Kortlagning hafsbotnsins við Ísland
Í sumar kortlögðu leiðangursmenn á RS Árna Friðrikssyni um 46.600 ferkílómetra hafsvæði við Ísland í tveimur leiðöngrum í júní og ágúst.
Í mælingum í júníleiðangrinum var lokið við að kortleggja hafsvæðið sem tengir Íslandsdjúp við suðurbrún landgrunnsins, austan við Kötluhryggi. Á heimasíðu Hafró segir mikið af góðum upplýsingum um farvegi sem teygja sig frá landgrunnsbrún suður eftir öllu djúpinu í gegnum mikla bunka af setlögum.
Árið 2019 sást hvernig þessir farvegir og fleiri sameinast í meginfarveg Norður-Atlantshafsins, Maury farveginum. Enn fleiri sæfjöll og eldstöðvar komu fram í rótum Íslands-Færeyjahryggsins, auk skriðusára og setstalla víðs vegar um mælingasvæðið.
Í júlíleiðangrinum á þessu ári tókst að bæta við 497 ferkílómetrum á landgrunninu, þar af voru 337 ferkílómetrum af samfelldum mælingum á Selvogsbanka.
Fjölgeislamælingar
Í ágústleiðangrinum voru gerðar fjölgeislamælingar á dýpsta svæðinu í Vesturdjúpi, og tengjast þar eldri fjölgeislamælingum í Grænlandssundi og svæðunum þar í kring. Í þeim mælingum komu í ljós stórir hryggir og sæfjöll sundurskorin af djúpum farvegum. Einnig komu fram keilulaga sæfjöll í Vesturdjúpi, svipuð þeim sem hafa sést í eldri mælingum Hafrannsóknastofnunar.
34,2% af efnahagslögsögunni kortlögð
Afrakstur síðastliðinna ára hefur skilað um 165.000 ferkílómetrum af samfelldum mælingum og kortlagningu, mest á hafsvæðum dýpri en 2.000 metrar. Með mælingunum í sumar hefur um 34,2% af efnahagslögsögunni verið mæld.
Mjög góð veðurskilyrði til fjölgeislamælinga voru lengst af í báðum leiðöngrum, þó suma daga hafi mælingar þurft að líða fyrir þó nokkurn ölduslátt. Leiðangursstjóri var Guðrún Helgadóttir og skipstjóri var Heimir Örn Hafsteinsson.