Varðveisla sjaldgæfs gróðurs og plantna í útrýmingarhættu
Þrátt fyrir að Stellenbosch-grasagarðurinn í Suður-Afríku sé annar af megin grasagörðum landsins fer ekki mikið fyrir honum og jafnvel vandasamt að finna garðinn ef maður er ekki staðkunnugur.
Stellenbosch er elsti háskólagrasagarðurinn í Suður-Afríku og hefur áhersla hans frá upphafi verið að varðveita sjaldgæfar plöntur í útrýmingarhættu.
Stellenbosch-háskólagrasagarðurinn er rúmlega hundrað ára og með virtari grasagörðum í heimi.
Saga garðsins nær aftur til 1902 þegar grasafræðingurinn og fyrsti lektor Suður-Afríku í grasafræði, Augusta Vera Duthie, hóf að rækta plöntur við aðalbyggingu skólans til að leiðbeina nemendum um flóru Suður-Afríku. Stellenbosch er elsti háskólagrasagarðurinn í landinu en háskólinn er staðsettur í samnefndri borg á vestanverðum Hornhöfða um 50 kílómetra austan við Höfðaborg.
Vinsældir garðsins til kennslu urðu strax miklar og árið 1921 var ákveðið formlega að hann yrði háskólagrasagarður með þeirri rannsóknaskyldu sem fylgir slíkri upphefð.
Vatnaliljugarðurinn.
Minni en ég átti von á
Síðastliðið haust heimsótti ég Suður-Afríku ásamt nokkrum Íslendingum og var talsvert spenntur fyrir að koma í garðinn. Allt í kringum Stellenbosch eru frjósöm vínræktarhéruð og vínsmökkunarbýli sem gaman var að heimsækja og smakka þar á vínum úr ólíkum vínþrúgum.
Ég hafði lesið mér aðeins til um sögu hans og vissi að garðurinn naut mikillar virðingar. Það kom mér því á óvart hversu lítill garðurinn er en á sama tíma var hann vel nýttur og plöntur og lítil gróðurhús úti um allt eins og vera ber í grasagarði.
Eyðimerkurtegundin Welwitschia mirabilis komst í heimsfréttirnar árið 1949 þegar hún blómstraði í Stellenbosch og myndaði fræ. Eitthvað sem ekki hafði tekist áður í ræktun.
Fjölbreytni í garðinum er mikil og í dag má þar sjá plöntur víða að úr Afríku bæði utandyra og í gróðurhúsunum.
Garðinum er skipt í sjö megin svæði sem hvert er með sínu sniði og flóru og hvert öðru áhugaverðara. Þar er tjörn með vatnaliljum, skyggður garður með bonsai-trjám, burknahús, pálmahluti, kryddjurtagarður, kaktusa- og þykkblöðungahús og svæði sem er undirlagt próteum sem eru einkennisblóm Suður-Afríku. Í garðinum er einnig ræktað grænmeti og horn með kjötætuplöntum.
Blóm paradísarfuglsins eru áberandi í suðurhluta Suður-Afríku.
Metnaðarfullir umsjónarmenn
Garðurinn var stækkaður 1925 og fyrsti forstöðumaður hans, dr. Hans Herre, ráðinn. Fimm árum síðar var fyrsti garðyrkjufræðingurinn, Helmut Meyer, ráðinn til að sinna garðinum. Herre og Meyer lögðu mikinn metnað í vinnu sína og garðurinn varð fljótt frægur um víða veröld fyrir úrval sitt af innlendum suður-afrískum plöntum og sem áfangastaður ferðamanna. Þeir félagar voru duglegir að safna tegundum sem áður voru óþekktar í grasagörðum og nokkrar tegundir og ættkvíslir eins og Meyerophytum meyeri, Herreanthus meyeri og Cyrtanthus herrei nefndar þeim til heiðurs. Auk þess sem fjöldi tegunda eins og Ischyrolepis duthieae, Ornithogalum duthiae og ættkvíslin Duthieastrum eru nefndar í höfuðið á Ágústu Veru Duthie.
Lára Jónsdóttir garðyrkjufræðingur, sem var með í hópnum sem heimsótti Stellenbosch-háskólagrasagarðinn.
Herra komst í heimsfréttirnar 1949 þegar eyðimerkurtegundin Welwitschia mirabilis, sem hann ræktaði af fræi 23 árum áður, blómstraði í garðinum og myndaði fræ, eitthvað sem ekki hafði tekist áður í ræktun.
Garðurinn hefur tekið miklum breytingum á þeim rúmum hundrað árum sem hann hefur verið starfandi og einu minjar um upphaflegt útlit hans er að finna í kryddjurtahluta hans. Auk þess sem í garðinum er enn hægt að skoða plöntur og tré sem var plantað á fyrstu árum hans.
Baobab-bonsai.
Katjiepiering
Fyrir þá sem ekki nenna að skoða plöntur alla daga er í garðinum notaleg bókabúð og kaffihús sem nefnist Katjiepiering en heitið er komið úr afrísku og er nafnið á gardeníu á því máli. Auk kaffis og léttra veitinga er boðið upp á ljómandi góð hvítvín sem hægt er að fá í góðu skjóli fyrir sterkri Afríkusólinni.
Í Stellenbosch-garðinum er enn að finna tré sem voru gróðursett þar á fyrsta áratug síðustu aldar.