Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hrognkelsi haga sér óvenjulega við neðansjávarstrýturnar í Eyjafirði. Erlendur Bogason kafari hefur fylgst með atferli rauðmaga sem gætir hrogna þar frá fleiri en einni grásleppu. Mynd / Erlendur Bogason.
Hrognkelsi haga sér óvenjulega við neðansjávarstrýturnar í Eyjafirði. Erlendur Bogason kafari hefur fylgst með atferli rauðmaga sem gætir hrogna þar frá fleiri en einni grásleppu. Mynd / Erlendur Bogason.
Á faglegum nótum 3. apríl 2019

Fagur fiskur í sjó

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Hrognkelsið er sérkennilegur fiskur, bæði í útliti og lífsháttum. Hængurinn, þ.e. rauðmaginn, hefur óvenjulegu hlutverki að gegna miðað við kynbræður sína meðal annarra fisktegunda.

Margt er á huldu um lífshætti hrognkelsa. Þau koma upp að ströndum landsins um hrygningar­tímann en utan hans rekast fiskiskip stundum á þau miðsævis langt úti á hafi. Hrygning fer fram hér við land á grýttum og þanggrónum botni á mjög litlu dýpi. Hún hefst venjulega í febrúar/mars víðast hvar en stendur alveg fram í ágúst í Breiðafirði.

Rauðmagi hugar að hrognum á neðansjávarstrýtu.  Mynd / Erlendur Bogason.

Rauðmaginn kemur á undan kellu sinni, grásleppunni, upp að landinu og er sagður velja stað til hrygningar. Hann er aðeins minni en grásleppan og hefur fagurrauðan blett á maganum eins og segir í vísunni:

Fagur fiskur í sjó,
brettist upp á halanum
með rauða kúlu á maganum.

Grásleppan syndir sinn sjó að hrygningu lokinni en skilur rauðmagann eftir til að gæta frjóvgaðra eggjanna þar til þau klekjast út. Hann hlúir vel að þeim og ver þau fyrir óvinum. Klakið tekur yfirleitt um 2 til 3 vikur. Leitun er að hængum annarra fisktegunda sem gæta hrogna af slíkri kostgæfni en þó er það ekki óþekkt. Hængur steinbítsins sýnir þó slíka umhyggju og ekki síðri fyrir væntanlegum afkomendum.

Tvö stjórnkerfi

Fátítt er og nánast óþekkt meðal fiska að bæði kynin hafi sitt sérstaka nafn eins og tíðkast með hrognkelsin. Þau eru einnig sérstök að því leyti að tvö stjórnkerfi ríkja um veiðar þeirra eftir kyni og er aflatölum kynjanna haldið aðgreindum í skráningu Fiskistofu. Nýting hrognkelsanna miðast nær eingöngu að veiðum á grásleppu vegna hrognanna sem eru mjög verðmæt sem kunnugt er.

Rauðmaginn er einnig veiddur sérstaklega en í mjög litlum mæli og þá eingöngu fyrir innanlandsneyslu. Þess má geta að frá áramótum og fram til 20. mars hafa veiðst 8,5 tonn af rauðmaga. Á síðasta ári veiddust hins vegar um 4.500 tonn af grásleppu.

 

Merkar athuganir

Erlendur Bogason, kafari á Akureyri, hefur um árabil rannsakað lífríkið í sjónum hér við land, einkum í Eyjafirði, og skráð sögu og lífsferil ýmissa tegunda í máli og myndum.

Fyrir nokkrum árum gerði hann merkar athuganir á hrognkelsum, einkum á rauðmögum, við Arnarnesstrýturnar, sem eru neðansjávarstrýtur í Eyjafirði. Fjallað var um málið í Fiskifréttum á sínum tíma en vert er að rifja það upp hér. Erlendur gjörþekkir sjávarlífið við strýturnar. Hann rekur köfunarþjónustu fyrir ferðamenn og fer með hópa niður að strýtunum.

Suðræn stemning

Virkar hverastrýtur fundust fyrst neðansjávar í Eyjafirði árið 1997 í vísindaleiðangri. Erlendur Bogason kafaði niður á þær sama ár og fann einnig nokkrar strýtur til viðbótar sem ekki var áður vitað um. Hann hefur fylgst með strýtunum árlega síðan. Heitur sjór streymir upp strýturnar og segja má að þar ríki suðræn stemning í sjávargróðri og dýralífi. Sumarið 2005 tók Erlendur eftir því að grásleppa hafði hrygnt við strýturnar í ágústmánuði sem er að sjálfsögðu nokkuð utan hefðbundins hrygningartíma hennar norðan lands.

Allar götur síðan hafa hrognkelsi hrygnt á miðju sumri við strýturnar og eitt árið skráði Erlendur sérstaklega í máli og myndum hegðun eins rauðmaga sem hann fylgdist vel með í nokkra mánuði. Það vakti athygli hans að þessi tiltekni rauðmagi naut sérstakra vinsælda hins kynsins og má segja að hann hafi ekki verið við eina fjölina felldur.

Þjónaði sex grásleppum

Sumarið sem hér um ræðir kafaði Erlendur niður á Arnarnesstrýtuna í júnímánuði og þá sá hann rauðmaga gæta hrogna. Rauðmaginn var lengi vel einn á svæðinu og um miðjan júlí höfðu hrognin sem hann gætti klakist út. Um það leyti komu fleiri rauðmagar á fleiri strýtur þar sem aðrar grásleppur höfðu hrygnt.

Næst kafaði Erlendur 22. júlí og þá sá hann að rauðmaginn sem hann hafði fylgst með sérstaklega og þekkti aftur hafði hitt aðra grásleppu og frjóvgað hrogn hennar og gætti þeirra á sama stað og áður.

Næsta köfun var 8. ágúst og þá sást að hrognin sem rauðmaginn gætti frá grásleppu númer tvö voru rétt að klekjast út. Fleira markvert kom í ljós. Þriðja grásleppan hrygndi á sama svæði og rauðmaginn lét sér ekki muna um að gæta hrogna hennar. Auk þess voru hrogn frá þremur grásleppum á strýtu nokkrum metrum frá og rauðmaginn sinnti þeim líka. Þessi vinsæli rauðmagi, sem Erlendur fylgdist með þetta sumarið, hafði því þjónað sex grásleppum. Hann var upptekinn við þetta hlutverk frá júní og langt fram í september.

Nýta sér hitann

„Það sem mér finnst merkilegt við þetta er að engin grásleppa hrygnir í strýtunum á hefðbundnum hrygningartíma í maí. Ég verð var við að hún hrygnir alls staðar annars staðar í Eyjafirði á þeim tíma. Hrygningin á strýtunum byrjar oftast í júlí og stendur fram í ágúst og hrognin eru að klekjast út allt fram í september. Greinlegt er að hrognkelsin nýta sér hitann í strýtunum,“ sagði Erlendur Bogason er rætt var við hann í Fiskifréttum á sínum tíma um þessar merku athuganir hans.

Þess má geta til viðbótar að á síðasta ári myndaði Erlendur þegar hrogkelsaseiði komu úr eggjum. Var þar um að ræða þrjá eggjaklasa sem gætt var af tveimur rauðmögum.  

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...