Umhverfisbreytingar fjölga sjúkdómum
Minnkuð tegundafjölbreytni, hnattræn hlýnun, mengun og útbreiðsla ágengra tegunda hefur gert smitsjúkdóma hættulegri fyrir menn, dýr og plöntur.
Þessi áhrif hafa verið greind í rannsóknum sem hafa verið afmarkaðar við ákveðna sjúkdóma eða vistkerfi. Til að mynda hefur hlýnandi loftslag aukið útbreiðslu malaríu í Afríku og minnkuð tegundafjölbreytni í Norður-Ameríku hefur leitt af sér fjölgun tilfella af Lyme-sjúkdómnum.
Nú hefur verið framkvæmd safngreining sem birtist í vísindaritinu Nature þar sem teknar eru saman niðurstöður úr um það bil þúsund rannsóknum sem sýna að svipað mynstur eigi sér stað um allan heim. Frá þessu er greint í The New York Times.
Einsleitni eykur sótthættu
Hægt er að setja áhrifaþættina í fimm flokka: Breytt tegundafjölbreytni, loftslagsbreytingar, efnamengun, aðfluttar tegundir og breytingar eða tap á búsvæðum. Höfundar greinarinnar söfnuðu saman gögnum úr vísindagreinum sem skoðuðu hvernig að minnsta kosti einn þessara flokka höfðu áhrif á útbreiðslu og alvarleika sjúkdóma. Gagnasafnið innihélt rannsóknir sem skoðuðu smithættu hjá mönnum, dýrum og plöntum í öllum heimsálfum, að Suðurskautinu undanskildu.
Niðurstöðurnar sýndu að fjórir flokkar af fimm juku sótthættu og var minnkuð tegundafjölbreytni áhrifamesti þátturinn. Vísindamenn á sviðinu hafa staðhæft að það sé vegna þess að með fjölbreyttu tegundaúrvali náist útþynningaráhrif. Sníklar og sýklar þrífist best þegar nóg sé af hýslum og einblína þeir á þær lífverur sem eru algengar. Þegar tegundafjölbreytni dragist saman aukist hlutfall algengu lífveranna á kostnað þeirra sjaldgæfu sem hverfa. Eftir standi því einsleitt tegundaúrval sem henti vel til útbreiðslu sótta.
Fjölgun tilfella af Lyme-sjúkdómnum er oft nefnt í þesssu samhengi. Það má meðal annars rekja til þess að einn helsti geymsluhýsill sóttarinnar, hvítfótamús (l. Peromyscus leucopus), hefur fjölgað mikið á meðan öðrum spendýrum fækkar.
Sjúkdómar færri í borgum
Hinir þrír flokkarnir auki sjúkdómaálag, eins og ef aðfluttar tegundir bera með sér áður óþekkt smitefni og getur efnamengun veikt ónæmiskerfi tegunda. Vegna loftslagsbreytinga hafa búsvæði tegunda flust til sem geti orðið til þess að ýmsar tegundir komist í snertingu við hvor aðra sem aldrei höfðu verið í návígi.
Sérstaka athygli vakti að breytingar eða tap á búsvæðum virtist ekki leiða af sér aukið sjúkdómaálag, sem í fyrstu gæti litið út fyrir að stinga í stúf við rannsóknir sem hafa bent til að skógareiðing auki hættuna á malaríu og Ebólu. Það sé hins vegar hin mikla útbreiðsla þéttbýlis og borga sem og búsvæðabreytingin sem þeim fylgi sem leiði af sér minni útbreiðslu sótta.
Það geti verið vegna þess að hreinlæti í borgum sé almennt meira og þar sé aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það geti einnig skýrst af færri plöntum og dýrum sem geti flutt smitefni. Skert lífríki í borgum sé ekki endilega jákvætt og ekki hægt að ganga að því vísu að dýrin þar séu heilbrigðari. Í rannsókninni er því ekki haldið fram að skógareyðing sé af hinu góða. Það þurfi hins vegar að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað þar sem áhrifin geti verið mismunandi.