Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Rússnesk rolla, drykkur þar sem mjólkin kemur ylvolg úr ærspena.
Rússnesk rolla, drykkur þar sem mjólkin kemur ylvolg úr ærspena.
Mynd / Aðsent
Fréttir 19. ágúst 2020

Kokteill úr sauðamjólk

Höfundur: Vilmundur Hansen
Andri Davíð Pétursson heldur úti heimasíðunni viceman.is þar sem hann fjallar um allt sem viðkemur fljótandi veigum en hann heldur líka úti hlaðvarpinu „Happy Hour með The Viceman“. Andri er framreiðslumaður að mennt og hefur vakið athygli fyrir að fara sínar eigin leiðir þegar kemur að blönd­un drykkja, svo ekki kom það mörgum á óvart þegar hann kynnti til leiks nýjan íslenskan kokteil úr sauðamjólk.
 
Á undanförnum árum hefur Andri þróað sinn eigin barþjónastíl sem byggist að miklum hluta á nýtingu íslensks hráefnis eins og villtum jurtum og öðru sem fáum dettur í hug að geti nýst í drykki. Andri hefur á síðastliðnum árum sérhæft sig í drykkjargerð.  Árið 2016 vann Andri fyrstu World Class Bartender of the year-keppnina sem haldin var á Íslandi. Síðar sama ár keppti hann á móti 56 bestu barþjónum heims í aðalkeppni World Class Bartender of the Year í Miami.
 
Framreiðslumaðurinn Andri Davíð Pétursson hristir rússnesku rolluna.
 
Rússnesk rolla
 
Í maí lá leið Andra á Skarð í Lundar­reykjadal þar sem hann aðstoðaði frændur sína í sauðburði. Þar datt Andra í hug að búa til frumlega og skemmtilega útgáfu af hinu heimsþekkta hanastéli White Russian, eða hvítum rússa. Upprunalega uppskriftin kallar á vodka, kaffilíkjör og rjóma en Andri vildi prófa óhefðbundna nálgun og skipti rjómanum út fyrir sauðamjólk. Var mjólkin sótt beint á spena inni í fjárhúsi og drykkurinn hristur á staðnum. Útkoman kom skemmtilega á óvart og varð til nýr drykkur sem fékk nafnið Rússnesk rolla. 
 
Þann 28. maí veitti markaðsstofan Icelandic Lamb veitingastöðum Award of Excellence-viðurkenningar og bauð Andri gestum að smakka þessa nýjustu viðbót við íslenska drykkjarmenningu. Aðspurður sagði Andri sauðamjólkina einstaka vegna þess hve fitusprengd hún er. „Áferðin er einstaklega mjúk og ljúffeng sökum þess, þar að auki hentar sauðamjólk vel til kokteilgerðar af því að þurrefnisinnihald hennar er hátt.“ Rannsóknir hafa sýnt að próteinsamsetning sauðamjólkur er önnur en kúamjólkur og gæti fólk sem hefur óþol gagnvart kúamjólk í einhverjum tilfellum neytt sauðamjólkurvara eins og Rússneska rollu án óþæginda.
 
Sauðamjólk til manneldis
 
Ísland er gott dæmi um land þar sem nýting á sauðamjólk til manneldis hefur lagst af vegna mikilla breytinga í landbúnaði. Mjólk sauðkindarinnar hefur haft töluverða þýðingu í fæðuöflun mannkyns í gegnum tíðina en vinsældir hennar hafa dalað töluvert síðustu aldir. Í sumum löndum hefur þó hefð fyrir nýtingu hennar lifað góðu lífi þrátt fyrir hraða þróun landbúnaðar. Algengast er að mjólkin sé nýtt til ostagerðar en sauðaostar eru eftirsótt og verðmæt matvara víða um heim.
 
Þó nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til þess að hefja nýtingu á sauðfjármjólk á Íslandi og hafa þær gengið misvel. Í dag fer framleiðsla á matvörum úr sauðamjólk fram á Egilsstöðum í Fljótsdal en þar mjólkar Ann-Marie Schlutz sauðfé á sérstökum mjaltabás. Fyrirtæki hennar, Sauðagull ehf., stefnir að því að endurvekja íslenska sauðamjólkurhefðir og framleiða nútímalegar matvörur úr mjólkinni, til dæmis osta og súkkulaði. Það má því segja að mikill kraftur sé í nýsköpun með sauðamjólk í dag og leynast næg tækifæri fyrir þessa vannýttu auðlind í framtíðinni. 
 
Rússnesk rolla
  • 30 ml vodka
  • 30 ml kaffilíkjör
  • 30 ml sauðamjólk
Öll hráefni hrist saman án klaka og svo með klaka. 
 
Kokteillinn sigtaður í kælt glas með klaka.