Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hlaðinu“ sem Samtök fyrirtækja í landbúnaði gefur út.
„Við höfum fundið fyrir miklu ákalli frá þeim sem starfa í landbúnaði og tengdum störfum eftir aukinni umfjöllun um landbúnaðarmál fyrir kosningarnar,“ segir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði og þáttastjórnandi.
Þættirnir eru fimm talsins en í hverjum þætti koma fram fulltrúar tveggja stjórnmálaflokka sem bjóða fram til alþingiskosninga 30. nóvember næstkomandi.
„Í þáttunum eru fulltrúar flokka spurðir um stefnu síns flokks, áherslur í tengslum við búvörusamninga, tollamál og fleira,“ segir Margrét. Fyrsti þátturinn fór í loftið á þriðjudag og verða þeir gefnir út jafnt og þétt í þessari viku og þeirri næstu.
„Það hefur verið ánægjulegt að setjast niður og ræða málin á meiri dýpt en hefur kannski verið það sem af er kosningabaráttunni. Með þáttunum viljum við varpa skýrara ljósi á afstöðu flokkanna til þeirra mála sem brenna á landbúnaðinum,“ segir Margrét.
Þættirnir „Á hlaðinu“ eru aðgengilegir á heimasíðunni safl.is og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.