Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Dýravelferðarvottanir
Á faglegum nótum 4. janúar 2019

Dýravelferðarvottanir

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir
Dýravelferðarvottanir eru staðfesting óháðs þriðja aðila á því að aðbúnaður og meðhöndlun dýranna sé í samræmi við ákveðinn dýravelferðarstaðal/reglur sem gengur lengra en almenn lög og reglugerðir um dýravelferð og aðbúnað.
 
Dýravelferðarvottanir hafa hingað til verið mest áberandi í Bandaríkjunum. Þær bandarísku velferðarvottanir sem eru leiðandi, hafa raunveruleg áhrif á aðbúnað og meðhöndlun dýranna og er helst treystandi skv. fulltrúum verkefnisins Farm Forward, eru Certified Humane Raised and Handled, Global Animal Partnership sem var upphaflega búin til af Whole Foods Market en varð síðar að almennri vottun, Animal Welfare Approved (AWA) og American Grassfed.
 
Innan Evrópusambandsins er engin sérstök velferðarvottun búfjár til en ólíkar vottanir eru í boði í ólíkum löndum, bæði opinberar og í eigu fyrirtækja. Dæmi um það er opinbera merkið í Danmörku fyrir svínaræktendur, Bedre Dyrevelfærd og merki verslunarkeðjunnar Coop, Dyrevelfærd, Det Gode Staldliv.
 
Coop, sem er með ríflega þriðjungs markaðshlutdeild í Danmörku, ákvað að gera sitt eigið merki þar sem forsvarsmenn hennar telja hið opinbera merki vera ákveðinn hvítþvott og segja sitt merki byggjast á áreiðanlegri og strangari reglum. Neytendur í Danmörku virðast á sama máli því kannanir hafa sýnt að þeir telji það ekki nógu metnaðarfullt. 
 
Samevrópsk löggjöf
 
Sífellt meiri þrýstingur er á samevrópska löggjöf sem rétt er að taka fram að væri ekki „valkvæð vottun“ eins og verkefni höfundar snérist um. Samkvæmt rannsóknargreininni „Dýravelferð innan Evrópusambandsins“ sem var gefin út árið 2017 að beiðni Evrópuþingnefndar, er þörf á almennum dýravelferðarlögum og sérstökum lögum um ákveðnar dýrategundir, þar sem núverandi dýravelferðarstefna og löggjöf ESB nái ekki til flestra dýrategunda sem haldnar séu innan sambandsins, þ.á.m. þeirra þar sem velferðarvandamálin eru mest.
 
ISO staðall um dýravelferð
 
Alþjóðlegur ISO staðall ISO/TS 34700:2016 Animal welfare management -- General requirements and guidance for organizations in the food supply chain var gefinn út í lok árs 2016. Markmið hans er að tryggja velferð sláturdýra um allan heim í gegnum ákveðin markmið sem tilgreind eru í staðlinum.  Aukin vitund almennings um meðferð sláturdýra og þrýstingur á úrbætur, sem og aðgerðir framleiðenda til að bregðast við því, stuðlaði að gerð þessa staðals.
 
Staðlinum er ætlað að hjálpa matvæla- og fóðuriðnaðinum að tryggja velferð sláturdýra í gegnum virðiskeðjuna með því að þróa dýravelferðaráætlun sem er í samræmi við velferðarviðmið (e: Terrestrial Animal Health Code) Alþjóða dýravelferðarstofnunarinnar (OIE). Aðild að henni eiga 181 ríki, þ.m.t. Ísland, en meginmarkmið hennar er að bæta dýraheilbrigði á heimsvísu.
 
Á Íslandi
 
Þegar þetta er ritað er enginn íslenskur framleiðandi með sérstaka dýravelferðarvottun. Allnokkrir gera þó út á aukna dýravelferð í sinni framleiðslu og markaðssetningu, en neytendur þurfa í þeim tilvikum að treysta orðum framleiðandans. 
 
Rétt er að taka það fram að í reglum um lífræna vottun eru strangar kröfur gerðar til dýravelferðar og má því segja að hún feli í sér dýravelferðarvottun. Nú eru fjórtán framleiðendur með slíka vottun (ræktun sauðfjár, nautgripa, varphænsna og eldisseiða, auk eins sláturhúss). Vottunarstofan Tún er faggild til slíkrar vottunar, en að því frátöldu er enginn aðili hér á landi með faggildingu til vottunar samkvæmt sérstökum dýravelferðarstaðli.  
 
– Oddný Anna Björnsdóttir er sjálfstætt starfandi ráðgjafi og bóndi í Gautavík. Greinar í Bændablaðinu um vottanir og upprunamerkingar byggjast á verkefni sem hún vann fyrir Íslandsstofu veturinn 2018. Greiningin er aðgengileg í heild sinni á vef Íslandsstofu.

9 myndir:

Skylt efni: dýravelferð | vottanir

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...