Vill verða björgunarsveitarkona
Hafrún Katla er 7 ára stelpa í Neskaupstað sem æfir blak og skíði. Hún ætlar að verða björgunarsveitarkona þegar hún verður stór og vinna í Egilsbúð. Síðasta sumar safnaði hún sér fyrir trampólíni og hoppaði á því út í eitt.
Nafn: Hafrún Katla Aradóttir.
Aldur: 7 ára.
Stjörnumerki: Fiskur.
Búseta: Í Neskaupstað.
Skóli: Nesskóli.
Hvað finnst þér skemmtilegast í skólanum? Að leika með kaplakubba og pinnabretti.
Hvert er uppáhaldsdýrið þitt? Hundar.
Uppáhaldsmatur: Makkarónugrautur.
Uppáhaldshljómsveit: Mugison.
Uppáhaldskvikmynd: Fólkið í blokkinni.
Fyrsta minningin þín? Þegar ég var í útilegu með mömmu og pabba og vinum okkar ég sat í stólnum mínum og með annan stól undir fótunum og ég var að drekka svala og var með Hello Kitty derhúfuna mína. Ég var svona tveggja eða þriggja ára.
Æfir þú íþróttir eða spilarðu á hljóðfæri? Ég æfi blak með Þrótti Nes og skíði.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Björgunarsveitarkona og vinna í Egilsbúð.
Hvað er það klikkaðasta sem þú hefur gert? Að veiða risastóran fisk úti á firði á græna bátnum með pabba.
Hvað er það leiðinlegasta sem þú hefur gert? Bíða í bíl.
Gerðir þú eitthvað sérstakt í sumar? Ég safnaði pening og keypti trampólín og hoppaði mikið á því.