Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sjálfbærni í matvælaframleiðslu
Mynd / Lyzadanger
Á faglegum nótum 20. ágúst 2019

Sjálfbærni í matvælaframleiðslu

Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Undanfarin ár hefur umræða á Vesturlöndum um aukna sjálfbærni matvælaframleiðslu vaxið jafnt og þétt og fleiri og fleiri alþjóðleg fyrirtæki í mat­v­ælaframleiðslu hafa nú sett sér skýr markmið varðandi sjálf­bærni. 
 
Sjálbærni í matvælaframleiðslu er reyndar hreint ekki auðvelt að meta og mæla, en megin inntakið með sjálfbærni er að þá sé ekki við framleiðslu matvælanna gengið á auðlindir og framleiðslan mengi ekki út frá sér. Áður fyrr var ekki mikið talað um sótsporið þegar rætt var um sjálfbærni í matvælaframleiðslu, en í dag er það órjúfanlegur hluti af hugtakinu og mörg alþjóðleg matvælafyrirtæki hafa nú markað sér stefnu sem snýr að kolefnisjöfnun matvælaframleiðslunnar, enda er það hugtak sem flestir neytendur geta tengt sig við.
 
Stór matvælafyrirtæki stofnuðu sam-ráðsvettvanginn SAI, Sustainable Agriculture Initiative. FSA-staðallinn metur sjálfbærni í matvælaframleiðslu.
 
Áratuga umræða
 
Þó svo að umræðan um sjálfbærni og umhverfisáhrif neysluhátta fólks sé ofarlega á dagskránni í dag þá er hún alls ekki ný af nálinni og á sér áratugalanga sögu. Þegar í lok síðustu aldar var farið að tala um mikilvægi sjálfbærrar matvælaframleiðslu og flestum vísindamönnum varð strax ljóst að ef ná á utan um alla þætti sem snerta umhverfisáhrif matvælaframleiðslunnar þá vantaði sárlega viðurkenndar aðferðir til að styðjast við. Þessi staða leiddi til þess að árið 2002 stofnuðu stóru matvælafyrirtækin Nestlé, Unilever og Danone samstarfsvettvanginn SAI Platform en SAI er skamm­stöfun fyrir „Sustainable Agriculture Initiative“ sem mætti þýða sem „Frumkvæði að sjálbærum land­búnaði“. Nafnið ber réttilega með sér að þessi þrjú stórfyrirtæki voru þarna að stíga skref sem ekki hafði verið stigið áður.
 
Markmiðið
 
Allt frá stofnun SAI Platform hafa stofnendurnir haft það að leiðarljósi að auka þekkingu á sjálfbærni og finna leiðir til að meta umhverfisáhrif matvælaframleiðslunnar, allt frá haga í maga, og er markmiðið að stuðla að umhverfisvænni mat­vælaframleiðslu með áherslu á það að ganga ekki á náttúrulegar auðlindir, draga úr almennum nei-kvæðum umhverfisáhrfium, stuðla að bættum mannréttindum og góðri velferð dýra og með því skapa grundvöll að bættum skilyrðum til matvælaframleiðslunnar í heiminum til lengri tíma litið. Þá er markmið SAI Platform einnig að stuðla að bættri þekkingu meðal almennings á sjálfbærni sem og að skapa grundvöll að einsleitri vottun á sjálfbærni.
 
Meira en 100 fyrirtæki
 
Þetta samstarf er í raun afar sérstakt enda eru fyrirtækin sem að þessum vettvangi standa í mikilli samkeppni sín á milli. Þrátt fyrir það standa þau saman að þessu mikil-væga máli og það sem meira er, síðan SAI Platform var stofnað hafa ótal fyrirtæki og stofnanir slegist í hópinn og í dag eru meira en 100 stórfyrirtæki sem standa að verkefninu og á meðal annarra stórfyrirtækja sem nú standa að SAI Platform eru fyrirtæki á ýmsum sviðum innan matvæla- og drykkjarframleiðslu eins og Coca-Cola, Arla Foods, Fonterra, Heineken, Kellogg‘s, Mars, McCain, McDonalds, Pepsico, Starbucks og fleiri þekkt fyrirtæki mætti nefna.
 
Samstarf við fagaðila
 
Auk þess að vera með félagsaðild fyrirtækja eru ýmsar stofnanir, rannsóknaraðilar, háskólar og félög með aukaaðild að SAI Platform og með þessu umsvifamikla samstarfi hefur því skapast umræðugrundvöllur sem nær að fanga bæði vísinda- og markaðsstarf með umhverfismál að leiðarljósi. Þannig eru haldnar ótal ráðstefnur árlega á vegum SAI Platform þar sem ræddar eru vísindalegar niðurstöður sem og markaðsleg tækifæri sem skapast með því að markaðssetja vörur með merkjum um aukna eða fulla sjálf-bærni.
 
Kolefnisjöfnun matvælaframleiðslu
 
Eitt af megin verkefnum SAI Platform er að miðla þekkingu og reynslu á milli fagaðila og fyrirtækja varðandi hvernig það er hægt að framleiða matvæli sem eru kolefnis-jöfnuð, þ.e. ekki með neitt sótspor. Mörg fyrirtæki í matvælaframleiðslu í dag hafa sett sér bæði skammtíma- og langtímamarkmið í þessum efnum og undanfarna mánuði hafa mörg þeirra m.a. kynnt áform um 100% kolefnisjöfnun sinnar framleiðslu á komandi árum og áratugum. Það er dagljóst að SAI Platform mun hafa þýðingarmikið hlutverk í framtíðinni til þess að bæði aðstoða fyrirtæki til að ná þessum framtíðarmarkmiðum en einnig til þess að skapa grundvöll til einsleitrar vottunar á framleiðslunni.
 
Hvernig á að miðla þekkingu og reynslu á milli fagaðila og fyrirtækja í matvæla­geiranum um kolefnisjöfnun og umhverfisáhrif framleiðslunnar? Mynd / Marisa Pérez
 
FSA-kerfið
 
Í dag eru til í heiminum ótal mis­munandi kerfi til þess að meta sjálfbærni við matvælaframleiðslu og fyrir vikið getur matið verið afar breytilegt á milli aðila. Þessu má í raun líkja við lífræna vottun, en margir neytendur kunna e.t.v. að halda að lífræn vottun sé einhvers konar alþjóðlegt staðlað vottunarferli en svo er alls ekki. Þannig getur verið töluverður munur á milli landa varðandi þær kröfur sem gerðar eru til lífrænt vottaðrar framleiðslu, jafnvel þó svo að um nákvæmlega sömu lífrænt vottuðu vöru sé að ræða. Lítið dæmi um þetta er lífrænt vottuð drykkjarmjólk en kröfurnar á milli landa geta verið afar ólíkar þegar kemur að lífrænni vottun á mjólk. Þannig er t.d. ekki gerð krafa um beit lífrænt vottaðra mjólkurkúa í Kína, en á Íslandi er það krafa á öllum búum, bæði lífrænt vottuðum og ekki! Þessi staðreynd, að á bak við lífrænt vottaðar vörur geti verið gerðar ólíkar kröfur, eru auðvitað óheppilegar og geta valdið misskilningi meðal neytenda og skekkt samkeppnisstöðu fyrirtækja sem selja slíkar vörur.
 
Í þessu ljósi náðu fyrirtækin sem standa í dag að SAI Platform, sem eru án nokkurs vafa þau langumsvifamestu í matvæla­framleiðslu í heiminum, samstöðu um að sammælast um einn staðal sem gengur þvert á öll landamæri og er notaður þegar sjálfbærni í matvælaframleiðslu er metin. Þessi staðall kallast FSA- matskerfið sem er skammstöfun fyrir Farm Sustainability Assessment sem þýða mætti sem „Matskerfi fyrir sjálfbærni í landbúnaði“.
 
Gull, silfur og brons
 
Þegar sjálfbærni framleiðslu er metin með FSA-kerfinu fær frumframleiðslan mismunandi vottun eftir því hve upplýsingarnar um framleiðsluna eru góðar. Þannig er hægt að fá svokallaða gullvottun, silfur eða brons en það vísar í raun ekki til þess hve sjálfbær framleiðslan er heldur hve ítarlegar upplýsingarnar eru um framleiðsluna. Þannig getur verið erfitt og flókið að afla allra upplýsinga sem þarf til að votta flókna landbúnaðarframleiðslu sem mögulega byggir á margvíslegum aðföngum frá ólíkum löndum. Í slíkum tilvikum er ekki hægt að gefa viðkomandi annað en t.d. bronsvottun en eftir því sem upplýsingarnar eru betri því betri verður vottunin og þar með breytist hún í annað hvort silfur eða gull.
 
Stuðlar að framförum
 
FSA kerfið, sem núna er notað í 32 löndum, gerir það að verkum að nú er hægt með frekar einföldum hætti að gera úttekt á mismunandi greinum í landbúnaði og með skjótvirkum hætti benda á það sem betur má fara svo framleiðslan verði sjálfbærari en hún er í dag. Kerfið byggir á því að matsfólk notar staðlað kerfi til að meta frumframleiðsluna og tekur kerfið á framleiðslu matvæla frá akuryrkju, frá trjám og runnum, framleiðslu á grænmeti og framleiðslu búfjárafurða. Þegar FSA matið liggur fyrir fær viðkomandi bóndi eða framleiðandi svo leiðbeiningar um það hvernig megi bæta úr og geta þetta t.d. verið atriði eins og að bæta framleiðsluna svo hver hektari lands nýtist betur, hvernig megi draga úr þörf fyrir utanaðkomandi aðföng og þar fram eftir götunum. Niðurstöður úttektarinnar nýtist því með öðrum orðum eins og einskonar handbók að bættum búskaparháttum.
 
Sjálfsmat mikilvægt
 
Hluti af kerfinu sem SAI Platform notar byggir á sjálfsmati bænda en þetta er gert til þess að draga úr eftirlitskostnaði og um leið að auka þekkingu bændanna á umhverfismálunum. Bændur geta því sjálfir metið eigin búskap og fundið með úttekt sinni þau atriði sem víkja mest frá viðmiðum og í kjölfarið geta bændurnir svo hafið vinnu við að bæta úr viðkomandi fráviki.
 
Vínekrur í Kanada. Megininntakið með sjálfbærni er að þá sé ekki við framleiðslu matvælanna gengið á auðlindir og framleiðslan mengi ekki út frá sér.
 
Þarf að ganga lengra
 
Enn sem komið er hefur samstarf fyrirtækjanna fyrst og fremst horft til frumframleiðslunnar en nú eru fleiri og fleiri fyrirtæki farin að horfa til allrar virðiskeðjunnar þ.e. einnig ferilinn við vinnslu matvælanna, flutninga þeirra um heiminn, kælingar og þar fram eftir götunum. Þess er því vænst að á komandi árum muni samstarfið um SAI Plat-form einnig ná til framangreindra þátta og með því geti því skapast grundvöllur að einu alþjóðlegu gæðamatskerfi sem nái yfir allan framleiðslu-, vinnslu-, dreifingar- og söluferil matvælanna. Þá fyrst verður raunverulega hægt að bera saman sótspor matvælanna alla leið frá haga í maga. Það má þó búast við því að það muni taka nokkurn tíma að ná utan um alla þessa þætti enda gríðarlega flókið að skrásetja allar breytur og meta áhrif þeirra. Vinnan er þó hafin við það og fyrr en varir verða þessar upplýsingar aðgengilegar og nýtanlegar.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...