Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Þórarinn Óli Rafnsson, sauðfjárbóndi á Staðarbakka, er varamaður í stjórn Kaupfélags Vestur-
Húnvetninga.
Þórarinn Óli Rafnsson, sauðfjárbóndi á Staðarbakka, er varamaður í stjórn Kaupfélags Vestur- Húnvetninga.
Mynd / Aðsend
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) töluverðar breytingar á fyrirkomulagi slátrunar og kjötvinnslu á Norðurlandi. Hugmyndir KS gengu út á að hætta sauðfjárslátrun á Hvammstanga og á Blönduósi. Þá liggur fyrir samþykkt kauptilboð milli KS og eigenda sláturhússins og kjötvinnslunnar B. Jensen í Hörgársveit.

Fjölmenni var á opnum kynningarfundi sem stjórn Kaupfélags Vestur-Húnvetninga svf. (KVH) boðaði til vegna hugmynda um breytingar á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu á Norðurlandi í félagsheimilinu Ásbyrgi miðvikudaginn 13. nóvember sl. Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS og Reimar Marteinsson, fulltrúi rekstrarstjórnar KS, kynntu þar fyrirhugaðar breytingar.

Sigurjón Rúnar Rafnsson.

„Efni fundarins á Laugarbakka, annað en það að tala um hagsmunamál bænda almennt, var að kynna hugmyndir sem ganga út á að hætta sauðfjárslátrun á Hvammstanga og á Blönduósi. Samhliða því verði aukin verkaskipting milli staða á Norðurlandi og fjölgað verði um heilsársstörf á Hvammstanga um að minnsta kosti 15 stöðugildi og að þar verði kjötvinnsla með að lágmarki 25 heilsárs stöðugildum. Engin ákvörðun hefur verið tekin um annað en þetta, enda ekki hægt fyrr en niðurstaða í samtali eigenda Sláturhúss KVH ehf. um ofangreindar tillögur liggur fyrir,“ segir Sigurjón í svari við fyrirspurn en Sláturhús KVH ehf. er í helmingseigu KS og KVH.

„Frá haustinu 2020 hefur afurðaverð fyrir dilkakjöt frá sauðfjársláturhúsum meira en tvöfaldast og hafa sauðfjárbændur sannarlega haft þörf fyrir það. Hækkunin umfram verðlag á þessu tímabili er yfir 60 prósent. Óhagræði sláturhúsa hefur á sama tíma aukist en fjöldi slátraðra dilka á árinu 2017 var yfir 40 prósent meiri en nú í haust. Fjöldinn var um 404 þúsund dilkar nú en var um 573 þúsund haustið 2017. Það er trú okkar að ef ekki verði gengið í hagræðingaraðgerðir strax sé líklegt að verð til bænda hækki ekki á næsta ári og þurfi jafnvel að lækka til að forðast mikinn taprekstur. Við lítum á það sem skyldu okkar að tala fyrir nauðsynlegri hagræðingu með hagsmuni bænda og neytenda að leiðarljósi,“ segir Sigurjón.

Bóndi vill meiri upplýsingar

Félagsmenn samvinnufélagsins KVH voru 395 í árslok 2023. Þórarinn Óli Rafnsson, sauðfjárbóndi á Staðarbakka í Miðfirði, situr í varastjórn félagsins en hann er einnig formaður Félags sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu.

„Menn voru alveg búnir að búa sig undir einhverjar hagræðingar en þessar hugmyndir eru svolítið drastískar, en svo má alvega segja á móti að ef öll þessi slátrun kemst í tvö hús þá er það klárlega hagræðing,“ segir Þórarinn, en samkvæmt hugmyndum sem kynntar voru á fundinum mun sauðfjárslátrun á Norðurlandi færast til Húsavíkur og á Sauðárkrók.

Sláturhús KVH slátraði rúmlega 78 þúsund dilkum í haust en sláturhús SAH afurða rúmlega 63 þúsund. Alls var 404.672 dilkum slátrað hér á landi í haust, mest hjá Sláturfélagi Suðurlands (SS), eða um 85 þúsund, og um 80 þúsund hjá KS á Sauðárkróki.

Þórarinn segir að lokun sláturhúsanna yrði högg fyrir sauðfjárbændur í Vestur-Húnavatnssýslu.

„Umfram allt verður þetta skerðing á þjónustu og minni fyrirsjáanleiki. Mér fannst í raun vanta meiri kynningu á þessum kynningarfundi. Við fengum engin svör við því hvernig slátrunin er fyrirhuguð, hvernig niðurröðun á dögum er hugsuð. Eins og þeir stærstu hérna sem hafa verið að senda 150–200 lömb i hverri viku. Þurfa þeir að koma með allt á tveimur dögum núna? Það er fyrirséð að það verður flókið að púsla öllu svæðinu saman.“

Hann segist gera sér grein fyrir að hagræðingar er þörf en hefði viljað fá nánari útlistanir á væntanlegu fyrirkomulagi. „Þegar maður fær ekki að vita nema brotabrot miðað við það sem eðlilegt er fer maður í þann fasa að vera tortrygginn. Við fáum aðeins útlínur en ekkert meir og þá fara menn að geta í eyðurnar. En eins og dæmið var sett upp þá eru ekki neinir aðrir kostir í stöðunni nema að samþykkja þetta – eða hafna þessu og fara þá á hausinn,“ segir Þórarinn.

Boða þarf til fundar innan KVH vegna væntanlegra breytinga. „Mér finnst voðalega erfitt að mæta á fund fyrir hönd sveitunga minna og greiða atkvæði um tillöguna svona eins og hún liggur á borðinu.“

Sláturhús KVH ehf. er sem fyrr segir í helmingseigu KS og KVH. Fjöldi ársverka eru milli 30–40 en um tíu manns hafa verið þar í fullu starfi og yfir 100 manns í sláturtíð. Árið 2023 skilaði félagið tæpum 70 milljóna kr. afkomu og var 15 milljónum ráðstafað í arð til hluthafa.

Fjölmenni var á opnum fundi KVH á Laugarbakka þar sem fulltrúar KS kynntu hugmyndir um breytingar á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu á Norðurlandi. Mynd / Aðsend

Samþykkt kauptilboð í B. Jensen

Á kynningarfundinum ræddu forsvarsmenn KS hugmyndir þess efnis að stórgripaslátrun á Norðurlandi færi fram í sláturhúsi B. Jensen við Lónsbakka í Hörgárssveit.

Sigurjón segir að fyrir liggi samþykkt kauptilboð milli KS og eigenda B. Jensen um allt hlutafé í B. Jensen. „Áreiðanleikakönnun er í gangi. Stefnt er að því að kaupsamningar verði kláraðir á allra næstu vikum. Á meðan er ekki hægt að segja meira um það mál.“

B. Jensen í Hörgársveit var fjölskyldufyrirtæki, stofnað 1968. Hjónin Erik Jensen og Ingibjörg Stella Bjarnadóttir hafa rekið fyrirtækið frá árinu 1998. Í viðtali við Bændablaðið í nóvember í fyrra er sagt frá fyrirhugaðri stækkun húsakosts B. Jensen um 1.000 fermetra sem auka átti vinnslugetu frá 60–80 tonnum á mánuði í 150–200 tonn.

Skylt efni: kjötafurðastöðvar

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...