Styrkhæft ræktarland stækkar
Rétt fyrir áramót birti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið niðurstöður varðandi jarðræktarstyrki og landgreiðslur fyrir síðasta ár. Landgreiðslur voru greiddar vegna 78.628 hektara, en voru 76.890 hektarar árið 2019. Jarðræktarstyrkir voru greiddir fyrir 12.325 hektara, en árið 2019 var greitt fyrir 11.413 hektara.
Alls bárust 1.549 umsóknir um jarðræktarstyrki og landgreiðslur á síðasta ári. Til úthlutunar vegna landgreiðslna að þessu sinni voru tæpar 380 milljónir króna og er greitt einingaverð landgreiðslna 4.831 kr. á hektara.
Til úthlutunar vegna jarðræktastyrkja voru rúmar 382 milljónir króna og er greitt einingaverð jarðræktarstyrks 32.096 krónur á hektara.
Landgreiðslur deilast jafnt
Framlög vegna landgreiðslna taka mið af heildarfjölda hektara sem sótt er um og deilast jafnt út á þá ha sem sótt er um stuðning fyrir.
Fullur jarðræktarstyrkur er veittur fyrir ræktun upp að 30 ha en hlutfallast eftir það samkvæmt settum reglum.
Útreikningur um landstærðir og ræktun byggjast á upplýsingum úr jarðræktarskýrsluhaldi í forritinu Jörð.is.
Úttektarmenn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sjá um úttektir í samræmi við reglugerð um almennan stuðning í landbúnaði nr. 1260/2018.
Styrkhæft land útiræktaðs grænmetis sömu stærðar og árið 2019
Frá 2017 hafa verið greiddir sérstakir jarðræktarstyrkir fyrir útiræktað grænmeti. Alls bárust 47 umsóknir um jarðræktarstyrki í garðyrkju á síðasta ári. Styrkir voru veittir vegna 516 hektara, þar af var ræktun rótarafurða á 473 hekturum og afurðir ofanjarðar á 43 hekturum.
Til úthlutunar voru 70 milljónir króna og er einingaverð jarðræktarstyrks 113.240 krónur á hektara. Rótargrænmeti fær einfalt einingaverð (stuðull 1) fyrir hvern ræktaðan hektara en grænmeti ræktað ofanjarðar fær fjórfalt einingaverð (stuðull 4).
Árið 2019 voru veittir styrkir vegna 517 hektara útiræktaðs grænmetis.