Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Tandurhreinn gripur með nægilegt rými á bitum.
Tandurhreinn gripur með nægilegt rými á bitum.
Á faglegum nótum 15. júlí 2020

Hreinni nautgripir þrífast betur

Höfundur: Jóna Þórunn Ragnarsdóttir
Öll viljum við að gripunum okkar líði sem best og einn af þáttunum sem tryggir góða velferð gripa er hreinleiki þeirra. Blautir og skítugir gripir þurfa að eyða meiri orku til að halda á sér hita en þeir sem hreinir eru og nýta því fóður verr til vaxtar. 
 
Klesstur feldur nær ekki að mynda loftrými nær skinninu til að halda á gripnum hita auk þess sem þeir eru einnig móttækilegri gagnvart alls konar smitefnum og húðsýkingum. En hvernig má bæta velferð gripanna og auka hreinleika?
 
Loftræsting
 
Loftræsting gripahúsa er mjög mikilvæg, sér í lagi búi menn með holdagripi sem verða loðnir yfir vetrartímann. Hitastig í húsakynnum nautgripa ætti að vera innan við 10 gráður nema hjá smákálfum þar sem gott er að hafa um 15 stiga hita, enda er vambarstarfsemin ekki farin að framleiða varma af neinu gagni. Lægra hitastig dregur einnig úr fjölgun sýkla í umhverfinu og ýtir síður undir að fjósið verði fjölgunarsvæði flugna.
 
Nóg af köldu og þurru lofti inn, gerir flutning hita og raka út nægilegan
 
Stór og góð dreifing loftinntaka og nægilega öflugar útsogsviftur (eða útsogsop í náttúrulegu loftsræstikerfi) tryggja flutning raka loftsins út úr fjósinu og kemur í veg fyrir að gripir svitni og klepri. Gott er að pæla í og gera sér grein fyrir virkni loftræstingarinnar í hverju útihúsi fyrir sig, t.d. hvaða áhrif það hefur að opna hurðir og hleypa lofti inn á öðrum stöðum en í gegnum loftinntök, minnkar loftræsting í kringum gripina en verður góð loftræsting á fóðurgangi sem nýtist engum? Hvar kemur ferska loftið inn, og hvernig ferðast það um bygginguna?
 
Rými og undirlag/undirburður
 
Aukið rými gripa gerir það að verkum að þeir geta frekar valið sér hreint legusvæði. Kálfar eiga undantekningalaust að hafa legupláss á hálmi eða öðru mjúku og þurru undirlagi en ekki á köldum og blautum bitum. Eldri gripir færast svo ýmist yfir á bita (helst klædda með mjúku efni til að mýkja undir þunga skrokka) eða legubása. Almennt er talið að hálmstíur séu of vinnu- og aðfangafrekar fyrir gripi sem komnir eru yfir hálfsárs-aldurinn, enda éta þeir mikið og skíta í takt við það. Rýmisþarfir eru meiri í hálmstíum en í stíum með bitum og sé þétt á gripnunum á hálminum þarf að bera oftar undir og passa vel upp á gæði hálmsins.
 
Þarna kemur einnig góð loftræsting til góða því illa loftræst hálmstía blotnar fyrr upp. Erfitt getur orðið að þurrka hálminn að nýju ef hann eitt sinn verður of blautur. Mikilvægt er að setja mikinn hálm inn í upphafi og besta sparnaðarráðið er að nota það mikið í einu að hann nái ekki að blotna.
Ef of rúmt er á gripum á bitum þá vill líka safnast upp skítur á bitunum. Nauðsynlegt er þó að rýmið standist reglugerð um velferð nautgripa svo að allir gripir geti lagst og geti étið samtímis.
 
Fóðrun
 
Fóður gripanna hefur áhrif á mykjuna. Sé of mikið kjarnfóður eða mjög auðmelt, blautt gróffóður gefið verður mjög þunnt á gripunum. Skíturinn klessist frekar í halann og á hæklana, auk þess sem kúadellurnar líta ekki lengur út eins og sérbakað vínarbrauð í laginu – með upphækkaðan kant og hringi. Örlítill hálmur eða kjarnfóðurblanda með meira tréni eða torleystari sterkju hefur stemmandi áhrif á meltinguna og bætir hreinleika gripanna mjög. Jöfn fóðrun allan eldistímann er mikilvægari en að reyna að bata gripina fyrir slátrun. 
 
Meðhöndlun
 
Til að halda gripunum almennilega hreinum þarf að venja þá snemma við að láta klippa sig og bursta. Betra er að temja 70 kg kálf en 700 kg bola og því um að gera að umgangast gripina sem mest fyrst á æviskeiðinu og venja þá við að láta klippa sig og nota kúaklóruna óspart. Ekki stefna eigin lífi og limum í hættu við að snurfusa gripina heldur koma sér upp góðri aðstöðu til að klippa og þannig koma í veg fyrir að neytendur stefni eigin lífi og heilsu í hættu vegna kross-smits við slátrun. Læsigrindur ættu að vera í stíum þar sem gripir eru meðhöndlaðir eða nota sérstakan meðhöndlunarbás til verksins.
 
Kviður og læri safna mestum skít og eru einnig mikilvægustu staðirnir þegar kemur að fláningu. Rúningsklippur (eða allavega rúningskambar og -hnífar) duga mjög vel á holdagripi sem koma loðnir á hús að hausti og svo er hreinlætinu viðhaldið með reglulegri snyrtingu í gegnum veturinn. Klippt er með hárunum í fyrstu umferð og seinna tekin önnur umferð nær skinninu til að draga enn úr hættu á því að skítur festist í feldinum. Nautgripum finnst almennt gott að láta klóra sér á mölum og hala svo þeir taka mjög vel í allskyns kjass og strokur sem hægt er að nýta sér til tamningar. Eins er hægt að setja upp kúaklórur eða einfaldlega strákústa í stíum svo gripirnir geti snurfusað sig á kollinum. 
 
Bústjórn
 
Ef í harðbakkann slær er hægt að skipuleggja slátrun þannig að gripirnir séu sendir á þeim árstíma þegar þægilegast er að halda þeim hreinum, t.d.  seinnipart sumars þegar hefur verið þurrt og gott loft í húsunum í lengri tíma, eða ef uxar eru aldir utandyra þá eru þeir hreinastir á svipuðum tíma. Hafa ber þó í huga að á þeim árstíma er yfirleitt mest framboð af sláturgripum og getur reynst erfitt að koma gripum í sláturhús, auk þess sem eftirspurn eftir nautakjöti fer dvínandi þegar líður á haustið og þar með lækkar oft afurðastöðva­verðið.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...