Myndir ekki í samræmi við eftirlitsheimsóknir
Síðastliðinn fimmtudag greindi Dýraverndarsamband Íslands frá því á vef sínum að því hefði borist ábending um búfénað á bæ í Skagafirði sem væri í alvarlegum vanhöldum.
Matvælastofnun greindi í kjölfarið frá þremur eftirlitsheimsóknum á bæinn, í nóvember, desember og í lok janúar, sem hún hafi farið í eftir ábendingar.
Þar kemur fram að í heimsókninni í nóvember, sem var óboðuð, hafi frávik um hreinleika nokkurra gripa verið skráð – og athugasemd gerð við herðakambslá – en engin önnur frávik í hinum eftirlitsheimsóknunum.
Í umfjöllun DÍS um málið kom fram að sambandið hefði séð myndefni sem sýndi horaðan búfénað sem stæði skítugur í mykju upp að hnjám, ábendingin hafi átt við um ástandið á bænum um viku eftir að eftirlit Matvælastofnunar fór fram á bænum í nóvember.
Matvælastofnun segir að þær myndir sem hún hafi fengið af meintu ástandi, gefi ekki rétta mynd af holdafari nautgripanna eða aðstæðum á bænum á því tímabili sem eftirlitsheimsóknirnar ná til. Þær séu því ekki í samræmi við aðstæður eins og þær birtust eftirlitsmönnum í þau þrjú skipti sem stofnuninni bárust ábendingar um umhirðu og aðbúnað nautgripa á bænum.
Skoðunaratriði hafi verið metin í samræmi við skoðunarhandbók sem gefin var út varðandi nautgripaeldi og áfram muni búfjárhald á bænum sæta reglubundnu eftirliti.
Fréttin hefur verið uppfærð.