Hæstu hross ársins
Afar breiður hópur frábærra hrossa kom til dóms í ár og hafa þau í heildina líklega aldrei verið öflugri en í ár. Hér fyrir neðan er umfjöllun um þrjú hæstu hrossin í hverjum flokki og efstu hross á Landsmóti.
Efstu fjögurra vetra hryssur
Alls voru sýndar 89 fjögurra vetra hryssur á árinu sem gerir rúmlega 8% sýndra hrossa. Þessi hópur hryssna á Landsmóti var með ólíkindum magnaður og verðmætt að sjá hvað þær stóðu vel flestar við dóma vorsins og sumar blómstruðu á mótinu. Jafnar með þriðju hæstu einkunn ársins, eða 8,36 í aðaleinkunn, voru þær Hugsýn frá Ketilsstöðum og Hamingja frá Árbæ. Hamingja frá Árbæ var jafnframt efst í sínum flokki á Landsmóti. Ræktandi er Vigdís Þórarinsdóttir en eigandi er G. Jóhannsson ehf. Hamingja er leirljós að lit undan Draupni frá Stuðlum, sem náði lágmörkum til heiðursverðlauna fyrir afkvæmi á árinu, og Gleði frá Árbæ. Hamingja er afar fríð og framfalleg, jafnvíg og skrefmikil alhliða hryssa með einstaklega gott hægt stökk en hún hlaut einkunnina 9,0 fyrir það. Hugsýn frá Ketilsstöðum er undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum og Hugrökk frá Ketilsstöðum, ræktendur eru Bergur Jónsson og Olil Amble og eigandi er Elín Holst. Hugsýn er vel gerð hryssa; jafnvægisgóð og með sterka yfirlínu. Þá er hún gæðingur á gangi; einstaklega burðarmikil og bráðþroska á tölti en hún hlaut 9,0 fyrir tölt og hægt tölt sem er óvanalegt af svo ungu hrossi. Með aðra hæstu einkunn ársins 8,37 var Gullbrá frá Grund II, undan Pensli frá Hvolsvelli, sem er að byrja að skila álitlegum hrossum til dóms, og Andvaradótturinni Grund frá Grund II. Ræktandi er Örn Stefánsson og hann er líka eigandi ásamt Ólöfu Stefánsdóttur. Gullbrá er falleg hryssa með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi; afar fínleg og léttbyggð. Þá er hún einkar efnileg á gangi með mikið framgrip og rými. Jafnar með hæstu einkunn ársins eða 8,38, voru þær Kría frá Árbæ og Dama frá Hjarðartúni. Dama er undan Ský frá Skálakoti og gæðingamóðurinni Dögg frá Breiðholti, ræktandi er Óskar Eyjólfsson en eigandi er Anja Egger- Meier. Dama er hreint ótrúlegt hross hvað byggingu og ganghæfni varðar; afar fríð á höfuð og glæsileg. Þá er hún mögnuð á tölti af svo ungu hrossi að vera, viljug og einörð en hún hlaut 9,5 fyrir tölt og samstarfsvilja. Þá hlaut hún 9,0 fyrir fegurð í reið enda geislar af henni undir knapa. Kría frá Árbæ er undan Spaða frá Stuðlum og Keilisdótturinni Keilu frá Árbæ. Ræktandi er Vigdís Þórarinsdóttir en eigandi er G. Jóhannsson ehf. Frábær árangur hjá Vigdísi að rækta tvær af efstu fjögurra vetra hryssum ársins. Kría er vel gerð myndarhryssa með hátt settan háls, góða fótahæð og trausta fætur. Þá er hún skrefmikil og skrokkmjúk, viljug og samstarfsfús og fer fallega í reið.
Efstu fjögurra vetra stóðhestar
Í fjögurra vetra flokki stóðhesta var sýndur 81 hestur í fullnaðardóm, eða um 7% sýndra hrossa. Með þriðju hæstu einkunn ársins var Njörður frá Hrísakoti með 8,41 í aðaleinkunn. Ræktandi og eigandi Njarðar er Sif Matthíasdóttir. Hann er undan Gljátoppi frá Miðhrauni sem er byrjaður að skila góðum ganghrossum til dóms, og Huginsdótturinni Hugrúnu frá Strönd. Njörður er traustlega gerður hestur en mætti vera með léttari frambyggingu. Þá er hann rífandi ganghestur með virkjamikið skref og góðan vilja en hann hlaut í einkunn 9,0 fyrir tölt og samstarfsvilja og 8,47 fyrir hæfileika. Með aðra hæstu einkunn ársins eða 8,48 var Dalvar frá Efsta-Seli en hann var efstur í sínum flokki á Landsmóti. Ræktendur eru Daníel Jónsson og Hilmar Sæmundsson og Daníel er eigandi ásamt Ásbirni Helga Árnasyni. Dalvar er undan Adrían frá Garðshorni á Þelamörk og Arionsdótturinni Lóu frá Efsta-Seli. Dalvar er afar fram- og fótahár og vel gerður hestur í byggingu. Þá er hann líka efnilegur á gangi, mýktar og skrefahestur með þjálan vilja og trausta lund. Með hæstu einkunn ársins í þessum flokki, 8,57 var sá rauðskjótti Feykir frá Stóra- Vatnsskarði. Ræktandi er Benedikt G. Benediktsson en eigandi er Dominik Mueser ehf. Feykir er glæsilegur hestur með einkunnina 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og samræmi. Þá er hann efnilegur á gangi; afar skrefmikill og rýmislegur og flugvakur en hann hlaut 9,0 fyrir skeið.
Efstu fimm vetra hryssur
Alls voru sýndar 192 fimm vetra hryssur á árinu og voru þær rúmlega 17% allra sýndra hrossa. Með þriðju hæstu einkunn ársins (8,55) var Hetja frá Ragnheiðarstöðum en hún er undan Þráni frá Flagbjarnarholti og Hendingu frá Úlfsstöðum, þeirri merkilegu ræktunarhryssu. Ræktandi er Helgi Jón Harðarson og hann er eigandi ásamt Birgi Má Ragnarssyni. Hetja er stórfalleg hryssa með 9,5 fyrir höfuð, bak og lend og samræmi og 9,0 fyrir háls, herðar og bóga. Þá er hún jafnvíg, hreingeng alhliða hryssa með fallegar hreyfingar. Með aðra hæstu einkunn ársins (8,67) var Nóta frá Sumarliðabæ 2, undan Spuna frá Vesturkoti og gæðingnum Flautu frá Einhamri 2, Stáladóttur. Ræktendur eru Birgir Már Ragnarsson og Silja Hrund Júlíusdóttir en eigandi er Svarthöfði-Hrossarækt ehf. Nóta er stórgæðingur með 8,88 fyrir hæfileika, hvorki meira né minna. Enda er hún jafnvíg á gangi, með mikið framgrip og fimi, háar og virkjamiklar hreyfingar og frábæran samstarfsvilja. Þá hlaut hæstu einkunn ársins í þessum flokki hryssan Arney frá Ytra-Álandi, undan Skýr frá Skálakoti og Erlu frá Skák, Álfsdóttur. Ræktandi er Úlfhildur Ída Helgadóttir og hún er eigandi ásamt Ragnari Skúlasyni. Arney er hreint ótrúlegt hross og hefur skipað sér á bekk með helstu gæðingum sögunnar og það einungis fimm vetra gömul. Hún hlaut í fyrra hæsta dóm sem fjögurra vetra hryssa hefur hlotið og mætti til dóms í vor og fór í 9,28 fyrir hæfileika sem er hæsta hæfileikaeinkunn ársins og 8,98 í aðaleinkunn. Þetta verður seint leikið eftir. Hún hlaut 9,5 fyrir tölt, brokk og fegurð í reið, einkunnina 10 fyrir samstarfsvilja og 9,0 fyrir skeið, enda óvanaleg hvað varðar jafnvægi, skrefstærð og teygju á gangi, gríðarlega orkumikil og þjál. Arney stóð efst í sínum flokki á Landsmóti.
Efstu fimm vetra stóðhestar
Í fimm vetra flokki stóðhesta var sýndur 121 hestur og voru þeir 10% sýndra hrossa ársins. Með þriðju hæstu einkunn í þessum flokki (8,66) var Þórskýr frá Leirulæk, undan Skýr frá Skálakoti og Þórdísi frá Leirulæk en sú er undan Ófeigi frá Þorláksstöðum og Daladísi frá Leirulæk. Ræktandi og eigandi er Sigurbjörn Jóhann Garðarsson. Þórskýr er vel gerður hestur með 8,5 í einkunn fyrir háls, herðar og bóga og 9,0 fyrir bak og lend og samræmi. Þá er hann frábær gæðingur; afar skrefmikill, hágengur og orkumikill í framgöngu. Hann hlaut til dæmis 9,5 í einkunn fyrir tölt og 9,0 fyrir hægt tölt sem er afar vermætt, þá hlaut hann 9,0 fyrir brokk og fegurð í reið. Með aðra hæstu einkunn ársins (8,81) er Safír frá Laugardælum, undan Þráni frá Flagbjarnarholti og Skart frá Laugardælum, Ómsdóttur. Ræktandi er Malin Widar og eigendur eru Fákshólar ehf. og Anja Egger-Meier. Safír er afar heilsteyptur, léttleikandi og mjúkur ganghestur með mikla útgeislun. Hann er vel skapaður með sterka yfirlínu í hálsi og baki og sameinar styrk og fínleika í byggingunni. Þá er hann gæðingur á gangi með 9,0 fyrir tölt og brokk og 9,5 fyrir samstarfsvilja og fegurð í reið. Með hæstu einkunn ársins (8,86) var svo Hrókur frá Skipaskaga, undan Eldjárni og Visku Aðalsdóttur frá Skipaskaga. Ræktendur eru Jón Árnason og Sigurveig Stefánsdóttir og eigandi er Skipaskagi ehf. Hrókur stóð efstur í sínum flokki á Landsmóti í sumar. Hrókur er afar fótahár hestur og myndarlegur með hátt settan og langan háls. Þá er hann skrokkmjúkur og óvanalega
skrefmikill; heilsteyptur í ganglagi og lund; fjölhæfur gæðingur.
Efstu sex vetra hryssur
Í sex vetra flokki hryssna voru sýndar 227 hryssur og voru þær 20% sýndra hrossa ársins. Jafnar með þriðju hæstu aðaleinkunn ársins, 8,53 voru þær Olga frá Lækjarmóti II og Sunna frá Haukagili í Hvítársíðu. Olga er undan Skýr frá Skálakoti og Hafdísi frá Lækjarmóti, Ómsdóttur. Ræktendur eru Ísólfur Líndal Þórisson og Mona Olsson en eigendur eru Anja Egger-Meier, Kronshof GbR og Mark Tillmann. Olga er afar fríð og vel gerð með 9,0 fyrir höfuð og alla eiginleika yfirlínunnar. Þá er Olga skrefmikil og hreingeng með 8,5 fyrir tölt, brokk og fegurð í reið og 9,0 fyrir greitt stökk; afar þjál og yfirveguð. Sunna frá Haukagili í Hvítársíðu er undan Sólon frá Skáney og Kötlu frá Steinnesi, Gammsdóttur. Ræktendur og eigendur eru Ágúst Þór Jónsson og Þóra Áslaug Magnúsdóttir. Sunna er fríð á höfuð, með hátt settan háls og frábæra yfirlínu í baki og lend enda með 9,5 fyrir þann eiginleika. Hún er ber sig vel í reið; reist og með aðsópsmiklar hreyfingar, með 9,0 fyrir bæði tölt og hægt tölt sem er verðmætt í ræktun. Með aðra hæstu einkunn ársins (8,54) var Nótt frá Ytri-Skógum undan Draupni frá Stuðlum og Orradótturinni Gná frá Ytri-Skógum. Ræktandi og eigandi er Ingimundur Vilhjálmsson. Nótt er glæsileg hryssa með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og samræmi. Hún er hreingeng og mjúk á gangi og fer afar fallega í reið; með langa og hvelfda yfirlínu og virðuleg í framgöngu. Með hæstu einkunn ársins í þessum flokki (8,60) var Stikla frá Stóra-Ási, undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum og Hendingu frá Stóra-Ási sem er undan Aðli frá Nýja-Bæ. Ræktandi og eigandi er Lára Kristín Gísladóttir. Stikla er falleg hryssa; skarpleit, fínleg og léttbyggð. Þá er hún gæðingur á gangi með 8,5 fyrir tölt og brokk og hlaut 9,5 fyrir skeið á Landsmóti, flugviljug og næm. Sú hryssa sem stóð efst á Landsmóti og var með fjórðu hæstu einkunn ársins (8,52) í þessum flokki er Hetja frá Hofi I í Öræfum. Hún er undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum og Giftingu frá Hofi, Hágangsdóttur. Ræktandi er Þorlákur Örn Bergsson og eigendur eru Arnar Heimir Lárusson, Lárus Finnbogason og Fákshólar ehf. Hetja er falleg hryssa, léttbyggð og fótahá. Þá er hún jafnvíg á gangi, léttstíg og hreingeng alhliða hryssa, flugvökur með frábæran samstarfsvilja.
Efstu sex vetra stóðhestar
Í sex vetra flokki stóðhesta voru sýndir 102 hestar sem gera um 9% sýndra hrossa. Með þriðju hæstu einkunn ársins (8,71) var Hrafn frá Oddsstöðum I, undan Vita frá Kagaðarhóli og Eldingu frá Oddsstöðum I en hún er undan Kvisti frá Skagaströnd. Ræktandi er Sigurður Oddur Ragnarsson og hann er eigandi ásamt Jakobi Svavari Sigurðssyni. Hrafn er einstaklega fallega og vel gerður hestur; með sterka og burðarmikla yfirlínu, framhár og hlutfallaréttur. Þá er hann frábær hvað ganghæfni snertir; með mikið fjaðurmagn og fótaburð. Með aðra hæstu einkunn (8,72) í þessum flokki í ár var Húni frá Ragnheiðarstöðum, undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum og Hendingu frá Úlfsstöðum. Ræktandi er Helgi Jón Harðarson og eigendur eru Flemming Fast og Gitte Fast Lambertsen. Húni stóð jafnframt hæstur í sínum flokki á Landsmóti í sumar. Húni er djásn að allri gerð; afar fríður og fínlegur með frábæra frambyggingu og samræmi. Þá er hann afar léttstígur og mjúkur og það geislar af honum í reið enda með 9,5 fyrir tölt, brokk, samstarfsvilja og fegurð í reið. Með hæstu einkunn ársins (8,80) í sex vetra flokki stóðhesta var svo Grímar frá Þúfum, undan Sóloni og Grýlu frá Þúfum. Ræktandi og eigandi er Mette Mannseth. Grímar er reistur og jafnvaxinn hestur með frábæra ganghæfni, hann býr yfir miklu svifi og fjaðurmagni á brokki enda hlaut hann 9,5 fyrir það. Þá er hann afar fjölhæfur alhliða ganghestur og hlaut þá mögnuðu einkunn 10 fyrir fet og 9,01 fyrir hæfileika hvorki meira né minna.
Elsti flokkur hryssna
Í elsta flokki hryssna voru sýndar 268 hryssur og voru þær 23% allra sýndra hrossa. Þetta var magnaður hópur og efstu hryssur á Landsmóti með ólíkindum sterkar. Með þriðju hæstu einkunn ársins (8,79) var stólpagripurinn Nóta frá Flugumýri II, undan Blysfara frá Neðra- Hálsi og Smellu frá Flugumýri, Keilisdóttur. Ræktendur eru Eyrún Anna Pálsdóttir og Páll Bjarki Pálsson og eigendur eru Eyrún Ýr Pálsdóttir og Martin Skovsende. Nóta er afar gerðarleg hryssa; reist með langan háls og frábært samræmi sem hún hlaut einkunnina 9,5 fyrir. Þá hefur hún myndarlega framgöngu í reið, sérlega skrefmikil og flugrúm á öllum gangi og flugvökur með 9,5 fyrir skeið. Með aðra hæstu einkunn ársins (8,82) var Aþena frá Þjóðólfshaga 1, undan Skýr frá Skálakoti og Örnu frá Skipaskaga. Ræktendur eru Sigurður Sigurðarson og Sigríður Arndís Þórðardóttir og eigandi er Svarthöfði-Hrossarækt ehf. Aþena er með glæsilegri alhliða hrossum sem komu fram í ár. Afar fjölhæf á gangi með 9,0 fyrir tölt, brokk, skeið og hægt stökk en alltaf eru fleiri og fleiri alhliða hross að sameina mikil gæði á skeiði og hægu stökki sem er afar verðmæt þróun. Þá býr Aþena yfir miklu fasi og útgeislun, flugviljug og þjál, enda með 9,5 fyrir bæði samstarfsvilja og fegurð í reið; ævintýradrottning. Með hæstu einkunn ársins (8,91) var svo Hildur frá Fákshólum, undan Ölni frá Akranesi og Gnýpu frá Leirulæk sem er undan Stikli frá Skrúð. Ræktandi er Jakob Svavar Sigurðsson og eigandi er Gut Birkholz GbR. Hildur er afar fríð og fínleg hryssa með mikinn styrk í byggingunni. Þá er hún afar fim og fjölhæf á gangi og uppteiknuð á skeiði enda hlaut hún einkunnina 10 fyrir skeið, alhliða gæðingur með 9,03 fyrir hæfileika.
Elsti flokkur stóðhesta
Í elsta flokki stóðhesta voru sýndir 74 hestar og voru þeir samtals 6% sýndra hrossa. Drangur frá Steinnesi og Jökull frá Breiðholti í Flóa voru jafnir með þriðju hæstu einkunn ársins, 8,66 en Drangur var efstur í þessum flokki á Landsmóti í sumar. Drangur er undan Draupni frá Stuðlum og Ólgu frá Steinnesi en hún er undan Gammi frá Steinnesi. Ræktandi er Magnús Jósefsson og er hann eigandi ásamt Horses ehf. Drangur er stólpamyndarlegur hestur og traustlega gerður með t.d. 9,0 fyrir samræmi og fótagerð og 9,5 fyrir hófa. Þá er hann afar aðsópsmikill í reið og einkar svifmikill á brokki sem hann hlaut 9,5 fyrir. Jökull frá Breiðholti í Flóa er undan Huginn frá Haga I og gæðingamóðurinni Gunnvöru frá Miðsitju, Spunadóttur frá Miðsitju. Jökull er fínlegur hestur með langan og grannan háls, jafnvægisgóður og fótahár. Þá er Jökull alhliða gæðingur með 9,0 fyrir tölt, hægt tölt og skeið; hreingengur og mjúkur með úrvals samstarfsvilja. Frosti frá Hjarðartúni var með aðra hæstu einkunn ársins, 8,70 í aðaleinkunn. Hann er undan Skýr frá Skálakoti og Hrund frá Ragnheiðarstöðum. Ræktandi er Óskar Eyjólfsson og eigendur eru Einhyrningur ehf., Bjarni Elvar Pétursson og Kristín Heimisdóttir. Frosti var sýndur á síðsumarssýningu á Hellu og er afar fallegur hestur með hvelfdan háls, góða framhæð og léttan bol. Þá er hann skrefmikill, eðlishágengur og fasmikill í reið, alhliða gæðingur. Með hæstu einkunn ársins (8,71) í elsta flokki stóðhesta var Ottesen frá Ljósafossi, undan Auði frá Lundum II og Sunnu-Rós frá Úlfljótsvatni, Keilisdóttur. Ræktandi er Björn Þór Björnsson og hann er eigandi ásamt Svanheiði Lóu Rafnsdóttur. Ottesen er fallegur hestur með hvelfdan og reistan háls og svívalan, léttan bol og hlaut 8,5 fyrir háls, herðar og bóga og 9,0 fyrir bak og lend og samræmi. Þá er hann einkar sjálfberandi á tölti, hreingengur á öllum gangtegundum og ber sig vel og fallega en hann hlaut t.d. 9,0 fyrir tölt, skeið og fegurð í reið og 9,5 fyrir samstarsvilja enda einkar þjáll og samstarfsfús.