Um sýni úr heyjum, jarðvegi og búfjáráburði
Að gera góða áburðaráætlun getur verið kúnst og reynist stundum talsvert vandaverk. Þó gerð hennar sé sannarlega ekki forgangsverk bænda þessa dagana er þó rétt að huga að gagnaöflun og undirbúningi hennar. Skráning á ræktunarsögu, upplýsingum um uppskeru, áburðarnotkun, bæði á tilbúnum áburði og búfjáráburði og fleiri þáttum gefa gagnlegar upplýsingar sem nýtast við áætlanagerðina.
Efnagreiningar á heyi, jarðvegi og búfjáráburði gefa líka mikilvægar og gagnlegar upplýsingar við gerð áburðaráætlana. Heyefnagreiningar segja m.a. til um hvernig tekist hefur til með áburðargjöf og hvort innihald næringarefna er í hæfilegu magni og hlutföll þeirra eðlileg í uppskeru. Lág gildi einstakra næringarefna í heyjum geta valdið minni sprettu og há gildi gefa til kynna að um ofgnótt sé að ræða og mögulega útskolun viðkomandi næringarefnis og þannig tapi úr næringarhringrás búsins. Þar fyrir utan eru niðurstöður heyefnagreininga mikilvægar fyrir skipulag fóðrunar og gerð fóðuráætlana.
Efnagreiningar á jarðvegi gefa upplýsingar um sýrustig jarðvegs og innihald hans af helstu næringarefnum.
Jarðvegssýnaniðurstöður sýna forða helstu plöntunæringarefna í jarðvegi. Samantektir hafa sýnt að tiltekin tún geta auðveldlega verið með mikinn forða af einhverju einu plöntunæringarefni og lítinn sem engan forða af öðru næringarefni. Slíkar upplýsingar hjálpa til við val á áburði sem hentar á móti næringarefnainnihaldi ræktunarjarðvegs okkar.
Sýrustig í landbúnaðarlandi á Íslandi er breytilegur. Hann er bæði breytilegur á milli landshluta og einnig innan hvers landshluta. Hægt er að líta á sýrustig í jarðvegi sem mælikvarða til að meta eiginleika jarðvegs til þess að geyma plöntunæringarefni og einnig er sýrustig ráðandi þáttur í lifun sáðgresis (smára, bygg og annað). Öll sáðgresi hafa sitt kjörsýrustig og það er mismunandi á milli tegunda. Mælt er með að taka jarðvegssýni á 5-7 ára fresti úr ræktunarlandi til að fylgjast með þróun sýrustigs og innihaldi næringarefna í jarðvegi.
Efnagreiningar á búfjáráburði hafa sýnt að mikill breytileiki getur verið á innihaldi hans milli búa. Frávik frá töflugildum geta verið talsverð ýmist fyrir eitt næringarefni eða fleiri. Þegar notast er við töflugildin getur verið mikill munur á því sem áætlað er að borið sé á af einstökum næringarefnum og raunverulega er gert, sé frávik í innihaldi búfjáráburðarins á viðkomandi búi mikið. Í þannig tilvikum má búast við að með tímanum verði skortur á viðkomandi næringarefni sé lítið af því en ofgnótt sé gildið hátt m.v. töflugildi. Sem dæmi má ætla að séu gildi fyrir kalí í búfjáráburði lág verði það lágt í heyjum og á sama hátt ef kalí er lágt í heyjum í lengri tíma lækki það með tímanum í búfjáráburðinum.
Þurrefnisinnihald mykju er mikilvægt að vita því það er ólíkt milli búa og milli dreifinga á sama búi m.a. vegna mismikillar vatnsblöndunar og hefur það mikið að segja um magn næringarefna sem á er borið.
Á heimasíðu RML er hnappur til að panta hey- og jarðvegssýnatöku. Þar er einnig (undir ráðgjöf/áburður) að finna leiðbeiningar um töku á sýnum úr búfjáráburði. Einnig má að sjálfsögðu hafa samband og panta sýnatöku í síma 5165000.