Starfshópur um hreindýraeldi skilar tillögum
Starfshópur um hreindýraeldi hefur afhent Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslu og niðurstöður sínar um hugmyndir um hreindýraeldi og hreindýraræktun sem nýja búgrein á Íslandi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshópurinn í febrúar 2014 og var honum falið að draga fram þau atriði sem gætu skipt máli fyrir villt hreindýr hér á landi, verndun þeirra og veiðar, búfjársjúkdóma og landbúnað og landnýtingu.
Á heimasíðu Umhverfisráðuneytisins segir að starfshópurinn mælir ekki með því að tekið verði upp hreindýraeldi eða stórfelldur hreindýrabúskapur hér á landi ef á sama tíma eigi að standa vörð um villtan stofn hreindýra í landinu.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að veruleg hætta sé á aukinni tíðni og útbreiðslu sjúkdóma einkum í tengslum við hættuna á samgangi eldisdýra við villt dýr og annan bústofn. Bent er á að hreindýraeldi sé þess eðlis að því fylgi óhjákvæmilega umtalsverð breyting á landnýtingu og það takmarki aðra landnýtingu og aðgengi almennings að landinu vegna nauðsynlegra girðinga. Þá þurfi slíkar girðingar að vera verulega háar og ná yfir stór svæði eigi þær að þjóna tilgangi sínum.
Hópurinn telur að ef vegnir eru saman þeir kostir sem felast annars vegar í að viðhalda villtum hreindýrastofni og nýtingu hans með þeim hætti sem gert er í dag og hins vegar að heimila hreindýraeldi með óvissu um áhrif þess á náttúru landsins, þ.m.t. á hreindýrastofninn sjálfan og aðra þætti lífríkisins, sé farsælast að viðhalda núverandi sjálfbærri nýtingu og verndun villtra hreindýra á Íslandi.