Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Anita Reimarsdóttir, Dagrún Þórisdóttir með Sigurjón, son Anitu, í fanginu, Helga Björg Reimarsdóttir og Reimar Sigurjónsson.
Anita Reimarsdóttir, Dagrún Þórisdóttir með Sigurjón, son Anitu, í fanginu, Helga Björg Reimarsdóttir og Reimar Sigurjónsson.
Mynd / GBJ
Fréttir 18. október 2017

„Við erum í frjálsu falli“

Höfundur: Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Reimar Sigurjónsson og Dagrún Þórisdóttir búa á bænum Felli í Finnafirði en Reimar hefur verið bóndi þar síðan 1992. Hann segir að útlitið hafi oft verið svart en aldrei þó eins og nú. Þau hjónin eru samhent og kraftmikil, byrjuðu með rekstur ferðaþjónustu fyrir tveimur árum, sem gæti nú orðið stærri þáttur í þeirra afkomu.
 
Þau eru búin að senda 370 lömb á sláturhús og meðalfallþunginn er 15,8, sem er aðeins slakara en meðalár. Í heildina eru þau að slátra um 600 lömbum en þau eru með um 420 kindur á vetrarfóðrum. Þau hjónin lóga á Vopnafirði og lækkun þar á meðaltalsverði var 33,5%.
 
Bændur í Langanesbyggð, Dagrún Þórisdóttir á Felli, Sigríður Ósk Indriðadóttir í Miðfjarðarnesi og Margrét Eyrún Níelsdóttir í Tunguseli.
 
Veruleg kjaraskerðing
 
Í fyrra var lækkun um 10% og ef dæmið er sett upp í krónur er milljónin árið 2015 orðin að 900 þúsund haustið 2016. Núna í haust er þessi upphæð orðin 598 þúsund og því ljóst að um verulega kjaraskerðingu er að ræða á stuttum tíma. 
 
Þau taka ekki mikið af kjöti heim þótt það gefi meira að selja beint. Dagrún segir að það sé drjúg vinna í kringum það að selja slíkt og akkúrat á þeim tíma þar sem nógu öðru er að sinna. Hún segir að það sé líka kannski óhagkvæmt núna þegar umræðan er þessi og fólk vill líklega fá kjötið á lægra verði, en þau segjast ekki hafa trú á að þessar lækkanir til bænda skili sér til neytenda í lægra verði.
 
Ekki ginnkeyptur til að fjölga
 
Í Bakkafirði eru bara tvö sauð­fjárbú eftir og þola heiðarlöndin meira af fé. Reimar segist þó ekki vera ginnkeyptur fyrir því að fjölga og framleiða eitthvað sem ekkert fáist fyrir. Það sé nóg að sitja uppi með stöðuna eins og hún er í dag. 
 
Hann segir að það sé ekki auðvelt þegar það sé búið að fjárfesta fyrir fleiri milljónir í hey að sjokkið komi allt of seint. Það hefði í raun þurft að koma fyrir 14 mánuðum, áður en áburður var keyptur fyrir þetta ár. Þau segjast ekki ætla að fjárfesta í áburði núna fyrr en staðan skýrist. Þó svo að áburður hafi verið boðinn á hagstæðara verði ef pantað er snemma þá er ekkert endilega til peningur fyrir áburði. 
 
Skoða stöðuna nánar á vordögum
 
Reimar segist ætla að gefa sín hey í vetur í þessar 400 kindur og sjá svo til á vordögum. Þau segjast vera ágætlega stödd með að vera búin að byggja upp ferðaþjónustu án þess að steypa sér í skuldir og geta snúið sér að öðru ef ekki verður framhald á sauðfjárbúskap. Það sé þó ekki það sama hjá mörgum yngri bændum og þau hafa áhyggjur af þeim sem eru búin að vera að fjárfesta, til dæmis ungum bændum sem eru nýbúnir að kaupa jörð og fjárfesta í tækjum.
 
Er verið að búa til kjötfjall?
 
Þau hjónin segjast hafa nógu að sinna í sveitinni þó alltaf sé möguleiki á að vinna með búinu þar sem næg vinna sé í nágrenninu. Reimar hefur verið eitthvað í meindýravörnum og tekið uppgrip í löndunum hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn. 
 
Ekki í kortunum að hætta
 
Sauðfjárbúskapur er þó það sem á hug þeirra og áður en þessar afurðalækkanir komu til var ekkert í kortunum að hætta. Þau segja þó ljóst að aðgerða sé þörf og það strax, ein leiðin sé að setja skýrari reglur um framleiðslu þeirra sem ekki eru með kvóta og í fullri vinnu með smá búskap.  Þannig að þeir sem séu að reyna að lifa af sauðfjárbúskap geti gert það. Umræðan um kjötfjallið var mikil í sumar en síðan reyndist fjallið ekki vera til. Reimar veltir upp þeirri spurningu hvort þessar lækkanir séu ekki bein leið til að búa til kjötfjall, þar sem margir hætti og þá komi mikið inn til slátrunar. Hann segir að upplausn í stjórnmálum bætist við í ofanálag og bændur séu bara í frjálsu fjalli. Í vetur ætli þau að láta þetta danka, þau lifi af einn vetur en kannski ekki annan. Það verði að koma til skýrar og árangursríkar aðgerðir ef halda á áfram með sauðfjárbúskap í Finnafirði. 

Skylt efni: sauðfjárbúskapur