Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum
Sjö stóðhestar, fæddir á Íslandi en staðsettir erlendis, uppfylltu viðurkenningu fyrir afkvæmahross
Samræming varð á veitingu viðurkenninga fyrir afkvæmahross árið 2019 innan aðildarlanda alþjóðasambands FEIF þannig að núna eru hvarvetna sömu viðmið. „Viðurkenning á afkvæmahrossum ber að skoða sem mikinn heiður og afrek og endurspeglar sannarlega gildi hrossa til framræktunar,“ segir Elsa Albertsdóttir hrossaræktarráðunautur.
Þetta eru stóðhestarnir Viti frá Kagaðarhóli, Konsert frá Hofi, Ölnir frá Akranesi, Kappi frá Kommu og Herjólfur frá Ragnheiðarstöðum sem allir hljóta heiðursverðlaun, og Draupnir frá Stuðlum og Hersir frá Lambanesi sem hljóta fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi.
Fyrstu verðlaunahestar hafa að lágmarki 118 stig og 15 dæmd afkvæmi en heiðursverðlaunahestar 118 stig og 50 dæmd afkvæmi.
Þetta eru lágmarkskröfur og stigin eiga bæði við um kynbótamat aðaleinkunnar og kynbótamat aðaleinkunnar án skeiðs.
Einnig hlýtur Óðinn vom Habichtswald fyrstu verðlaun en hann er fæddur og staðsettur í Þýskalandi. Draupnir er nú í Þýskalandi, Hersir og Konsert í Belgíu, Viti, Ölnir og Kappi í Danmörku og Herjólfur í Frakklandi.