Styrkur til hafrarannsókna
Hafrarannsóknaverkefni sem Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) tekur þátt í hefur hlotið milljón evra styrk úr NPA sjóðnum.
Náttúruauðlindastofnun Finnlands (LUKE) fer fyrir verkefninu. Verkefnið heitir Oat Frontiers og snýr að rannsóknum á hafrarækt á norrænum jaðarsvæðum.
Markmiðið er að auka ræktun hafra á norðlægum slóðum með aðferðum plöntukynbóta. Að auki við LUKE og LbhÍ taka þátt háskólar, stofnanir og fyrirtæki í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Írlandi sem starfa á sviði plöntukynbóta og landbúnaðarrannsókna. Ákveðið var að einblína á hafra þar sem neysla á þeim hefur aukist og plantan er harðgerð. NPA (Northern Periphery and Arctic Programme) er samvinnuverkefni sjö landa innan Evrópusambandsins, eða á áhrifasvæði þess, sem liggja nálægt heimskautsbaug. Sjóðurinn styrkir verkefni á jaðarsvæðum og er fjármagnaður að hluta til af Evrópusambandinu.