Markmiðið er að fólk kynnist ullinni
Ullarvika á Suðurlandi er viðburður sem verður nú haldinn í fyrsta sinn á Íslandi dagana 3. til 9. október næstkomandi.
Megintilefnið er 30 ára afmæli Þingborgarhópsins svonefnda og þeirrar starfsemi sem hann stendur fyrir, það er að segja verslun og ullarvinnsla.
„Markmiðið með vikunni er að fólk kynnist ullinni og möguleikum hennar og því sem er að gerast hér á Suðurlandi í vinnslu á ull, en hér eru rekin mörg mjög athyglisverð fyrirtæki sem vinna með ull,“ segir Margrét Jónsdóttir, bóndi á Syðra-Velli í Flóahreppi og ein af talsmönnum Ullarvikunnar og Þingborgarhópsins. Auk Þingborgar standa Spunasystur í Rangárþingi, Uppspuni - smáspunaverksmiðja og áhugahópur um feldfé að Ullarvikunni.
Allar upplýsingar um Ullarvikuna eru á www.ullarvikan.is og svo á facebook.com/ullarvikan.
Þingborgarkonur í New York 2019 þar sem hópurinn átti góða daga saman.
Námskeið og markaðsdagur
„Við höfum í sameiningu unnið að dagskrá Ullarvikunnar og uppistaðan í vikunni eru námskeið af ýmsu tagi og opnar vinnustofur.Lokapunkturinn verður svo markaðsdagur síðasta daginn. Þann dag verður líka haldið „Ull í fat“, þar sem spunahópum verður boðið að taka þátt í skemmtilegri keppni.
Tilgangurinn er að vekja athygli á íslensku ullinni, gæðum hennar, notagildi og ekki síst að vekja athygli á ullinni sem umhverfisvænu hráefni, sem nýtur stöðugt meiri virðingar
og fólk er stöðugt að átta sig betur og betur á mikilvægi þess að meðhöndla hana af vandvirkni og virðingu sem skilar sér í meiri verðmætum,“
segir Margrét.
Íslenska ullin öll unnin innanlands
Margrét segir að íslenska ullin hafi lítið kolefnisfótspor vegna flutninga.
„Já, svo sannarlega, hún er þvegin hér á landi og að fullu unnin hér, það eru ekki öll lönd sem búa svo vel að hafa ullarþvottastöð, t.d. er megnið af norrænni ull þvegin á Bretlandseyjum.
Íslenska ullin er vel fallin til handverks, frábær í prjón og hekl og þæfist einnig mjög vel. Góðar ullarflíkur þarf sjaldan að þvo, þær halda vel lögun sinni og slitna yfirleitt fallega.“
Katrín að kynna litaðan lopann sinn á Uppsprettunni í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Margrét Jónsdóttir
með kynningu á Þingborg og Ullarhringnum en hún er ein af talskonum Ullarvikunnar í næsta mánuði á Suðurlandi.
Hlý og endingargóð
Eins og flestir ef ekki allir vita þá er ull eitthvert besta hráefni sem til er í skjólfatnað, hún er hlý og endingargóð og þar sem efnasamsetning ullar er til helminga bundið kolefni, er hún fullkomlega lífbrjótanleg og því hægt að skila henni aftur til jarðarinnar. „Þelhárin í íslensku ullinni eru nokkuð frábrugðin sömu hárum á erlendu fé, en þau eru óreglulega liðuð sem gefur íslensku ullinni sérstöðu. Íslensku ullarhárin falla ekki þétt hvert að öðru, þannig að þráður eða band sem er úr íslenskri ull verður fyrirferðarmeiri og léttari en þráður úr jafnmörgum hárum úr t.d. merinó-ull,“ segir Margrét aðspurð um gæði ullarinnar.
Það kemur einnig fram hjá henni að nú sé mikil eftirspurn eftir íslenskum lopa og bandi og því trúi hún að með aukinni umhverfisvitund verði hrein ull sjálfsagður valkostur í fatnað, húsbúnað, byggingar og fleira.
Tvær hressar, Guðný Söring Sigurðardóttir (t.v.) og Hjördís Þorfinnsdóttir, í peysustússi í Þingborg. Maja Siska
er mikill spunameistari.
Kynntust fyrst 1990
Margrét er næst spurð út í Þingborgarhópinn, hvers konar hópur það sé? „Þingborgarhópurinn er alveg einstakur. Við kynntumst fyrst á þeim ullarnámskeiðum sem haldin voru í Gömlu Þingborg, það fyrsta haustið 1990.
Það hefur auðvitað kvarnast úr hópnum eins og gengur, en það hafa líka nýjar konur komið inn í hópinn. Eftir allan þennan tíma þekkjum við hver aðra mjög vel og hópurinn er því mjög þéttur. Við hrósum hver annarri þegar tilefni er og hvetjum áfram til góðra verka og ekki síst er hópurinn einkar traustur þegar eitthvað bjátar á í okkar lífi, þá er stuðningurinn vís,“ segir Margrét.
Einbandspeysur í Þingborg, sem hægt er að kaupa í versluninni.
Covid frestaði um ár
Talandi um Þingborgarhópinn þá segir Margrét að hópurinn hittist alltaf á fimmtudögum og hlátrasköllin heyrast út á hlað, svo mikið fjör og gleði fylgi hópnum.
„Já, fimmtudagar eru notaðir þegar við sýnum eitthvað nýtt sem við erum að gera eða setjum fram hugmyndir, þá er vöngum velt og gagnrýnt ef við á og ekki síst hvatt áfram með verkefni sem sýnast vera til þess fallin að virka.
Það er aldrei leiðinlegt eða lognmolla þar sem Þingborgarkonur koma saman. Ullarvikan átti að fara fram haustið 2020 en vegna Covid-pestarinnar varð að fresta henni um eitt ár. Það hefur aðeins fækkað þeim viðburðum sem áttu að vera, t.d. verður ekki litasýning sauðfjár og ekki heldur sauðfjárdómar.
En þó hún verði lágstemmdari en til stóð, verður hún vonandi skemmtileg og fræðandi,“ segir Margrét. Myndirnar, sem fylgja hér með eru úr söfnum Þingborgarkvenna.