Gasklefar í svínasláturhúsum
Ný myndbönd úr breskum sláturhúsum sýna þjáningarfullan dauðdaga svína sem kæfð eru til dauða.
Áætlað er að 88 prósent breskra svína sé slátrað á þennan hátt. Guardian greinir frá, en myndirnar eru hluti af heimildamyndinni Pignorant, sem er í vinnslu.
Baráttufólk, sem kom földum myndavélum fyrir, segja myndböndin sýna hversu „gersamlega ómannúðleg“ notkun koltvísýrings er við slátrun. Á móti segja fulltrúar sláturhúsa að umrædd aðferð feli í sér þá mestu dýravelferð sem kostur er á.
Alvarlegt velferðarmál
Samkvæmt vísindalegu áliti Evrópsku matvælaöryggisstofnunarinnar frá 2020 segir: „Nálægð við koltvísýring í miklu magni er álitið af stofnuninni alvarlegt velferðarmál þar sem það er mjög ógeðfellt og veldur þjáningum, ótta og sársauka í öndunarvegi.“
Myndirnar sýna hvar svínin fara í litlum hópum í búr fyllt með koltvísýringi. Þar engjast þau um af sársauka og reyna að finna leið til að sleppa út. Þau eru nokkrar mínútur að kafna og sjást sprikla og taka mikil andköf. Síðastnefnda atriðið þykir benda til að sársaukinn sé mikill.
Þegar þau hafa misst meðvitund er þeim sturtað úr klefanum. Myndirnar sýna að sum svínin byrja að vakna úr meðvitundarleysi áður en þau eru endanlega drepin. Aðgerðarsinnarnir á bak við myndatökuna segja þetta sýna fram á að breskum sláturhúsum er meira umhugað um eigin hagnað en velferð dýranna.
Myndböndin voru tekin í sláturhúsi Pilgrim í Ashton-under-Lyne í norðvesturhluta Englands.
Pilgrim er í eigu brasilíska kjötframleiðslurisans JBS. Fulltrúar Pilgrim bera af sér allar sakir og segja ekkert geta tengt myndböndin við sín sláturhús.
Vantar fjárhagslegan hvata
Í áliti frá vísindalegri ráðgjafarnefnd bresku ríkisstjórnarinnar frá 2003 segir að notkun koltvísýrings við slátrun sé óviðunandi aðferð.
Þar var lagt til að aðferðin verði lögð niður á fimm árum.
Síðan þá hefur aðferðin breiðst út og hlóta 88 prósent breskra svína þessar meðferð.
Skoðað hefur verið að nota aðrar gastegundir, eins og argon eða helíum, sem eiga að leiða til kvalaminni dauðdaga. Notkun þeirra er hins vegar talsvert dýrari og þarf að ráðast í kostnaðarsamar breytingar á tækjabúnaði.
Sláturhúsum býðst enginn fjárhagslegur hvati til að breyta
sínum háttum.