framandi tegunda eins og rússalerkis, sitkagrenis, stafafuru og alaskaaspar. Nytjaskógar hafi verið ræktaðir á 49 þúsund hekturum lands, eða tæplega 0,5 prósenta landsins. Þar inni sé talsvert af birki líka sem hafi verið á ræktunarsvæðum eða gróðursett samhliða öðrum tegundum í ræktun. Þessi ræktun byggi að stærstum hluta á stuðningi ríkisins við skógrækt á lögbýlum. Samkvæmt reglugerð um landshlutaverkefni í skógrækt skulu ræktunaráætlanir taka fullt tillit til náttúruverndar og umhverfissjónarmiða í samræmi við gildandi lög, eins og varðandi lífríki, fornleifar, náttúruminjar, verndarsvæði og landslag í samræmi við leiðbeiningar um nýræktun skóga.

Í kaflanum kemur einnig fram að breytingar á landnotkun hafi ekki eingöngu verið í þá átt að leiða til hnignunar vistkerfa. Sé litið til baka frá því að síðast var mótuð stefna um líffræðilega fjölbreytni, þá hafi ýmis svæði verið friðlýst – sem séu lífríkinu mikilvæg.

Ágengar framandi tegundir

Meðal annarra umfjöllunarefna grænbókarinnar eru verndarsvæði á landi og samstarf við landeigendur, endurheimt vistkerfa þar sem horft er til mikilvægs hlutverks bænda og annarra landeigenda og hvernig líffræðileg fjölbreytni þarf að vera hluti af annarri stefnumörkun. Fjallað er um sjálfbæra nýtingu sem meðal annars tengist setningu viðmiða um sjálfbæra landnýtingu.

Sérstaklega er fjallað um ágengar framandi tegundir í grænbókinni, en þær eru skilgreindar þannig að þær séu framandi lífverur sem valda, eða eru líklegar til að valda, rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni. Tvær tegundir æðplantna og ein mosategund hafa verið skilgreindar ágengar á Íslandi. Alaskalúpína, sem upphaflega var flutt inn og notuð til landgræðslu, skógarkerfill sem var fluttur inn sem garðaplanta og mosinn hæruburst, sem hefur borist með ferðamönnum, til dæmis neðan á skóm, og náð fótfestu á jarðhitasvæðum.

Minkurinn er eina spendýrið sem hefur verið skilgreint sem ágeng tegund á Íslandi, en hann var fluttur var til landsins til loðdýraræktar. Hann slapp fljótlega út í náttúruna og hefur náð mikilli útbreiðslu á landinu.

Þrjár tegundir smádýra hafa verið skilgreindar sem ágengar. Spánarsnigill hefur borist með innfluttum plöntum, búrsnigill var fluttur inn til að hafa í skrautfiskabúrum, en hann hefur borist í vötn, og loks húshumla sem barst til landsins með vöruflutningum á áttunda áratug síðustu aldar.

Framtíðarsýn og -áherslur

Í grænbókinni eru sett fram drög að framtíðarsýn í 4. kafla og loks áherslur, sem meðal annars kallast á við áherslur í stefnumótun samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Stefnt verður að því að á Íslandi njóti líffræðileg fjölbreytni verndar og gildi hennar sé metið að verðleikum. Vistkerfi verði endurheimt og nýtt af skynsemi, vistkerfaþjónustu sé viðhaldið og ávinningurinn skili sér til allra.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem fjalla um líf í vatni, númer 14, og líf á landi, númer 15, eru sögð fanga vel þau meginmarkmið sem stefna Íslands þurfi að vinna að. Vernda þurfi og nýta hafið á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun, annars vegar, og hins vegar að vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, með sjálfbærri stjórnun skógarauðlindarinnar, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu, endurheimta landgæði og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.

Umræður skila árangri

Meginmarkmiðið með grænbókinni er að kalla fram umræðu um viðfangsefnið og fá ábendingar úr samráði um hvaða leiðir eru taldar mögulegar til að skila árangri í verndun líffræðilegrar fjölbreytni.

Það verði innlegg í vinnu við hina eiginlegu stefnu sem mun birtast í hvítbók, sem jafnframt verður kynnt í opnu samráðsferli í Samráðsgátt. Lokað var fyrir umsóknir um grænbókina í Samráðsgáttinni 4. nóvember.

Ófullkominn listi um ágengar tegundir

Alls bárust sautján umsagnir. Í nokkrum umsögnum koma fram ábendingar um að skilgreiningin á ágengum tegundum á Íslandi sé ef til vill of þröng og er bent á ýmsar tegundir, bæði úr plöntu- og dýraríkinu, sem gætu vel átt heima í þeim flokki. Í umsögn Hjörleifs Finnssonar er vakin athygli á því að hnúðlax sé ekki í þessum flokki, vegna þess að sú tegund var ekki flutt inn heldur kom til Íslands af sjálfdáðum. Samtök náttúrustofa segja að málefni framandi tegunda hafi verið vanrækt á Íslandi líkt og málefni líffræðilegrar fjölbreytni almennt. Segja þau að listi grænbókarinnar yfir ágengar framandi tegundir sé um margt ófullkominn og hafi ekki verið uppfærður í mörg ár. „Eitt af brýnustu verkefnunum fram undan varðandi framandi ágengar tegundir er einmitt að gera faglegt, vísindalegt áhættumat á öllum framandi tegundum á Íslandi, þar sem rýnihópur vistfræðinga myndi meta líkurnar á ágengi þeirra,“ segir í umsögn þeirra. Umhverfisstofnun segir sömuleiðis að fjölmargar tegundir í straumvötnum, stöðuvötnum og strandsjó ætti að nefna í grænbókinni.

Skógræktin segir í umsögn sinni að grænbókin nái ekki utan um viðfangsefnið nema að hluta. „Í henni er nánast eingöngu fjallað um þá þætti líffræðilegrar fjölbreytni sem kallast tegundaauðgi annars vegar og vistkerfi/vistgerðir hins vegar. Nánast ekkert er fjallað um erfðafræðilega fjölbreytni, sem er þó mjög mikilvæg í landbúnaði, skógrækt og annarri nýtingu lifandi auðlinda. Verst er þó að ekkert tillit er tekið til yfirvofandi loftslagsbreytinga og hvernig bregðast eigi við þeim. Grænbókin horfir ekki til framtíðar.“

Landbúnaðarmálefni mikilvæg fyrir framhaldið

Landvernd bendir á að meiri áherslu hefði mátt leggja á beitarstýringu sauðfjár sem skilvirka leið til verndar gróðurs og líffjölbreytileika og leið til að vernda vistkerfi og stuðla að sjálfbærri landnýtingu. Beitarstýring sé ekki í hávegum höfð í dag. Hrossabeit geti einnig haft verulega neikvæð áhrif á viðkvæm vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni.

Bændasamtök Íslands segja að í grænbók sé gott stöðuyfirlit um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa og áskoranirnar fram undan. Samtökin telja að málefni tengd landbúnaði séu mikilvæg fyrir þá vinnu sem fram undan er, við að viðhalda og auka fjölbreytni íslenskra vistkerfa. Yfirgripsmikla þekkingu á þeim málefnum sé að finna innan samtakanna og dótturfélags þess, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Því óska þau eftir aðkomu að þeirri vinnu sem unnin verður á grundvelli grænbókar.

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...