Tæplega 80 þúsund gistinætur og Íslendingar í miklum meirihluta
„Við trúum því að veðrið verði áfram með okkur í liði og að við eigum gott og ferðaríkt sumar í vændum,“ segir Ásgeir Hreiðarsson, framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Akureyri, og að bjartsýni ríki fyrir komandi sumar.
Tjaldsvæðið að Hömrum er opið allt árið og hefur aðsókn aldrei verið meiri en það sem af er ári, sem dæmi voru gistinætur í nýliðnum aprílmánuði tæplega 1.000.
„Í raun eru einungis örfáir dagar fyrstu fjóra mánuði ársins þar sem ekki voru einhverjir gestir á svæðinu,“ segir hann.
Ásgeir segir að liðið ár hafi slegið met hvað aðsókn varðar. Þrátt fyrir að samkomutakmarkanir hafi verið í gildi af og til á síðastliðnu ári var slegið aðsóknarmet á tjaldsvæðum á Akureyri. Gistinætur á báðum svæðum, þ.e. við Hamra og á svæðinu við Þórunnarstræti inni í bænum, urðu á árinu 2021 samtals 79.500. Það er mikil aukning frá árinu þar á undan, eða sem nemur um 63% á milli áranna 2020 til 2021.
Íslendingar voru bróðurpartur þeirra sem nutu lífsins á tjaldsvæðum Akureyrar, en í um 85% af heildarfjölda gistinátta liðins árs voru Íslendingar á ferðinni. Útlendingar voru 15% gestanna.
„Af þessum tæplega 80 þúsund gistinóttum í fyrra voru um 15 þúsund á tjaldvæðinu við Þórunnarstræti,“ segir Ásgeir.
Tvö ný svæði í notkun á Hömrum
Hann segir að nú á komandi sumri verði ekki opið við Þórunnarstrætið, forsvarsmenn Akureyrarbæjar ætli sér að taka það svæði undir aðra starfsemi.
„Í kjölfar þess að það tjaldsvæði dettur út hefur verið ráðist í að stækka svæðið á Hömrum til norðurs og við vonum að þau verði tilbúin til notkunar í sumar,“ segir Ásgeir.
Hann segir gleðilegt hversu mikil aðsókn hefur verið að tjaldsvæðinu að Hömrum það sem af er ári og nánast upp á hvern dag nú fyrri hluta ársins hafi dvalið þar gestir. Nefnir hann sem dæmi að í mars voru um 500 gistinætur skráðar á Hömrum og í apríl voru þær 967 talsins.
„Mest eru þetta erlendir ferðamenn á litlum húsbílum, þó einn og einn gestur komi með tjald, og Íslendingarnir eru aðeins farnir að viðra hjólhýsi sín,“ segir Ásgeir.