Á flestum stöðum á landinu hafa bændur lent í vandræðum vegna rysjóttrar tíðar. Þrátt fyrir áskoranir hefur uppskera gróffóðurs víða verið góð.
Á flestum stöðum á landinu hafa bændur lent í vandræðum vegna rysjóttrar tíðar. Þrátt fyrir áskoranir hefur uppskera gróffóðurs víða verið góð.
Mynd / Úr safni Bændablaðsins
Fréttir 30. september 2024

Sumarið sem aldrei kom

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændur á stórum hluta landsins segja heyannir í sumar hafa verið með þeim erfiðustu í mörg ár en yfirleitt rættist úr uppskeru. Bændablaðið tók púlsinn hringinn í kringum landið.

Egill Gunnarsson, bústjóri á Hvanneyri, segir síðustu mánuði hafa verið óvenju blauta, en honum hafi tekist að ná góðum heyjum fyrir veturinn. Fyrri slátturinn kláraðist í byrjun júlí, en eftir það hafi tíðin verið erfið og túnin sprottið það hægt að seinni slátturinn hafi verið í lok ágúst. Grænfóðrið var lengi að taka við sér en það tognaði úr því fyrir rest.

Þetta sé í fyrsta skipti í búskapartíð Egils þar sem ekki gefst færi á þriðja slætti, en hann tók við starfi bústjóra árið 2015. Þá voru engjarnar neðan við Hvanneyri ekki slegnar þar sem jarðvegurinn þornaði aldrei nógu mikið til að þola umferð tækja.

Eins og sumrin ́79 og ́83

Jóhannes Eyberg Ragnarsson, bóndi á Hraunhálsi í Helgafellssveit, segir vætutíð og kulda hafa spillt fyrir heyskap. Í byrjun júlí hafi komið nokkrir þurrir dagar, en þá hafi grasið verið lítið sprottið. Eftir það hafi ekki verið nema tólf tíma samfelldur þurrkur þangað til að stytti upp eftir verslunarmannahelgi, en þá hafi grasið verið farið að skríða. Síðasta vikan í ágúst var nokkuð hagstæð og var hægt að ná miklu heyi, þó gæðin hafi ekki verið mikil. Jóhannes vill líkja tíðarfarinu við sumrin 1979 og 1983.

Jóhanna R. Kristjánsdóttir, bóndi í Svansvík í Ísafjarðardjúpi, segir að það hafi aldrei komið vor og ekkert sumar, en nú sé komið haust. Hún er þakklát fyrir rúllutæknina, sem gefur færi á að pakka heyinu án þess að ná fullum þurrki, og fullyrðir að ekki væri komin tugga í hús ef það þyrfti að setja heyið þurrt í hlöðu.

Slátturinn hófst 20. júlí og kláraðist 20. ágúst, en yfirleitt taki hann ekki nema tvær vikur. Túnin voru slegin einu sinni, en Jóhanna segir það heyra til undantekninga ef það er slegin há. Þrátt fyrir vætutíð séu heyin góð, en Jóhanna sendi sýni í heyefnagreiningu sem hafi gefið góðar niðurstöður. Heyforðinn sé jafnframt nægur til að duga allan veturinn.

Vantar enn þá hey

Guðrún Marinósdóttir, bóndi á Búrfelli í Svarfaðardal, segir að þá vanti enn þá hey. Nærri sjötíu prósent af túnunum sem þau slá hafi kalið og endurræktuðu þau tæpa 40 hektara sem spruttu því miður illa út af bleytu. Fyrsti sláttur byrjaði í kringum 15. júlí sem sé mjög seint og sláttur á grænfóðri og há hafi klárast í fyrstu vikunni í september.

Á Búrfelli eru bæði kindur og kýr sem þurfi samtals 1.400 rúllur í vetur. Uppskera sumarsins var í kringum 800 rúllur og hafa þegar verið keyptar um 400. Guðrún er bjartsýn á að það takist að skaffa þær 200 rúllur sem upp á vantar. Þar sem mest allur heyforðinn er af gömlum túnum vanti þau nýræktarhey fyrir mjólkurkýrnar. Að öðru leyti sé uppskeran ásættanleg og allt hey í harðindum.

Alda Jónsdóttir, bóndi á Presthólum í Núpasveit, segir þetta sumarið sem aldrei kom, en tíðin var blaut og það kalt að snjór hafi sést í fjöllum í hverjum mánuði. Í byrjun júlí voru nokkrir góðir dagar þar sem mörgum tókst að heyja mikið. Eftir það hafi allir dagar verið blautir og ekki verið annað hægt en að pakka heyinu röku.

Ekki fullsprottið þegar tíðin gaf

Ásgeir Arngrímsson, bóndi á Brekkubæ á Borgarfirði eystra, segir að fyrst hafi komið vor, svo vetur í byrjun júní og aftur sumar eftir það. Fyrstu dagana í júlí hafi verið hlýtt og langur samfelldur þurrkur, en heyið ekki verið fullsprottið og héldu því margir að sér höndum. Hann byrjaði heyskap þá sem sé á svipuðum tíma og vanalega. Seinni slátturinn hafi hins vegar dregist um tvær vikur og kláraðist ekki fyrr en í lok ágúst, sem sé óhentugt upp á beit fyrir sauðféð á haustin. Ásgeir telur að heyforðinn dugi fyrir veturinn.

Hjá Björgvini Gunnarssyni, bónda á Núpi í Berufirði, var fyrri slátturinn tekinn í kringum 20. júní og seinni umferðin í kringum 20. ágúst. Sumarið hafi í sjálfu sér verið hundleiðinlegt, en honum gekk vel að heyja og þakkar hann afkastamiklum tækjum. Hann hefur ekki enn þá fengið úr heysýnum en sá hluti uppskerunnar sem hann hefur séð lítur vel út.

Aðalbjörg Bjarnadóttir, bóndi á Kálfafelli í Suðursveit, segir að sumarið hafi verið kalt og þurrt og því hafi túnin sprottið hægt. Heyskapur hófst í byrjun júlí, en yfirleitt sé farið af stað í kringum 17. júní. Þau slá einu sinni og kláruðu síðasta túnið um miðjan ágúst. Það sé tveimur vikum síðar en vanalega, en hún tekur fram að tíðarfarinu sé ekki alfarið um að kenna, heldur hafi vinnan tafist að hluta vegna barneigna. Aðalbjörg telur að uppskeran dugi fyrir veturinn, þó hún sé ekki bjartsýn á að gæðin séu nema rétt í meðallagi.

Örn Karlsson, bóndi á Sandhóli í Meðallandi, segir sumarið hafa einkennst af miklum rigningum. Heyskapur hafi gengið vel í hans tilfelli, en hjá sumum hafi hluti uppskerunnar hrakist. Fyrri sláttur hófst í byrjun júní og var seinni slætti lokið í júlí. Tímasetningar og uppskerumagn voru eins og í meðalári, en Örn á enn eftir að senda sýni í heyefnagreiningu til að leggja mat á gæðin.

Allir góðu dagarnir í heyskap

Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir, bóndi á Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum, segir að tíðin hafi verið rysjótt. Heyskapurinn hafi samt sem áður gengið vel af því að þau slá alltaf þrisvar og eru því ekki eins bundin af því að ná mestu uppskerunni í hvert skipti. Það hafi ekki gefist færi á að liggja í sólbaði í sumar þar sem allir góðu dagarnir fóru í heyskap, segir Aðalbjörg glettin. Fyrsti sláttur hófst 9. júní, annar sláttur 7. júlí og kláraðist sá þriðji þann 25. júlí og er hún ánægð með gæði uppskerunnar. Það sem var óvenjulegt í í sumar var hversu seint þau hófu fyrsta sláttinn.

Axel Páll Einarsson, bóndi á Syðri-Gróf í Flóa, segist hafa verið harður á því að nýta alla þurrkdaga til heyskapar í júní. Heyskapurinn kláraðist því í þeim mánuði, sem er fyrr en vanalega, og sluppu þau við rigningarnar í júlí.

Seinni slátturinn var tekinn í byrjun ágúst og gáfu túnin misvel eftir aldri. Nýja heyið hefur gefið góða raun í fjósinu og er uppskerumagnið meira en í fyrra.

Skylt efni: heyskapur

Fækkun framleiðenda
Fréttir 1. október 2024

Fækkun framleiðenda

Mjólkurframleiðendum hefur fækkað um 66 á fimm árum. Greiðslumarkseign hefur min...

Mannmergð truflar réttarstörf
Fréttir 30. september 2024

Mannmergð truflar réttarstörf

Talsverð umræða hefur verið á Facebook-síðunni Sauðfjárbændur um óreiðukennt ást...

Sumarið sem aldrei kom
Fréttir 30. september 2024

Sumarið sem aldrei kom

Bændur á stórum hluta landsins segja heyannir í sumar hafa verið með þeim erfiðu...

Dýravelferðarmál á borði matvælaráðherra
Fréttir 30. september 2024

Dýravelferðarmál á borði matvælaráðherra

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 155. löggjafarþing 2024– 2025 var lögð fra...

Mest af kvótanum veiddist en dýrin leita norðar
Fréttir 30. september 2024

Mest af kvótanum veiddist en dýrin leita norðar

Hreindýraveiðum er lokið að sinni. Alls veiddust 769 dýr af þeim 776 sem mátti f...

Uppskerubrestur hjá hvítlauksbændum
Fréttir 27. september 2024

Uppskerubrestur hjá hvítlauksbændum

Uppskerubrestur blasir við hvítlauksbændunum í Neðri-Brekku í Dölunum.

Skírn í réttum
Fréttir 27. september 2024

Skírn í réttum

Skemmtilegur viðburður var í Reykjaréttum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi laugardag...

Hagur kúabúa vænkast
Fréttir 27. september 2024

Hagur kúabúa vænkast

Hagnaður kúabúa jókst milli áranna 2022–2023 og skuldahlutfall þeirra fer lækkan...