Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Símar hlaðnir með kjaftagangi
Fréttir 12. nóvember 2018

Símar hlaðnir með kjaftagangi

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Vísindamenn í Bretlandi eru sagðir hafa komist að því að mögulegt er að hlaða snjallsíma með því að nota umhverfishljóð. 
 
Smíðaður var snjallsími sem byggði á tækni sem nefnd er piezoelectric effect. Var þá búinn til örhleðslubúnaður [Nanogenerator] sem tók upp umhverfishljóð og breytti því í rafstraum. Var þessi búnaður sagður það næmur að hann gat framkallað rafmagn af hljóði sem varð til við samtal fólks. Samkvæmt því ætti fólk að geta hlaðið slíkan síma meðan talað er í hann.
 
Þetta hljómar vissulega undarlega, en langt er síðan menn uppgötvuðu að það væri hægt að hlusta á sólina. Var hljóð sólarinnar meira að segja sent út í eyru íslenskra sjónvarpsáhorfenda nýverið. 
 
Miðað við rannsóknir bresku vísindamannanna, þá gæti ómæld verðmæti falist í kjafta­glöðum einstaklingum. Væntanlega liggur þá beinast við að virkja talglaða alþingismenn til raforku­framleiðslu.