Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Álfadís í fallegu sólarlagi.
Álfadís í fallegu sólarlagi.
Mynd / Heidi Benson
Fréttir 9. júní 2022

Óumdeild arfleið Álfadísar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Fáar, ef einhverjar, kynbótahryssur hafa haft jafn mikil áhrif á íslenska hrossarækt og Álfadís frá Selfossi.

Afkomendur hennar skipta þúsundum einstaklinga. Að sögn eiganda hennar og ræktanda framræktist aðalkaraktereinkenni Álfadísar, geðslagsprýðin, ansi vel í þeim stóra ættboga sem hún skilur eftir sig.

„Álfadís var einstakur karakter og það var okkur mikil gæfa og forréttindi að hafa hana í okkar umsjá í öll þessi ár. Einnig að hafa fengið að upplifa, sjá og skilja að slíkur persónuleiki og geðslag sé til og að hann ræktist fram svo ríkulega,“ segir Olil Amble, hrossaræktandi og eigandi Álfadísar frá Selfossi, sem bar þær fréttir í maíbyrjun að fella hefði þurft hryssuna, 26 vetra gamla.

Álfadís og Olil voru einstakar vinkonur enda hryssan mannelsk með eindæmum

Álfadís er fædd árið 1996 og var undan Adam frá Meðalfelli og Grýlu frá Stangarholti. Sem folald sýndi hún strax tilburði í folaldastóðinu. „Hún var einstaklega hreyfingafalleg og ég gerði mér grein fyrir að ég væri með óvenjulegt hestefni. Ég tók því ákvörðun um að temja hana á fjórða vetur, sem ég gerði alla jafna ekki í þá daga.“

Hryssan sýndi sterk karaktereinkenni strax á fyrstu dögum í húsinu. „Það tók hana svona þrjá daga að aðlagast manninum. Þá var hún komin fremst í stíuna, til að fylgjast með öllu, og það sem meira var – tilbúin til alls. Sá eiginleiki fylgdi henni alla tíð.“

Geðslagsprýði hryssunnar var í reynd eiginleiki sem Olil hafði ekki orðið vör við áður hjá íslenskum hesti.

„Ég hafði unnið í reiðskóla í Noregi og kynntist þar þónokkrum hestategundum. Ég man að hestar af breskum kynjum voru áberandi öðruvísi í geðslagi. Þeir voru ofboðslega vinnusamir og jákvæðir og tilbúnir að gera allt sem þú baðst þá um. Þeir höfðu þennan brennandi áhuga og vilja til að leggja sig fram. Þegar ég kynntist Álfadísi þá var það í fyrsta sinn sem ég kynntist sambærilegu geðslagi í íslenskum hesti.

Hún hafði þennan ofboðslega áhuga, án þess að vera frek, hún var alltaf tilbúin, setti höfuð í beisli þegar ég kom og vildi fyrir alla muni gera eitthvað.“

Olil segir Álfadísi erfa geðslagið ríkulega frá sér. „Hún hefur átt tuttugu afkvæmi og af þeim sautján sem eru tamin þá eru það nær undantekningalaust viljugir og geðgóðir einstaklingar. Eigendur hrossa af hennar kyni kappkosta að segja mér frá frábæru geðslagi,“ segir hún, en samkvæmt tölum WorldFengs er meðaleinkunn fyrir vilja og geðslag, hjá þeim afkomendum Álfadísar sem hafa hlotið fullnaðardóm, 8,39.

Hraðtamning þess tíma

Saga Álfadísar er nokkuð samofin eftirminnilegum heimsmeistaratitli sem Olil vann árið 1999, í fjórgangi. Í kjölfar mótsins var eftirspurn hesteigenda eftir kröftum Olilar svo gríðarleg að henni þótti nær nóg um.

„Allir vandræðaklárhestar landsins virtust vera í hesthúsinu mínu, því allir vildu að ég myndi þjálfa þá. Ég átti að vera svoddan snillingur við að þjálfa klárhesta því hesturinn sem ég vann á, Kjarkur frá Horni, hafði orð á sér að vera ruglaður. Ég átti einhvern veginn að hafa galdrað hann þarna upp í fyrsta sætið. Hann var auðvitað ekki ruglaður. Maður verður ekki heimsmeistari í fjórgangi á rugluðum hesti.“

Á sama móti keppti vinkona hennar, Christina Lund, fyrir heimalandið Noreg og ákváðu þær að eyða næsta vetri saman á Íslandi við þjálfun hrossa.

„Þegar kom að því að fara að þjálfa alla þessa klárhesta þá vildi enginn láta Christinu þjálfa sinn hest, því þau þekktu hana ekki. Alveg sama þótt ég segði þeim frá reynslu hennar og árangri. Ég átti að þjálfa þessi hross, ekki hún. Á endanum sagði ég við hana að ef hún væri ekki nógu góð fyrir þau þá væri hún nógu góð fyrir mig og þess vegna tamdi hún og þjálfaði mín hross þennan vetur. Það féll því í hennar hlut að sjá um tamningu á Álfadísi.“

Merin var tekin á hús í janúar árið 2000 og vinkonurnar járnuðu hana saman nær samdægurs. „Þetta er eins og lygasaga, en samt satt. Eftir járninguna fer ég utan til að kenna á námskeiði. Þegar ég kem fjórum dögum síðar þá er Christina farin að ríða á henni. Þá var merin strax að vinna ótrúlega rétt, hringuð og brokkaði ofsalega fallega. Okkur fannst hún náttúrlega algjörlega æðisleg – þetta var svona hraðtamning þess tíma,“ segir Olil og hlær.

Þegar líða tók á veturinn bar ráðunaut að garði. Hafði eigandi stóðhests, sem var í þjálfun hjá Olil, beðið hann að líta við og meta byggingu hans. „Þegar ráðunauturinn kom notuðum við tækifærið og sýndum honum Álfadísi, sem við vorum svo stoltar af. Nema hvað, að ráðunautnum leist ekkert á hana, sagði að hún væri óþroskuð og það þýddi lítið að sýna hana á þessu ári. Við urðum svo rosalega móðgaðar,“ segir Olil og skellir upp úr.

Þessi netta aðfinnsla varð þó til þess að opna augu vinkvennanna og tóku þær til sinna ráða við að fóðra hryssuna svo hún næði fram betri þroska. „Álfadís fékk að valsa um hesthúsið, fara í fóðurbætinn í hey og út í gras að vild. Hún skammtaði sér bara sjálf og við það náði hún fram góðum þroska.“

Var því tekin ákvörðun um að sýna hana fyrir dómi um vorið, þá fjögurra vetra gamla.

Síðasta sýning, síðasta holl, síðasta hross

Nema hvað, stuttu fyrir sýningartímabil heltist hryssan. „Ég kenni mér um það. Ég járnaði öll hrossin sjálf á þessum tíma og hef eflaust rétt hana aðeins of mikið og aðeins of hratt eða eitthvað slíkt. Hún verður í það minnsta hölt og við þurftum því að draga úr þjálfun. Sem gerir það að verkum að við biðum með að sýna hana þar til á síðustu kynbótasýningu fyrir Landsmót. Þar kom hún fram á síðasta sýningardegi, í síðasta holli og var síðasta hrossið.“

Þegar Álfadís og Christina komu svo fram í braut var varla sála á staðnum; eingöngu dómararnir, Olil og einn maður sem horfði á fótboltaleik inni í félagsheimilinu. Stundin sem Álfadís tölti í braut er Olil enn í fersku minni.

„Í mínum huga var hún flottari en hún var svo síðar á Landsmótinu. Hún hafði verið nánast óþjálfuð í mánuð en þessar hreyfingar og sýningargleði var í minningunni eitthvað yfirnáttúrulegt. Ég man að maðurinn fældist út úr félagsheimilinu og hljóp til mín og spurði mig um hana. Það væri gaman að vita hver þetta var og hvort hann muni eftir þessu,“ segir Olil.

Niðurstaða dómsins var 8,02 í aðaleinkunn, fyrstu verðlaun, sem var ofar væntingum vinkvennanna. Þær svifu um á hamingjuskýi, enda fyrstu verðlaun fáheyrð á fjögurra vetra tryppi. Þar sem árangurinn dugði til þátttöku á Landsmótinu tveimur vikum síðar ákváðu vinkonurnar að hlífa Álfadísi við að fara á yfirlitssýninguna og kom hún því ekkert fram aftur fyrr en á Landsmótinu.

Sýning Álfadísar á Landsmótinu árið 2000 er mörgum enn í fersku minni. Christina Lund tamdi Álfadísi og sýndi hana. Mynd / Eiríkur Jónsson

Ógleymanleg á Landsmóti

Landsmótið í Reykjavík árið 2000 er eftirminnilegt fyrir margra hluta sakir. Fáir gleyma afkvæmasýningum heiðursverðlaunastóðhestanna. Sleipnisbikarhafinn Orri frá Þúfu kom þar fram knapalaus með glæstan niðjahóp, þar á meðal soninn Markús frá Langholtsparti sem vann B-flokkinn og ófáir hváðu við skeiðsprettum afkvæma Kolfinns frá Kjarnholtum. Ormur frá Dallandi og Atli Guðmundsson sigruðu A-flokk gæðinga með miklum brag. Einkunnarmet voru slegin í mörgum flokkum á kynbótasýningum, meðal annars var Gleði frá Prestsbakka hæst dæmda hrossið og Holtsmúlabúið átti efstu kynbótahrossin í báðum flokkum fjögurra vetra hrossa.

Og svo var það ungstirnið Álfadís. Sýning hennar á mótinu er mörgum ógleymanleg.

Þar hækkaði hún einkunnir sínar í vel flestum liðum í fordómi og það sem meira er, hún sýndi skeið.

„Það var okkur deginum ljósara frá upphafi að hún var með galopið skeið, þó svo að um hana var talað sem létta klárhryssu. Það var auðvitað ekki búið að reyna á það þar sem síðasti mánuðurinn fyrir sýningu var eyddur á feti. Á mótinu sjálfu sagði Christina hins vegar við mig að hún hefði prófað að leggja hana og að hún teldi sig geta sýnt það á yfirlitssýningunni. Hún bar það undir mig og mér fannst sjálfsagt að láta reyna á það. Svo sýndi hún bara þennan laglega sprett og var síður en svo ofgefið fyrir hann,“ segir Olil en Álfadís varð næsthæst dæmda hryssa í flokknum.

Fyrir skeiðið hlaut hún 7,0 og hæfileikadómur Álfadísar varð 8,66. Það reyndist vera hæsti dómur fyrir kosti sem fjögurra vetra hryssa hafði nokkuð tímann fengið og þetta dómamet hélt hún í þónokkur ár.

Sjö af tuttugu afkvæmum Álfadísar frá Selfossi eru nú á húsi á Syðri-Gegnishólum í tamningu eða þjálfun. Frá vinstri: Brynja Amble Gísladóttir heldur í Arðsson. Þá kemur Svartálfur sem Anna Christmanson stendur með, Álfaborg og Olil, Álfatrú og Johanna Kunz, Ljósálfur og Elin Holst, Álfgrímur og Indira Scherrer og að lokum Álfaklettur sem Bergur stendur með. Ljósmynd af móður þeirra hangir fyrir aftan hópinn en með henni hleypur Álfhildur sem folald. Mynd / ghp

Margföldunaráhrifin

Eftir Landsmót var Álfadísi haldið við Keili frá Miðsitju og varð þá til Álfasteinn frá Selfossi. Næst kom Álfur, undan Orra frá Þúfu. Báðir þessir stóðhestar hafa náð heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi. Álfur hlaut Sleipnisbikarinn næst þegar Landmót var haldið í Reykjavík, tólf árum eftir sýningu Álfadísar, árið 2012 og þá aðeins tíu vetra gamall.

„Álffinnur sonur hennar var fyrstur stóðhesta til að ná lágmörkum til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi aðeins 8 vetra gamall. Álfhildur dóttir hennar varð efst í flokki 6 vetra hryssna á Landsmóti 2014 með 8,52 í aðaleinkunn, þar af 10 fyrir tölt og vilja. Álfaklettur sonur hennar er meðal hæst dæmdu hestum sögunnar, hann fékk 8,94 í aðaleinkunn, aðeins einni kommu frá heimsmeti,“ segir Olil.

Álfadís hefur átt 20 afkvæmi, 19 komust á legg og hafa 14 þeirra hlotið kynbótadóm. Þrettán þeirra hafa fengið fyrstu verðlaun. Þrjú afkvæmi eru enn ósýnd, 4 vetra hryssa og veturgamall hestur undan Stála frá Kjarri og 3 vetra foli undan Arði frá Brautarholti.

Undan afkvæmum Álfadísar hafa svo komið fram hundruð gæðinga og reiknast Olil til að um 25% þeirra kynbótahrossa sem fram hafa komið á síðustu tveimur Landsmótum séu út af þessari miklu stólpahryssu. Alls eru afkomendur Álfadísar nú 18.630 talsins samkvæmt tölum Worldfengs.

Hún segir Álfadísi sína stærstu gæfu sem hrossaræktanda. „Þótt þú eigir góða hryssu með háan dóm þá er ekki þar með sagt að hún sé gott ræktunarhross. Hvað þá að hún gefi nánast hvert einasta afkvæmi framúrskarandi.“

Heima í húsi á Syðri-Gegnishólum, þar sem Olil býr ásamt manni sínum, Bergi Jónssyni, eru sjö afkvæmi Álfadísar nú í tamningu og þjálfun. Munu nokkur þeirra koma fram í kynbótasýningum og keppnum í ár og jafnvel slá í gegn á Landsmóti eins og móðir þeirra forðum.

Á góðri stund með sitt síðasta folald, Álfahamar. Mynd / Heidi Benson

Skylt efni: Hrossarækt

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...