Hvammshlíðardagatalið
Karólína Elísabetardóttir, bóndi í Hvammshlíð, gefur út sitt skemmtilega dagatal í sjötta sinn.
Almanakið er í stóru broti og inniheldur fróðleik og ljósmyndir. Hver síða er ríkulega myndskreytt, ýmist með myndum frá sveitalífinu í Hvammshlíð, eða eldri myndum sem Karólína fékk sendar úr myndasöfnum héðan og þaðan. Með hverjum mánuði fylgir upplýsingasíða þar sem ólíkum þemum eru gerð skil. Þar má nefna ferðalög á árum áður, engjaheyskap, göngur á haustin, gjóskulög og fleira áhugavert.
Dagatalinu fylgir þéttskrifaður sex síðna viðauki í A4 broti. Þar er farið yfir sögu gamalla almanaksdaga, gömlu íslensku mánaðanna og annarra tímabila sem ekki eru í almennri notkun. Þá eru skýringar á fjölmörgum mælieiningum sem hafa dottið úr notkun, eins og alin, eykt eða pottur. Karólína hefur vakið athygli á undanförnum árum fyrir frumkvöðlastarf sitt í riðurannsóknum í íslensku sauðfé. Hún býr á innsta bænum í Norðurárdal í Austur-Húnavatnssýslu, skammt frá Þverárfellsvegi. Í dagatalinu eru myndir af íbúunum í Hvammshlíð, það er Karólínu, hverjum smalahundi, hesti og kind. Dagatalið er hægt að fá á ýmsum stöðum, eða beint frá Karólínu.