Eiturefni fundust í lífrænum eggjum
PFAS efni (e. per- and polyfluorinated alkyl substances) greindust í eggjum sem framleidd eru í Danmörku.
Orsökin er rakin til fiskimjöls sem innhélt áðurnefnt efni í of háu magni. Áhyggjur eru af neikvæðum áhrifum á heilsu einstaklinga sem neyta lífrænu eggjanna í miklu magni. Sama efni fannst í eggjum sem framleidd eru á hefðbundinn máta, en í minna magni. DTU Fødevareinstituttet greinir frá í fréttatilkynningu.
PFAS efni finnast meðal annars í viðloðunarfríum pottum og pönnum, ásamt vatnsfráhrindandi fatnaði. PFAS efni geta haft neikvæð áhrif á æxlun og eru talin vera krabbameinsvaldandi. Þessi efni eru kölluð þrávirk þar sem þau brotna ekki að fullu niður í náttúrunni og eru mörg ár að leysast upp í líkamanum eftir inntöku. Þetta er dæmi um efni sem berst upp fæðukeðjuna, en í þessu tilfelli var leiðin frá fiskum upp í hænsn og þaðan í fólk.
Umrætt efni fannst í eggjum frá lífrænum eggjaframleiðendum um alla Danmörku í rannsókn sem framkvæmd var af DTU Fødevareinstituttet í samstarfi við Fødevarestyrelsen. Magnið sem fannst er yfir mörkum sem Evrópusambandið setti á matvæli 1. janúar síðastliðinn. Líklegt er talið að sambærilegt hámark PFAS efna verði sett á dýrafóður til að koma í veg fyrir að atvik sem þessi endurtaki sig.
Áður en áðurnefnd mörk voru sett á matvæli er hugsanlegt að PFAS innihald hafi oft náð þeim mörkum sem mældust í lífrænu eggjunum núna. Þessi efni eru skaðvaldar hjá öllum aldurshópum, en sérstaklega er tekið fram að börn á aldrinum fjögurra til níu ára sem borða að meðaltali tvö og hálft egg á viku, innbyrði of mikið magn eiturefnanna, þegar styrkleiki efnisins er sá sem hann mældist núna.
Kit Granby, hjá DTU Fødevareinstituttet, segir fóðurframleiðendur í Danmörku leita leiða til að skipta út fiskimjöli fyrir aðrar fóðurtegundir. Með því ætti magn PFAS í eggjum frá hænum sem innbyrtu eiturefnin að minnka um helming á fjórum til sjö dögum. Granby er bjartsýn á að með því verði þetta tiltekna vandamál úr sögunni.